Landsvirkjun undirritar nýjan samning um orkusölu við Alcan á Íslandi

Landsvirkjun og Alcan á Íslandi hafa samið um orkusölu til álversins í Straumsvík. Samningurinn er undirritaður með hefðbundnum fyrirvörum, meðal annars samþykki stjórna beggja félaganna. Annars vegar er endursamið um verð á núverandi orkusölu til álversins (2.932 GWst) og hins vegar er samið um afhendingu viðbótar orku (658 GWst) vegna áætlaðrar framleiðsluaukningar álversins.

Nýtt raforkuverð tekur gildi 1. október 2010. Það er í bandaríkjadölum, verðbætt miðað við bandaríska neysluvísitölu og er álverðstenging afnumin. Til að mæta aukinni orkusölu mun Landsvirkjun ráðast í byggingu Búðarhálsvirkjunar og verða útboð auglýst á næstu vikum. Gert er ráð fyrir að afhending orku frá virkjuninni hefjist árið 2013.

Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.

Orkan og ferðaþjónustan

Fréttablaðsgreins Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Miklar vonir eru nú bundnar við ferðaþjónustu sem vaxtargrein í íslensku atvinnulífi.  Óhætt er að fullyrða að orkufyrirtækin leggi þar sitt af mörkum. Í tengslum við landkynningu er þannig gjarnan leitað til íslenskra orkufyrirtækja og þau fengin til að setja þar nýtingu endurnýjanlegrar orku í forgrunn. Dæmi um þetta er íslenski skálinn á heimssýningunni í Shanghai.

Yfir 140 þúsund gestir árið 2009
Á síðasta ári heimsóttu yfir 140 þúsund manns íslenskar virkjanir og upplýsingamiðstöðvar orku- og veitufyrirtækja. Munar þar mest um Hellisheiðarvirkjun sem rúmlega 103 þúsund manns heimsóttu, mest erlendir ferðamenn, en virkjunin er orðin fastur liður í reglulegum ferðum nokkurra ferðaþjónustufyrirtækja að Gullfossi og Geysi. Orkuveita Reykjavíkur tók einnig á móti um tíu þúsund manns á Nesjavöllum, sjö þúsund gestir heimsóttu virkjanir HS Orku á Reykjanesi og um 20  þúsund manns heimsóttu virkjanir og upplýsingamiðstöðvar Landsvirkjunar víða um land. Græna orkan trekkir. Önnur orku- og veitufyrirtæki víðs vegar um land taka einnig á móti gestum og sum fyrirtækin hafa lagt verulega fjármuni í gerð göngustíga, uppgræðslu og kortagerð af svæðum í nágrenni sinna virkjana, að ógleymdri aðstöðu sem beinlínis er reist til að taka á móti gestum. Loks taka þessi fyrirtæki á móti fjölda gesta í sínum höfuðstöðvum. Oft er þar ekki um að ræða ferðamenn í hefðbundnum skilningi, heldur erlenda gesti úr heimum vísinda, viðskipta og stjórnmála.

Bláa lónið er hluti af Auðlindagarðinum í Svartsengi, afsprengi virkjunar, en lónið sóttu 420 þúsund manns árið 2009. Perlan er byggð á heitavatnstönkum. 600 þúsund manns komu í Perluna árið 2009. Helstu leiðir ferðamanna inn á hálendi Íslands eru eftir vegum sem upphaflega tengjast framkvæmdum við virkjanir og línulagnir. Þannig mætti áfram telja. Eins og öll önnur fyrirtæki nýta loks orku- og veitufyrirtæki þjónustu bílaleiga, rútubíla, flugfélaga, veitingaaðila o.s.frv., ekki síst á tímum virkjanaframkvæmda. Hagsmunir greinanna fara því vel saman.

Landsvirkjun: meðalverð til stóriðju 2,5 kr á kWst, en 3,5 kr til heimila

Á ársfundi Landsvirkjunar kynnti Hörður Arnarson, forstjóri fyrirtækisins, upplýsingar um raforkuverð og bar saman raforkuverð til heimila og til stóriðju. Fram kom að raforkuverð til heimila er lægra á Íslandi en í nágrannalöndum en að allur samanburður sé viðkvæmur fyrir gengissveiflum. Þá hafi skattar á raforku mikil áhrif á verð, en þeir eru misháir eftir löndum.

Hvað raforkuverð til stóriðju varðar, þá kom fram að þeir raforkusamningar við stóriðju sem nú eru í gildi hér á landi séu tengdir álverði og hafi í för með sér miklar sveiflur á raforkuverði. Þá sé erfitt að bera saman orkuverð til stóriðju og hins almenna markaðar, þar sem nýtingarhlutfall, magn og tímabil orkukaupa séu ólík. Af þessum sökum greiði stóriðjan lægra verð fyrir raforku frá Landsvirkjun en almennur markaður. Á tímabilinu janúar til febrúar 2010 hafi stórðjufyrirtæki að meðaltali greitt 2,5 kr fyrir hverja kWst á meðan heimili greiði 3,5 krónur fyrir kWst.

Erindi Harðar Arnarsonar má nálgast hér á vef Landsvirkjunar.
 

Afar flókið virkjanaferli – fróðleg erindi á vorþingi Jarðhitafélagsins

Jarðhitafélag Íslands fjallaði á vorþingi sínu um skilvirkni leyfisveitinga-, mats- og skipulagsferla í tengslum við jarðhitavirkjanir. Fram kom að um afar flókið ferli getur verið að ræða.

160 formleg erindi til stofnana vegna Hellisheiðarvirkjunar
Þannig greindi Auður Andrésdóttir, sviðsstjóri umhverfissviðs Mannvits, m.a. frá því að á þeim tíu árum sem hún hefði komið að ráðgjöf vegna byggingar og stækkana Hellisheiðarvirkjunar hefði hún alls komið að 160 formlegum erindum til hinna ýmsu opinberu leyfisveitinga- og eftirlitsaðila. Taldi hún einsýnt að hægt væri að einfalda þetta ferli, t.d. með því að afnema matsskyldu vegna einstakra rannsóknarborholna með auknu vægi rannsóknarleyfa og almennt auka sveigjanleika til framkvæmda þegar almennar leyfisveitingar liggja fyrir gagnvart umræddu svæði.

Breyting á aðalskipulagi v. rannsóknarborana: 4 ár
Ásbjörn Blöndal, forstöðumaður þróunarsviðs HS Orku, fjallaði einnig um langt, kostnaðarsamt og flókið ferli virkjanaframkvæmda og -undirbúnings. Ásbjörn nefndi sem dæmi hvernig ein breyting á aðalskipulagi vegna rannsóknarborana hefði tekið rúmlega fjögur ár. Lagði Ásbjörn m.a. til að öll rannsóknarsvæði yrðu skilgreind í aðalskipulagi sem á svipaðan hátt og gert er með vatnsverndarsvæði, en þá á forsendum rannsóknarhagsmuna (í stað forsendna um vernd gegn mengun í tilviki vatnsverndarsvæða).
 

Jarðhitinn sparar Íslendingum 50-60 milljarða á ári, í erlendum gjaldeyri

Ætla má að um 800 þúsund tonn af olíu þyrfti til að kynda hýbýli Íslendinga. Þess í stað höfum við jarðhitann og spörum á því 50 milljarða króna á ári í olíuinnflutningi. Þetta sparar okkur jafnframt brennslu 2,5 milljón tonna af CO2 á ári, en ætla má að innan skamms gæti losunarkvóti þess magns kostað um 9 milljarða króna á heimsmarkaði. Jarðhitinn sparar Íslendingum því 50 til 60 milljarða króna á ári, sem ella færu í innflutning á oliu og – innan skamms – í kaup á losunarkvóta. Þetta kom fram í erindi Sigurðar Inga Friðleifssonar, framkvæmdastjóra Orkuseturs, á aðalfundi Samorku.

Húshitun sex til níu sinnum dýrari á hinum Norðurlöndunum
Sigurður fjallaði um afar sérstaka stöðu Íslands hvað varðar græna orkuframleiðslu (með vatnsafli og jarðhita) og lagði áherslu á að afrakstur auðlindarinnar rennur til almennings. Þannig kostar rúmlega 60 þúsund krónur að kynda meðalíbúð í Reykjavík, en í höfuðborgum hinna Norðurlandanna myndi sama kynding kosta á bilinu 390 til 550 þúsund krónur á ári, eða sex til níu sinnum meira.

Raforka til heimila fjórfalt dýrari í Danmörku
Raforkuverð til almennings er að sama skapi mun lægra hérlendis en í samanburðarlöndum, t.d. um fjórðungur af verðinu í Danmörku og rúmur þriðjungur af verðinu í Svíþjóð. Ólíkt samanburðarlöndunum hefur raforkuverð til heimila farið jafnt og þétt lækkandi hér í rúman áratug, að teknu tilliti til þróunar vísitölu neysluverðs. Sigurður sagði það stærðfræðilega ómögulegt að þau 20% raforkunnar sem færu á almennan markað gætu verið að greiða niður þau 80% orkunnar sem fara til stóriðju, eins og stundum er haldið fram.

Græn orka í samgöngum o.fl.
Þá fjallaði Sigurður Ingi um hvernig þessi mikla græna orkuframleiðsla hérlendis yrði tölfræðilegur fengur fyrir Evrópusambandið, sem hefur sett sér háleit markmið um aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa. Loks fjallaði Sigurður Ingi m.a. um mikil tækifæri til nýtingar raforku í samgöngum hérlendis og hvatti til almennrar meðvitundar um nýtingu innlendra endurnýjanlegra orkugjafa, t.d. með notkun útihitalampa í stað gashitara.

Sjá erindi Sigurðar Inga Friðleifssonar.

Nóg komið af átökum – nýjar leiðir í fjármögnun

„Orkugeirinn er þjóðinni miklu mikilvægari en svo að hann megi vera átakavettangur árum saman. Nóg er komið af slíkum átökum.“ Þetta sagði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra í lok ávarps síns á aðalfundi Samorku. Hvatti hún til þess að fólk sameinaðist um að skapa sátt með rammaáætlun um verndun og nýtingu vatnsafls og jarðvarma og skýrum gegnsæjum leikreglum. Það væri leiðin fram á við og upp úr efnahagslægðinni.

Í ávarpi sínu fjallaði Katrín um mikilvægi nýfjárfestinga tengdum orku- og stóriðjuframkvæmdum á þróun efnahagsmála, m.a. um þann mikla fjölda starfa sem slíkar fjárfestingar skapa. Hún fjallaði einnig um verðmæta þekkingu sem byggst hefur upp hérlendis á þessu sviði hjá verkfræðistofum, ÍSOR, Jarðborunum o.fl., um fjárfestingaverkefni framundan, rafbíla sem væntanlegir eru til landsins sem hluti af tilraunaverkefni á vegum iðnaðarráðuneytis og margt fleira.

Horft til nýrra leiða með fjármögnun
Katrín sagði óvissu og erfiðar aðstæður til fjármögnunar hafa tafið ákvarðanir um framkvæmdir og gert það að verkum að við yrðum að horfa til nýrra leiða varðandi fjármögnun slíkra verkefna. Þetta sagði hún kunna að þýða aðkomu og jafnvel tímabundið eignarhald annarra aðila að orkuverkefnum, t.d. með verkefnafjármögnun.

Sjá erindi Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra á vef ráðuneytisins.