19. febrúar 2019 Berglind Rán Ólafsdóttir ráðin framkvæmdastjóri ON Stjórn Orku náttúrunnar (ON) hefur ráðið Berglindi Rán Ólafsdóttur framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Berglind hefur gengt starfinu tímabundið frá því í september síðastliðnum en það var auglýst laust til umsóknar í byrjun þessa árs. Berglind er sameindalíffræðingur með MBA próf frá IESE í Barcelona. Hún var ráðin til Orku náttúrunnar á árinu 2017 sem forstöðumaður fyrirtækjamarkaða og hafði þá meira en áratugarreynslu af viðskiptaþróun meðal annars hjá Landsvirkjun, Medis og Íslenskri erfðagreiningu. Orka náttúrunnar er stærsta orkufyrirtæki landsins á sviði jarðvarma og vinnur rafmagn og heitt vatn í virkjunum á Nesjavöllum og Hellisheiði auk raforkuvinnslu í Andakílsárvirkjun. ON er þjónustufyrirtæki með viðskiptavini um allt land og býður heimilum og fyrirtækjum eingöngu upp á vottaða endurnýjanlegra orku. Fyrirtækið er leiðandi í uppbyggingu innviða fyrir orkuskipti í samgöngum hér á landi og rekur 50 hlöður fyrir rafbílaeigendur um allt land. Árleg velta fyrirtækisins nemur um 20 milljörðum króna og starfsfólk er liðlega 80 talsins. Formaður stjórnar ON er Hildigunnur H. Thorsteinsson, verkfræðingur og framkvæmdastjóri þróunarsviðs Orkuveitu Reykjavíkur.