Vatn og vinna á alþjóðlegum Degi vatnsins

Í dag, 22. mars, er alþjóðlegur Dagur vatnsins. Dagurinn er haldinn hátíðlegur ár hvert til að minna okkur á að gott aðgengi að þessari mikilvægu auðlind er ekki sjálfgefið og til að kynna ýmis baráttumál tengd vatni svo fólk geti látið þau sig varða.

UN Water samtökin standa fyrir þessum árlega alþjóðlega Degi vatnsins og þema ársins 2016 er vatn og vinna. Milljónir manna vinna störf sem beint eða óbeint tengjast vatni og að koma því til skila til neytandans á öruggan hátt. Svo má segja að langflest störf séu bókstaflega háð vatni, þar sem aðgengi að hreinu vatni og fráveitu gjörbreytir aðstæðum á vinnustöðum og lífsgæðum vinnandi fólks á allan hátt.

Veitur ohf, aðildarfélagi í Samorku, birtir á heimasíðu sinni umfjöllun um vatn og dýrmæt vatnsból Íslendinga.

Á heimasíðu UN Water er fjallað ítarlega um daginn og ýmis verkefni honum tengd. Þar má finna fræðsluefni um vatn og fólk er hvatt til að tjá sig á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #WorldWaterDay. Einnig má sjá skemmtilegt video um þema ársins í ár á YouTube.

Landsnet býður til vorfundar

Landsnet býður til vorfundar á Hilton Reykjavík Nordica þriðjudaginn 5. apríl kl. 9-11. Fundurinn er öllum opinn en óskað er skráningar.

Dagskráin er eftirfarandi:

Ávarp – Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar – og viðskiptaráðherra.
Stöðugra umhverfi og styrkari stoðir – Geir A. Gunnlaugsson, stjórnarformaður Landsnets.
Knýjandi þarfir samtímans í takt við þróun til framtíðar – Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.
Íslands þúsund ár: Náttúruvernd á tímum loftslagsbreytinga – Guðni Elísson, prófessor.
Forsendur tækifæra og sægrænnar uppbyggingar í sjávarútvegi – Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Fyrirspurnir og umræður

Áhugaverð erindi á Vísindadegi OR

Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélög halda árlegan Vísindadag þar sem kynnt verða áhugaverð rannsóknarverkefni sem unnin eru af starfsfólki fyrirtækjanna eða samstarfsaðilum.
Erindin snúast meðal annars um:
• loftslagsmál og heilsu
• kolefnisspor og rafbíla
• bætta auðlindanýtingu
• vatns- og fráveitu
• framtíðarsýn hitaveitu
• heildarsýn á nýtingu háhita

Vísindadagur OR verður haldinn í Ráðstefnusal OR að Bæjarhálsi 1.

Dagskrá hefst kl. 8:30 og stendur til kl. 16:00. Vísindadagurinn er öllum opinn en skráningar er óskað. Boðið verður upp á léttan morgunverð kl. 8:10 og hádegisverð.

Dagskrá Vísindadagsins 2016 (.pdf).

Óskað eftir tilnefningum til Kuðungsins

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir tilnefningum um fyrirtæki eða stofnun, sem vegna verka sinna og athafna á síðasta ári, er þess verðug að hljóta umhverfisviðurkenninguna Kuðunginn fyrir árið 2015.

Kuðungurinn er viðurkenning á framlagi fyrirtækja og stofnana til umhverfsmála sem veitt er árlega. Árið 2004 hlaut Orkuveita Reykjavíkur umhverfisviðurkenningu Kuðungsins.

Tilnefningar skulu berast umhverfis- og auðlindaráðuneytinu eigi síðar en 23. mars, nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu ráðuneytisins.

 

 

Ávinningur Íslendinga af orku- og veitufyrirtækjum gríðarlegur

Framlag orku- og veitufyrirtækja til íslensks samfélags, hvort sem um er að ræða fjárhagslegan ávinning eða minni losun gróðurhúsalofttegunda, er umtalsvert. Bjarni Bjarnason formaður Samorku fór yfir ávinning af orku- og veitustarfsemi á ársfundi samtakanna 2016.

Án endurnýjanlegrar orku væri CO2 losun Íslendinga töluvert meiri. Heildarlosun Íslands í dag er um 4,6 milljón tonn ár hvert og hefur verið á svipuðu róli allt frá árinu 1990. Ef hitaveitu nyti ekki við og við þyrftum að nota olíu til að hita húsin okkar, þá væri losunin tæp sex milljón tonn á ári. Ef rafmagn væri framleitt með öðrum hætti en með endurnýjanlegri orku, þá væri losunin um átta milljón tonn. Þar er stóriðja undanskilin.

Fjárhagslegur ávinningur fyrir heimilin í landinu er einnig umtalsverður. Mánaðarlegur orku- og veitureikningur fjölskyldu sem býr í Osló er meira en tvöfalt hærri en fjölskyldu í Reykjavík, miðað við algenga notkun í báðum borgum, og tæplega þrefalt hærri hjá fjölskyldu í Kaupmannahöfn.

Bjarni talaði einnig um skipulag og áherslur Samorku, en eftir stefnumótun á árinu 2015 var ákveðið að leggja meiri áherslu á ákveðna þætti í starfseminni, líkt og kynningarmál og almenna upplýsingagjöf til samfélagsins.  Þá fór hann yfir samsetningu fyrirtækjanna sem standa að Samorku og kynja- og aldursskiptingu starfsmanna innan þeirra, en Bjarni lagði mikla áherslu á að fjölga konum innan orkugeirans.

Glærur frá ávarpi Bjarna má sjá hér.

Rafbílar ódýrari í rekstri – Ísland sýni djörfung í orkuskiptum

Rafbílar eru mun orkunýtnari en olíudrifnir bílar og nota innan við þriðjung þeirrar orku sem núverandi bílafloti landsmanna notar. Þeir eru mun ódýrari í rekstri og væru hagkvæmari fyrir heimilin þrátt fyrir að allir sömu skattar væru lagðir á akstur þeirra og lagðir eru á bensín og díselolíu í dag. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Sigurðar Inga Friðleifssonar, framkvæmdastjóra Orkuseturs, á ársfundi Samorku.

Til að halda sömu skatttekjum þyrfti að leggja á um 6 króna gjald á hvern ekinn kílómetra. Sparnaður venjulegs heimilis næmi engu að síður um einni milljón króna á tíu ára tímabili, þar sem rafbílar eru mun ódýrari í rekstri. Rafbíllinn skilur vissulega eftir sig kolefnisspor vegna framleiðslu á rafhlöðum fyrir þá. En samt sem áður er kolefnissporið miklu minna og útblástursfrí keyrsla bætir það upp.  Hann segir ævintýrið byrjað og að rafbílar gætu orðið eitt þúsund talsins á götunum í ár. Rafhlöðurnar lækka hratt í verði og drægnin fer hratt vaxandi. Sigurður segir að þarna skipti framlag smáþjóðar máli, enda öll raforka hérlendis unnin með endurnýjanlegum orkugjöfum. Hann spyr hver í ósköpunum eigi að sýna djörfung í innleiðingu orkuskipta, ef ekki Ísland? Íslendingar búa við hreina endurnýjanlega orku og eiga nóg af henni, við erum borgríki og tæknivædd – Íslendingar hafi hreinlega enga afsökun.

Hér má sjá glærur frá fyrirlestri Sigurðar Inga, Orkuskipti.

Eru snjöll veitukerfi ákjósanlegur kostur?

Meta þarf kostnað og ávinning á ítarlegan hátt áður en ráðist er í að snjallvæða raforkukerfi landsins, eins og nágrannalönd okkar eru komin vel á veg í að gera samkvæmt tilskipun frá ESB. Snjallvæðing á að meðal annars að skila betri orkunýtingu, en óvíst er að fjárfesting upp á nokkra milljarða króna borgi sig vegna þess hversu ódýrt rafmagn er hér á landi.

Snjallvæðing raforkukerfa hefur margs konar ávinning. Til dæmis raunreikninga í stað áætlanareikninga, orkunotkun er stýrt eftir þörfum og orkuverði og heimilistæki geta verið fjarstýranleg. Kostnaður sparast við álestur, minna álag á þjónustuver með betur upplýstum viðskiptavinum, sjálfvirkar bilanatilkynningar og sjálfvirk tímapöntun á viðgerð. Segja má að hver geti verið eigin orkubússtjóri.

Fjárfestingin er hins vegar mikil. Í aðildarríkjum ESB hljóðar hún upp á 7.000 milljarða fjárfesting sem dreifist á 20 ára tímabil til ársins 2020. Samkvæmt tilskipun frá ESB hafa flest aðildarríki ráðist í að meta hagkvæmni þess að ráðast í snjallvæðinguna og í flestum tilfellum er ávinningur talinn umfram kostnað, þar á meðal á öllum hinum Norðurlöndunum.

Tilskipun ESB  um hagkvæmnisathugun hefur ekki verið tekin upp hér á landi og spurningin er hvort ávinningurinn hér á landi sé sá sami og hjá öðrum Evrópuríkjum, því raforkan er miklu ódýrari en annars staðar.

Meðaltalskostnaður snjallvæðingarinnar á hvern mæli hjá ESB er 253 evrur, eða 40 þúsund krónur. Hjá Veitum eru 100 þúsund rafmagnsmælar og fjárfestingin gæti því verið 4 milljarðar króna. Heildartekjur dreifiveitu Veitna eru 7.000 mkr. á ári og lauslega reiknað þyrftu tekjumörk Veitna að hækka um 450 mkr. eða um 6,5% til að ná fjárfestingunni til baka. Hér er þó ekki tekið tillit til ávinnings af snjallmælum.  Ólíklegt er að ávinningur sé umfram kostnað. Unnið er að hagkvæmnisgreiningu á vettvangi Samorku.

Glærur Jakobs frá erindinu má nálgast hér.

 

Ályktun aðalfundar 2016

 

Mikil tækifæri á sviði orkuskipta í samgöngum

Samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda er eitt af helstu viðfangsefnum mannkyns í dag. Víðast hvar snýst það verkefni öðru fremur um að draga úr brennslu jarðefnaeldsneyta á borð við kol og olíu – sem stærstur hluti losunar er rakinn til á heimsvísu – og skipta yfir í notkun endurnýjanlegra orkugjafa á borð við vatnsafl, jarðhita og vindorku. Íslenskt orkukerfi er einstakt að því leyti til að hérlendis byggir nær öll raforkunotkun og húshitun á endurnýjanlegum orkugjöfum. Enn eru þó veruleg tækifæri til að gera betur í þessum efnum, einkum með orkuskiptum í samgöngum, en frá samgöngum innanlands stafa 19% allrar losunar hérlendis. Íslensk orku- og veitufyrirtæki binda miklar vonir við orkuskipti í samgöngum og munu leggja sitt af mörkum til þess að raunverulegur árangur geti náðst á þessu sviði, ekki síst á grunni öflugs framleiðslu- og flutningskerfi raforku.

Snjöll framtíð?

Snjallkerfi (e. smart systems) er yfirheiti yfir spennandi þróun sem nýtir stafræna tækni til þess meðal annars að auka við valkosti neytenda, bæta rekstur veitukerfa og bæta orkunýtingu. Veruleg tækifæri eru framundan í krafti þessarar þróunar en evrópskt regluverk kveður á um skoðun á innleiðingu svokallaðra snjallmæla. Kæmi til slíkrar innleiðingar gæti hún falið í sér allt að átta milljarða króna kostnað á Íslandi einu. Að mati Samorku er afar mikilvægt að vel sé fylgst með þessari þróun og tækifærin nýtt, en jafnframt að ekki sé stofnað til óþarfa kostnaðar, svo milljörðum skipti, án þess að ítarleg ábata- og kostnaðargreining hafi áður farið fram. Á vettvangi Samorku er unnið að slíkri greiningu.