Á fullu að undirbúa orkuskipti í samgöngum

Orku- og veitufyrirtækin hafa undirbúið sig um þó nokkurt skeið undir orkuskipti í samgöngum, þar sem þróunin er hröð og hreinorkubílum fjölgar stöðugt á götum landsins.

Fyrirtækin hafa stóru hlutverki að gegna í orkuskiptunum og þau hafa unnið að undirbúningi þeirra um langt skeið og staðið að öflugum greiningum, rannsóknum og fjárfestingum til að leggja sitt af mörkum.. Orku- og veitufyrirtækin hafa nú þegar lagt grunninn að nauðsynlegum hleðsluinnviðum um allt land fyrir rafbíla og hafa auk þess tekið þátt í að þróa og koma á fót innlendri framleiðslu á öðrum hreinorkugjöfum í formi rafeldsneytis og lífeldsneytis s.s. vetni, metanóli, metan og lífdísel fyrir hreinorkufarartæki framtíðarinnar.

Til að greina möguleg áhrif umfangsmikilla orkuskipta á flutnings- og dreifikerfi raforku stóð Samorka fyrir rannsókn með þátttöku 200 rafbílaeigenda um allt land. Bíleigendurnir komu fyrir mælikubb í bíl sínum sem skráði hvar, hvenær og hversu oft bíllinn var hlaðinn, hversu langt var keyrt og svo framvegis.

Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku ræddi orkuskipti í samgöngum við þá Heimi Karlsson og Gunnlaug Helgason í þættinum Í bítið á Bylgunni. Hér má hlusta á viðtalið.

 

Nýtum hreina, innlenda orkugjafa á samgöngutæki

Orkuskipti í samgöngum eru mikilvægur hluti alþjóðlegra skuldbindinga í loftslagsmálum á Íslandi. Orkuskipti í samgöngum snúast um að draga úr notkun á innfluttu jarðefnaeldsneyti og nota í staðinn innlenda hreina orkugjafa á bíla, skip og flugvélar.

Orkan sem nýtt er innanlands kemur að langmestu leyti frá endurnýjanlegum orkugjöfum, jarðhita og vatnsafli, eða 91%. Hlutfallið er 85% ef eldsneyti á millilandaflug og farskip eru tekin með. Þessu má þakka þeim orkuskiptum sem á sínum tíma var ráðist í á öðrum sviðum samfélagsins. Aðeins 9% prósent orkunnar sem notuð er innanlands er innflutt eldsneyti, sem nýtt er á samgöngutæki; á bíla, fiskiskip og sjósamgöngur innanlands auk innanlandsflugs.

Samkvæmt aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum til að uppfylla Parísarsamninginn á að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum á landi um 21% miðað við árið 2005, en vegna þess hversu mikið útblástur hefur aukist frá árinu 2005 er talan nú 37%, sem þarf að draga úr, miðað við stöðuna árið 2018. Með því að draga úr þessum útblæstri  getur Ísland lagt enn frekar af mörkum til loftslagsmála, til viðbótar við að hafa húshitun og rafmagnsframleiðslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum, og um leið sparað gjaldeyri og aukið orkuöryggi þjóðarinnar, sem þá verður ekki lengur eins háð innflutningi á eldsneyti.

Orku- og veitufyrirtæki landsins hafa hér stóru hlutverki að gegna og þau hafa unnið að undirbúningi orkuskipta um langt skeið og staðið að öflugum greiningum, rannsóknum og fjárfestingum til að leggja sitt af mörkum.. Þau hafa nú þegar lagt grunninn að nauðsynlegum hleðsluinnviðum um allt land fyrir rafbíla. Auk þess hafa fyrirtækin tekið þátt í að þróa og koma á fót innlendri framleiðslu á öðrum hreinorkugjöfum í formi rafeldsneytis og lífeldsneytis s.s. vetni, metanóli, metan og lífdísel fyrir hreinorkufarartæki framtíðarinnar.

Uppbygging hleðsluinnviða fyrir rafbíla, fjárhagslegir hvatar sem stjórnvöld hafa komið á og stóraukið úrval rafbíla og tengiltvinnbíla hafa nú þegar skilað Íslandi í fremstu röð á heimsvísu í rafbílavæðingu, næst á eftir Noregi sem er í fyrsta sæti. Þá hefur orðið hröð þróun í farartækjum sem nýta rafeldsneyti eða lífeldsneyti s.s. vöru- og hópferðabílum, ferjum, skipum og flugvélum.

Samorka kynnti á ársfundi sínum í gær niðurstöður greininga um orkuskipti í samgöngum á Íslandi. Greiningin byggir meðal annars á niðurstöðum úr nýrri, umfangsmikilli hleðslurannsókn sem staðið hefur yfir í eitt ár með þátttöku tvö hundruð rafbílaeigenda um allt land. Niðurstöðurnar gefa mikilvægar upplýsingar um við hverju megi búast þegar rafbílum fjölgar til muna með tilheyrandi álagi á raforkuframleiðslu-, flutnings- og dreifikerfi landsins.

 

Markmið stjórnvalda um orkuskipti í vegasamgöngum samkvæmt Parísarsamningnum kalla á um 300 MW (1,4 TWh á ári) samkvæmt greiningunni. Fjárfesta þarf um 15 milljarða árlega til ársins 2030 í uppbyggingu flutnings- og dreifikerfis, meðal annars fyrir orkuskipti. Til þess þarf að gera regluverk um þá skilvirkari. Þjóðarbúið sparar um 20-30 milljarða króna á ári vegna minni eldsneytiskaupa og heimilin spara einnig um 400.000 krónur árlega með því að skipta yfir í rafbíl og sleppa við að kaupa eldsneyti. Tveir af hverjum þremur bílum á götunni þurfa að vera orðnir rafbílar fyrir árið 2030. Útblástur myndi minnka um 37% frá samgöngum, eða um 365.000 tonn.

Ef skipta ætti alveg út jarðefnaeldsneyti fyrir innlenda hreina orkugjafa í öllum bílum, skipum og flugvélum innanlands fyrir árið 2030 þyrfti um 1200 MW (9TWh á ári). Þar með væri orkunotkun innanlands orðin nær 100% græn.

Rannsókn HR og HÍ, sem unnin var fyrir Samorku árið 2018, sýnir að rafbílavæðing er þjóðhagslega hagkvæm. Orkuskipti í samgöngum fela einnig í sér mikil sóknarfæri fyrir Ísland til verðmætasköpunar, atvinnusköpunar og nýsköpunar.

Horfa á ársfund Samorku 2020, Orkuskipti: Hvað þarf til?

4.000 tonnum af CO2 verður fargað árlega

Svissneska nýsköpunarfyrirtækið Climeworks, sem sérhæfir sig í að fanga koldíoxíð úr andrúmslofti, hefur skrifað undir tímamótasamninga við Carbfix og Orku náttúrunnar (ON).

Samningarnir leggja grunn að nýrri verksmiðju við Jarðhitagarð ON sem mun fanga 4.000 tonn af koldíoxíði úr lofti árlega og farga með því að breyta því í stein. Þetta eru mikilvægt skref í baráttunni gegn hlýnun jarðar en í fyrsta sinn verða þessar brautryðjandi tækninýjungar sameinaðar í verkefni af þessari stærðargráðu.

  • Samningurinn við ON felur í sér að Climeworks muni byggja aðstöðu innan Jarðhitagarðs Orku náttúrunnar til að fanga CO2 úr andrúmslofti. Þetta verður gert með sérþróaðri tækni Climeworks, Direct Air Capture (DAC), en ON mun tryggja stöðugt framboð af hita og endurnýjanlegri orku til að knýja tæknibúnaðinn áfram.
  • Samningurinn við Carbfix tryggir örugga förgun á koldíoxíði með því að binda hann varanlega sem stein í iðrum jarðar. Basalthraunið á Íslandi hentar sérlega vel í slíku ferli og veitir varanlega og náttúrulega lausn þegar kemur að geymslu koltvísýrings.

Verkefnið gæti haft úrslitaáhrif þegar kemur að því að ná markmiðum Parísaramkomulagsins og áframhaldandi þróun á þessum tæknilausnum gæti haft veruleg áhrif í baráttunni gegn hlýnun jarðar.

Við þetta tilefni segir Jan Wurzbacher, einn stofnenda og framkvæmdastjóra Climeworks: „Samstarfið við ON og Carbfix er stórt skref fram á við til að draga úr magni CO2 í andrúmsloftinu. Aðstæður á Íslandi fyrir slík verkefni eru til fyrirmyndar, með stöðugu framlagi af endurnýjanlegri orku og öruggi og náttúrulegu geymslu fyrir koltvísýringinn. Allir samningsaðilar eru brautryðjendur og sérfræðingar á sínu sviði. Við erum stolt af þessu samstarfi sem mun færa varanlega og örugga föngun og förgun koltvísýrings úr andrúmslofti á næsta stig.“

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra ON, og Edda Sif Aradóttir, framkvæmdastýra CarbFix

Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix: „Tækninýjungar Carbfix og Climeworks munu í sameiningu marka tímamót í loftslagsbaráttunni. Í fyrsta sinn getum við fangað koldíoxíð sem þegar er kominn í andrúmsloftið og breytt honum í stein á innan við tveimur árum. Með áframhaldandi aukningu á umfangi þessari tækni væri mögulegt að koma í veg fyrir hamfarahlýnun og á sama tíma skapa nýja undirstöðu iðnaðar í hinu alþjóðlega hagkerfi.“

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra ON: „Í Jarðhitagarði ON höfum við komið upp aðstöðu fyrir vísindafólk, frumkvöðla og fyrirtæki til að fullnýta afurðir Hellisheiðarvirkjunar á ábyrgan og umhverfisvænan hátt ásamt því að hvetja til nýsköpunar á sviði jarðvarma. Þessi samningur er stórt skref í átt að þeirri sýn. Samstarfið milli ON, Carbfix og Climeworks sýnir hvernig samstarf og nýsköpun getur skapað lausnir sem skipta máli við að leysa eina stærstu áskorun okkar tíma. Við hjá ON erum yfirmáta stolt af þessu samstarfi og hlökkum til að styðja við starfsemi Climeworks í framtíðinni.“

Carbfix og Climeworks hafa hlotið styrk úr rannsóknar- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins, Horizon 2020, verkefni nr. 764760.

112.765.594 ástæður til að elska hitaveitur

„Pabbi, það kemur ekkert heitt vatn úr krananum!“ sagði sonur minn við mig í töluverðri geðshræringu þegar hann átti að þvo hendurnar fyrir svefninn, fyrsta kvöldið sitt í heimsókn til heimalands móður sinnar. Þar vorum við stödd í Perú, landi þar sem heimsklassa jarðvarmaauðlind er til staðar – en skrefið hefur ekki verið tekið að fara í stórfellda nýtingu á henni.

Besta tæknilega lausnin

Fyrir okkur sem lifum og hrærumst í orku- og veitumálum er það oft sérstakt að upplifa hversu litla athygli og umræðu það fær núorðið hversu mikil lífsgæði nýting jarðvarmaauðlindarinnar færir Íslendingum. Hérlendis eru rúmlega 90% híbýla á Íslandi kynt með hitaveitu sem byggir á beinni nýtingu jarðhita, en einnig eru starfræktar nokkrar sem nota raforku sem orkugjafa. Þannig er nær öll húshitun á Íslandi byggð á endurnýjanlegum orkugjöfum. Þessi staða sem við búum við á Íslandi er e-ð sem aðrar þjóðir dreymir um að ná. Í Hollandi er til dæmis framundan risastórt átak í að byggja upp nýtingu jarðhita til húshitunar. Þegar Hollendingar leita sér fyrirmyndar, sérþekkingar og almennt aðstoðar við verkefnið, þá leita þeir hingað – til okkar.

Hagstæða lausnin fyrir heimili og fyrirtæki

Húshitun með jarðhita er ekki bara almennt viðurkennt sem besta verkfræðilega lausnin í þeim geira, heldur er hún líka ákaflega hagstæð fyrir heimili og fyrirtæki. Ef við berum til dæmis saman húshitunarkostnað í höfuðborgum á Norðurlöndum kemur í ljós að hann er afgerandi lægstur á Íslandi. Þar er kostnaðurinn hérlendis að meðaltali þrefalt lægri en í öðrum höfuðborgum á Norðurlöndum.

Lífsgæði og atvinnusköpun

Annað umkvörtunarefni barnanna minna þegar við vorum í Suður-Ameríku var að komast ekki í sund, því börnin eru vön því að geta valið úr 10 frábærum og heitum sundlaugum um helgar. Þegar heim var komið var það eitt fyrsta verkið að fara í Lágafellslaugina. Auk sundlauganna okkar frægu hefur undanfarin ár verið mikil uppbygging hringinn í kringum landið hjá ferðaþjónustufyrirtækjum sem byggja á nýtingu heita vatnsins. Má þar t.d. nefna Bláa lónið, Sjóböðin á Húsavík, Bjórböðin á Árskógssandi, Vök Baths í Fljótsdalshéraði og Fontana í Bláskógabyggð. Þá má ekki gleyma hátæknifyrirtækjunum okkar sem nýta heita vatnið til ræktunar í gróðurhúsum, fiskeldis, framleiðslu á hátækni lækninga og snyrtivörum og alls kyns atvinnusköpunar.

Risastórt framlag í loftslagsmálum

Mér telst til að ég sé kominn með sjö ástæður til að elska hitaveitur. Sem þýðir að mig vantar 112.765.587 ástæður, erf ég ætla að ná því sem boðað var í titli greinar minnar. Það næst með því að skoða hversu mikið hitaveiturnar spara okkur í losun gróðurhúsalofttegunda. Húshitun (og rafmagnsframleiðsla) með endurnýjanlegum orkuauðlindum er langstærsta framlag Íslands í loftslagsmálum. Samkvæmt tölum frá Orkustofnun er uppsafnaður sparnaður Íslendinga í losun gróðurhúsalofttegunda í gegnum árin, með því að notast við endurnýjanlega orku til húshitunar í stað jarðefnaeldsneyta, 112.765.587 tonn. Til samanburðar við þessi 112 milljón tonn, þá má nefna að árlega losun frá landbúnaði á Íslandi er 0,6 milljón tonn.

Förum vel með auðlindina

Þessi árangur er ekki sjálfsagður. Það var og er gríðarlega kostnaðarsamt og flókið verkefni að byggja upp og viðhalda íslenska hitaveitukerfinu. Sú staðreynd kallar á að við kunnum að meta heita vatnið og hitaveiturnar og förum sparlega með þessa verðmætu auðlind. Þar er margt sem við getum öll gert. Á heimasíðu Veitna má t.d finna mörg góð hollráð um heitt vatn:

– Berum saman okkar notkun við meðalnotkun sambærilegs heimili og skoðum hvernig við getum nýtt heita vatnið sem best.
– Látum fagmann stilla hitakerfið.
– Notum lofthitastýrða ofnloka til að jafna innihitann.
– Förum yfir þéttleika og einangrun glugga og hurða.
– Lokum gluggum þegar kalt er úti.
– Förum yfir hitakerfi hússins og jafnvægisstillum þegar kólna fer í veðri.

Ég lofaði 112.765.594 ástæðum til að elska hitaveitur og vona að ég hafi sýnt fram á það. Þær eru samt miklu fleiri. Ef þið höfðuð nb. gaman af þessari grein minni þá bendi ég á næstu grein mína: 320.680.342 ástæður til að elska endurnýjanlega raforku!

 

Eftir Sigurjón Norberg Kjærnested, forstöðumann fagsviða hjá Samorku. Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 29. júlí 2020.

Umfangsmikil heitavatnslokun eftir miðnætti

Veitur vekja athygli á umfangsmikilli heitavatnslokun á hluta höfuðborgarsvæðisins sem hefst klukkan 02:00 eftir miðnætti í kvöld. Lokunin stendur yfir í ríflega þrjátíu klukkustundir eða til klukkan 09:00 að morgni miðvikudags 19. ágúst.

Lokunin nær til alls Hafnarfjarðar, hluta Garðabæjar, efri byggða Kópavogs og Norðlingaholts í Reykjavík.

Ítarlegar upplýsingar og kort af lokunarsvæðinu má finna inni á Veitur.is.

Gera má ráð fyrir algjöru heitavatnsleysi á umræddum svæðum á meðan lokun stendur.

Ástæða lokunarinnar er að verið er fjölga heimilum sem fá heitt vatn frá virkjunum á Hellisheiði og Nesjavöllum. Við það þarf að sækja minna af heitu vatni í borholur Veitna í Reykjavík og Mosfellsbæ. Með aukinni notkun á heitu vatni, m.a. vegna fjölgunar íbúa og þéttingu byggðar, hefur álag á jarðhitageyminn sem fæðir borholurnar á lághitasvæðunum aukist og við því verður að bregðast. Þessi framkvæmd er liður í því að tryggja að þessi mikilvægu lághitasvæði nýtast íbúum höfuðborgarsvæðisins til langrar framtíðar.

Til þess að mögulegt sé að gera umrædda breytingu þarf nýja tengingu við Suðuræð, sem er ein af megin flutningsæðum hitaveitunnar á höfuðborgarsvæðinu og þjónar m.a. þeim svæðum sem verða fyrir þessari lokun.

Kristinn Ingi til CarbFix

Kristinn Ingi Lárusson

Kristinn Ingi Lárusson hefur verið ráðinn til Carbfix, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem hann mun leiða viðskiptaþróun,stefnumótun og markaðssókn þess á erlendri grundu

Á árunum 1998 – 2005 starfaði Kristinn hjá SPRON við útlán til stærri fyrirtækja, eignastýringu og fjárfestingabankastarfsemi. Frá 2005 til 2013 var Kristinn forstöðumaður viðskiptaþróunar Símans og síðar móðurfélagsins SKIPTA. Undanfarin sjö ár hefur hann verið framkvæmdastjóri ON Waves sem er alþjóðlegt fjarskiptafyrirtæki sem þjónar skipaflotum um allan heim. Kristinn hefur jafnframt setið víða í stjórnum fyrirtækja, bæði hérlendis sem erlendis, á sviði nýsköpunar, fjarskipta og fjármála.

Kristinn lauk MBA gráðu frá University of Edinburgh í Skotlandi árið 2002. Áður hafði hann lokið BS gráðu í viðskiptafræði með áherslu á markaðs- og alþjóðaviðskipti frá University of South Carolina í Bandaríkjunum.

Carbfix er þekkingarfyrirtæki sem veitir ráðgjöf og þjónustu á sviði kolefnisföngunar með það að markmiði að sporna gegn loftslagsvánni. Carbfix tæknin er hagkvæm og umhverfisvæn og felst í að fanga CO2 úr útblæstri í stað þess að sleppa því út í andrúmsloftið. Í stuttu máli er CO2 breytt í stein með því að hraða ferli náttúrunnar. Vatni með uppleystu CO2 – nokkurs konar sódavatni – er dælt ofan í berglög neðanjarðar þar sem það steinrennur á innan við tveimur árum með sömu ferlum og náttúran hefur beitt í milljónir ára til að tempra styrk CO2 í andrúmslofti.

Lykillinn að árangri í loftslagsmálum

Á dögunum kynntu stjórnvöld uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Þar má sjá metnaðarfullar og fjölbreyttar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum.

Orku- og veitufyrirtæki landsins láta sig þessi mál mikið varða enda er hrein orka og traustir orkuinnviðir um allt land lykillinn að árangri í loftslagsmálum. Á aðalfundi Samorku var eftirfarandi ályktun samþykkt.

Í fremstu röð í orkuskiptum

Samorka fagnar markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum og þeim aðgerðum sem boðaðar hafa verið í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir endurnýjanlega orkugjafa í samgöngum er lykilatriði í því að Ísland geti staðið við þau markmið og þar með alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum. Til þess þarf öfluga innviði og nægt framboð af innlendri, grænni orku sem ætlunin er að komi í stað jarðefnaeldsneytis. Orkuskipti í samgöngum eru þjóðhagslega hagkvæm og ávinningur fyrir loftslagið er mikill. Ísland á að vera í fremstu röð í þessari þróun og ráðast í orkuskipti af fullum þunga. Í því felast tækifæri fyrir fólk og fyrirtæki.

Styrking innviða nauðsynleg

Atburðir síðustu mánaða hafa minnt á mikilvægi rafmagns og hitaveitu í okkar daglega lífi og starfi. Mikilvægið fer vaxandi með aukinni rafvæðingu samfélagsins auk þess sem þörf fyrir heitt vatn eykst eftir því sem þjóðin vex og dafnar. Það sama á við um þörfina fyrir heilnæmt drykkjarvatn og uppbyggingu fráveitu. Sterkir innviðir með nægilegri afkastagetu þjóna íbúum og atvinnulífi um allt land og eru hornsteinn þjóðaröryggis og lífsgæða. Núverandi regluverk framkvæmda styður ekki við nauðsynlegt viðhald og styrkingu orkuinnviða. Nauðsynlegt er að bæta úr því.

Græn orka til framtíðar

Í dag er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa á Íslandi með því hæsta sem gerist í heiminum og hagnýting grænna orkuauðlinda hefur lagt grunninn að lífsgæðum og verðmætasköpun í landinu síðustu hundrað árin. Til að svo megi áfram vera þarf að skapa samstöðu um aðgengi þjóðarinnar að orkulindum sínum enda nauðsynlegt að horfa áratugi fram í tímann og geta mætt orkuþörf og orkuöryggi heimila og atvinnulífs til framtíðar.

Tækniþróun og nýsköpun mun leiða af sér betri orkunýtingu og nýjar lausnir til sparnaðar, en því til viðbótar mun þurfa aukna endurnýjanlega orku til að uppfylla þarfir heimila og atvinnulífs auk markmiða um græna framtíð fyrir núverandi og komandi kynslóðir.

Samorka lýsir yfir áhyggjum af því að markvisst er unnið að því að takmarka orkunýtingu á sífellt stærra landsvæði sem ríkt er af endurnýjanlegum orkulindum. Áður en frekari ákvarðanir um slíkar takmarkanir eru teknar er nauðsynlegt að því sé svarað hvaðan hreina orkan, sem uppfylla á þarfir samfélagsins nú og til framtíðar, eigi að koma.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. júlí 2020.

Ekkert nema tækifæri!

Rafbílavæðingin er á fleygiferð! Í janúar síðastliðnum voru nýskráðir fólksbílar sem knúnir eru áfram af rafmagni í fyrsta sinn fleiri en bensín- og díselbílar samanlagt. Þetta þýðir að við Íslendingar erum í 2. sæti í heiminum í hlutfalli hreinna rafbíla af nýskráðum bílum. Þá er uppbygging innviða fyrir hreinorkubíla í fullum gangi og það stefnir í að Ísland verði þar í forystuhlutverki.

Íslensk stjórnvöld hafa samþykkt að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 29% fyrir 2030, m.v. losun 2005. Samorka hefur undanfarið unnið að greiningum á því hvað þessar skuldbindingar þýða fyrir orku- og veitufyrirtækin; hversu mikla hleðsluinnviði þarf að byggja upp, hvaða áhrif þetta hefur á flutnings- og dreifikerfin og hversu mikla nýja orkuframleiðslu þarf til. Þá hefur þróun orkuskiptanna verið mikilvægur þáttur í greiningum okkar, þ.e.a.s. hversu margir hreinorkubílar þurfa að koma í staðinn fyrir bensín- og díselbíla. Niðurstaðan er sú að síðasti jarðefnaeldsneytisbíllinn þarf helst að hafa verið seldur í gær. Við erum á fleygiferð, en þurfum að auka hraðann.

Að við þurfum að auka hraðann eru góðar fréttir. Ávinningurinn í loftslagsmálum er augljós, en það sem hefur vantað í umræðuna hérlendis er hversu jákvæð rafbílavæðingin er fyrir aðra þætti íslensks samfélags, sérlega þegar kemur að atvinnusköpun og styrk efnahagslífsins. Þannig sýndi nýleg greining frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík að rafbílavæðingin er:

  • Þjóðhagslega hagkvæm
  • Hagkvæm fyrir íslenska neytendur
  • Lykilatriði til að árangur náist hérlendis í loftslagsmálum
  • Kostnaðarhlutlaus fyrir íslenska ríkið ef rétt er staðið að málum

Í nýlegri yfirferð Bloomberg NEF um stöðu rafbílavæðingar á alþjóðavettvangi vöktu meginskilaboð þeirra athygli: Í rafbílavæðingunni felast ekkert nema tækifæri – og þau ríki sem grípa þetta tækifæri munu sjá sprengingu í fjölda nýrra fyrirtækja og nýrra hálaunastarfa. Þessi fyrirtæki munu meðal annars starfa að uppbyggingu hleðsluinnviða, snjallvæðingu, sinna ýmis konar þjónustu og hanna nýjar þjónustuleiðir í kringum gerbreyttar ferðavenjur.

Nú þegar mikil umræða er hérlendis um efnahagslega viðspyrnu í kjölfar Covid-19 þá hlýtur þetta að verða ein megináhersla stjórnvalda og þjóðarinnar: Nýtum tækifærin og förum úr öðru sæti rafbílavæðingarinnar í það fyrsta!

 

Grein eftir Sigurjón Norberg Kjærnested. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júlí 2020.

Bræðslurnar spöruðu 56,5 milljón lítra af olíu

Fiskimjölsverksmiðjur umhverfisvænni og 83% rafvæddar

Jón Már Jónsson, formaður Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, undirrita samkomulag um að stuðla að enn frekari notkun endurnýjanlegrar orku í fiskmjölsiðnaði.

Rafmagn uppfyllir nú 83% af orkuþörf fiskmjölsverksmiðja og stefnt er að enn hærra hlutfalli á næstu árum. Átak Landsvirkjunar og Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda sl. þrjú ár, 2017-2019, hækkaði þetta hlutfall úr 75%. Hlutfall rafmagns í orkukaupum fiskmjölsverksmiðjanna hefur þannig farið sívaxandi og hefur á tímabilinu sparað brennslu á 56,5 milljón lítrum af olíu. Við það minnkaði kolefnislosun fiskmjölsverksmiðjanna um 168 þúsund tonn, sem jafngildir akstri 36.295 fólksbíla á einu ári.

Fiskmjölsframleiðendur hafa lengi stuðst bæði við olíu og rafmagn í framleiðslu sinni og keypt svokallað skerðanlegt rafmagn. Framboð á slíku rafmagni er hins vegar takmarkað og því hafa framleiðendur fiskmjöls þurft að reiða sig líka á olíu, með tilheyrandi mengun.

Árið 2017 lýstu Landsvirkjun og FÍF (Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda) því yfir að orkufyrirtækið myndi auka framboð á skerðanlegri raforku eftir föngum, en olía yrði áfram varaaflgjafi fiskmjölsframleiðenda. Þá bauð Landsvirkjun smásölum á raforkumarkaði að semja til lengri tíma en áður vegna áframsölu til fiskmjölsframleiðenda. Það varð fiskmjölsverksmiðjum hvati til að ráðast í þær fjárfestingar sem þurfti til að keyra framleiðsluna á rafmagni.

Vel gekk að fylgja þessu eftir og hafa Landsvirkjun og FÍF því aftur lýst yfir að samskonar fyrirkomulag gildi til næstu þriggja ára. Sem fyrr er markmiðið að gera fiskmjölsframleiðslu umhverfisvænni, draga úr losun CO2 og styðja þar með við markmið Parísarsamkomulagsins og skuldbindingar Íslands samkvæmt því.

Landsvirkjun undirbýr vetnisframleiðslu

Landsvirkjun undirbýr nú hugsanlega vetnisvinnslu og til að byrja með telur fyrirtækið hentugt að hefja slíka vinnslu við Ljósafossstöð. Landsvirkjun hefur kynnt þann möguleika fyrir sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps. Við Ljósafoss yrði framleitt svokallað grænt eða hreint vetni, sem fæst með rafgreiningu vatns með endurnýjanlegum orkugjöfum. Slík umhverfisvæn framleiðsla á vetni er enn fátíð í heiminum, en víða er vetni unnið úr jarðgasi og markar umtalsverð kolefnisspor.

Starfsemin við Ljósafoss myndi rúmast í tæplega 700 fermetra byggingu, þar sem hægt væri að auka við framleiðslu eftir því sem eftirspurn yrði meiri, en sem dæmi gæti rafgreinir í fullri stærð notað allt að 10 MW af raforku til vetnisframleiðslu. Slík framleiðsla myndi nægja til að knýja bílaflota sem nemur a.m.k. öllum vögnum Strætó.

Auður Nanna Baldvinsdóttir, viðskiptaþróunarstjóri hjá Landsvirkjun, segir að vetni, rafhlöður og metan hafi mismunandi eiginleika, en þarfir notenda skipti mestu máli í vali á orkugjafa. „Vetnið telst auðvelt í vinnslu miðað við margt annað eldsneyti og starfsfólk Landsvirkjunar hefur þegar þá grunnþekkingu sem þarf til framleiðslunnar, þótt frekari þjálfunar sé þörf,“ segir hún. Það sé mikill á vetnisvinnslu að auðvelt er að stýra framleiðslunni. „Rafgreinar þola vel að kveikt sé og slökkt á vinnslunni í samræmi við eftirspurn, svo framleiðandinn getur hagað henni eftir þörfum markaðarins hverju sinni.“

4% bílaflotans ábyrg fyrir 15% útblásturs

Þegar öflug vetnisvinnsla er komin í gang felst í henni hvati fyrir ýmsa anga atvinnulífsins að huga að vistvænni rekstri. Þannig má t.d. benda á, að vöruflutningabílar eru eingöngu um 4% íslenska bílaflotans, en þeir bera hins vegar ábyrgð á 15% alls útblásturs, sem frá bílum stafar.

Fjölmargar þjóðir hafa nú sett sér vetnisstefnu. Evrópusambandið og Japan hafa gefið út vetnisvegvísi og áforma stórtæka notkun vetnis í sínum orkukerfum. Vetnið má nýta í rafmagnsframleiðslu, iðnaðarferla, hitaveitu og sem orkugjafa í samgöngum. Ef vetnið er framleitt með endurnýjanlegri orku er það nánast kolefnislaust.

 

Nánari upplýsingar má finna á vef Landsvirkjunar.