Kynning á viðtakarannsóknum fráveitu

Mánudaginn 23. nóvember kl.12:30 er haldinn áhugaverður hádegisfundur í Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem Guðjón Atli Auðunsson efnafræðingur hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands mun kynna niðurstöður rannsókna sinna á viðtaka fráveitu.

Rannsóknir hafa verið gerðar á viðtaka fráveitu frá því áður en hreinsistöðvarnar í Ánanaustum og Klettagörðum voru teknar í notkun og síðan með nokkurra ára millibili, skv. starfsleyfi. Niðurstöður síðustu rannsókna voru gefnar út í skýrslu nú í vor og þær sýna að losun skólps hefur lítil sem engin áhrif á gæði sjávar, hegðun og samsetningu sets og á lífríkið í kringum útrásarendana. Skýrsluna má finna á vef Orkuveitu Reykjavíkur.

Kerfisáætlun send Orkustofnun til samþykktar

Landsnet hefur sent Orkustofnun kerfisáætlun 2015-2024 til samþykktar, í framhaldi af umfangsmiklu kynningar- og samráðsferli við hagsmunaaðila og almenning.

Um er að ræða langtímaáætlun til tíu ára annars vegar og framkvæmdaáætlun til næstu þriggja ára hins vegar. Í framhaldi af samráðsferli bárust 59 ábendingar og erindi frá hagsmunaaðilum og almenningi og hefur Landsnet tekið tillit til margvíslegra ábendinga.

Að teknu tilliti til athugasemda og umsagna sem bárust í samráðsferlinu er það niðurstaðan að svokölluð leið A1 – tenging yfir hálendið með öflugum flutningslínum til norðurs og suðurs – sé ákjósanlegasti kosturinn til að byggja upp meginflutningskerfi raforku á Íslandi til framtíðar með stöðugleika að leiðarljósi. Er hann m.a. talinn koma best út með tilliti til umhverfisáhrifa.

Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Landsnets.

Alþjóðlegi klósettdagurinn – Klósettið er ekki ruslafata!

Þann 19. nóvember er alþjóðlegi klósettdagurinn. Þema dagsins í ár er hið gríðarlega vandamál á heimsvísu, sem er skortur á fullnægjandi aðgengi að salernisaðstöðu. Í dag hafa 2,4 milljarðar manna ekki fullnægjandi aðgang og hjá 1 milljarð er varla nokkur aðstaða til staðar og vandamálið sérstaklega ákallandi.

Frekari upplýsingar um daginn í ár, og hvað við getum gert til að taka þátt, má finna hér á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna, en það eru undirsamtök þeirra UN Water sem bera ábyrgð á alþjóðlegri skipulagningu dagsins.

Hér á Íslandi er ástandið allt annað og mun betra, en við hjá Samorku viljum nota daginn til að vekja athygli almennings á mikilvægi þess að fara vel með fráveitukerfin okkar og sérlega passa hvað er látið í klósettið. Fita, eldhúsbréf, blautþurrkur, bómullarvörur, eyrnapinnar – allt eru þetta algeng dæmi um rusl og efni sem berast hreinsistöðvum um fráveitukerfin og valda þar miklum kostnaði við hreinsun á dælum og förgun á rusli. Einnig má nefna dæmi um greiðslukort, síma og falskar tennur. Við getum lækkað samfélagslegan kostnað verulega með því að minnka magn óæskilegra efna/hluta sem við sendum í fráveituna. Klósettið er ekki ruslafata! Við bendum á góða umfjöllun um þetta mál bæði  á vef Orkuveitu Reykjavíkur og á vef Hitaveitu Egilsstaða og Fella.

Samorka í Hús atvinnulífsins

Skrifstofa Samorku er flutt af Suðurlandsbrautinni og í Hús atvinnulífsins að Borgartúni 35. Við hlökkum til að eiga í framtíðinni meira og betra samstarf við Samtök atvinnulífsins og önnur aðildarfélög þeirra í Borgartúninu.

Bresk-íslenskur vinnuhópur um sæstreng

Á fundi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra með David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, var ákveðið að setja á laggirnar vinnuhóp til að kanna mögulega tengingu landanna í gegnum sæstreng. Miðað er við að umræddur hópur skili niðurstöðu innan sex mánaða, en á vef forsætisráðuneytisins er haft eftir Sigmundi Davíð að forsenda fyrir mögulegri lagningu sæstrengs í framtíðinni sé að raforkuverð til heimila og fyrirtækja hækki ekki hérlendis. Eðlilegt sé þó að eiga viðræður við Breta um þau efnahagslegu og félagslegu áhrif sem lagning sæstrengs á milli landanna gæti haft í för með sér.

Landsvirkjun undirbýr rafmagnssamning við Thorsil

Landsvirkjun og Thorsil hafa komist að samkomulagi um drög að samningi um afhendingu á rafmagni til kísilvers Thorsil í Helguvík. Landsvirkjun mun senda drögin í undirbúningsferli hjá Eftirlitsstofnun EFTA og bíða niðurstöðu áður en samningurinn verður tekinn til umfjöllunar og endanlegrar afgreiðslu í stjórn fyrirtækisins. Ráðgert er að kísilver Thorsil verði gangsett á fyrsta ársfjórðungi 2018. Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.