Hrein orka: Ísland er með 75%, ESB stefnir á 20%

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í 24 stundum:

Á dögunum kynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) svokallaðan „grænan pakka“ tilskipunardraga þar sem meðal annars er sett markmið um að árið 2020 verði 20% orkunotkunar innan sambandsins fengin frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Jafnframt hyggst ESB draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 20% fyrir árið 2020, miðað við árið 1990, en víðast hvar er einkum horft til breytinga á orkuframleiðslu í því skyni. Nokkuð hefur verið fjallað um þessar tillögur ESB að undanförnu, en þær eru þó sjaldnast settar í samhengi við stöðuna hér á landi. Á Íslandi er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa um 75% og verður orðið um 80% síðar á þessu ári, með frekari gangsetningu nýrra gufu- og vatnsaflsvirkjana.

Endurnýjanlegir orkugjafar
Óhætt er að segja að þessi nýju markmið ESB séu metnaðarfull, til dæmis í ljósi þess að ekki virðist ætla að takast að ná fyrra markmiði sambandsins frá árinu 1997 um 12% hlut endurnýjanlegra orkugjafa árið 2010. Hins vegar er mikið ánægjuefni að framkvæmdastjórn ESB hafi sett sér þessi metnaðarfullu markmið, en losun koltvísýrings stafar jú einkum af brennslu jarðefnaeldsneyta. Talsmenn atvinnulífs hafa þó lýst áhyggjum af því að kröfur á þeirra hendur um samdrátt í losun geri fyrirtækin ósamkeppnishæf og því muni þau jafnvel neyðast til að færa framleiðslustarfsemi til ríkja utan ESB. Eins hefur verið kvartað undan skorti á sveigjanleika í tillögum ESB, til dæmis varðandi möguleika á viðskiptum með svokölluð vottorð um  endurnýjanlega orku milli ríkja. Enn á þó eftir að útfæra framkvæmd þessara áætlana betur.

Sérstaða Íslands í loftslagsmálum
Staðan í þessum efnum er sem fyrr segir mjög sérstök á Íslandi. Hér eru nú þegar um 75% orkunotkunar fengin frá endurnýjanlegum orkugjöfum og fer hlutfallið raunar vaxandi með frekari gangsetningu nýrra gufu- og vatnsaflsvirkjana (hérlendis er innflutt orka einkum notuð við fiskveiðar og samgöngur). Þetta háa hlutfall hreinnar orku vekur sífellt meiri athygli annarra þjóða enda Ísland í einstakri stöðu að þessu leyti. Sóknarfærin til minnkandi losunar á gróðurhúsalofttegundum eru sem fyrr segir víðast hvar einna helst talin liggja á sviði orkuframleiðslu og er meðal annars horft til kjarnorku í þeim efnum.

Gríðarlegt forskot
Ljóst er að Ísland, sem þegar nýtir nær eingöngu endurnýjanlega orkugjafa til raforkuframleiðslu og húshitunar, hefur þegar stigið flest tæknilega fýsileg skref í þessa veru, þótt vonir séu vissulega bundnar við svokallað djúpborunarverkefni sem gæti gert það mögulegt að margfalda orkuframleiðslu á jarðhitasvæðum frá því sem nú er. Þá fara vonir vissulega vaxandi um tækniþróun í samgöngum, til dæmis hvað varðar frekari þróun á rafhlöðum í bifreiðar. Með frekari þróun á því sviði verðum við í enn betri stöðu hér á landi, því við getum jú einmitt fyllt á tankinn með raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Ólíkt mörgum öðrum Evrópuríkjum eigum við ekki hins vegar ekki mikla möguleika á að stórauka hlut endurnýjanlegrar orku í okkar orkunotkun, einfaldlega vegna þess hversu gríðarlegt forskot við höfum nú þegar og hversu hátt þetta hlutfall er þegar orðið hérlendis. Fyrir vikið getum við Íslendingar ekki flutt inn „hráa“ þá umræðu sem nú á sér stað í ESB, um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda með áherslu á aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa, eða kjarnorku.

Franz kjörinn formaður Nordvarme

Franz Árnason, forstjóri Norðurorku hf. og formaður stjórnar Samorku, var á dögunum kjörinn formaður Nordvarme til næstu tveggja ára. Jafnframt mun Samorka hafa veg og vanda af skrifstofuhaldi samtakanna á sama tíma. Nordvarme er samstarfsvettvangur Norðurlandanna í málefnum hitaveitu, þar sem meðal annars er fjallað um rannsóknir og þróun, gæðamál, öryggismál, þróun Evrópuregluverks og fleira. Sjá nánar um Nordvarme á vef samtakanna.

Merki 100 ára afmælis hitaveitu á Íslandi

Hannað hefur verið merki eitt hundrað ára afmælis hitaveitu á Íslandi. Höfundur merkisins er Hlynur Ólafsson, grafískur hönnuður. Merkið sýnir á táknrænan hátt þau bættu lífsgæði sem fólgin eru í hitaveituvæðingu á Íslandi. Samorka heldur í samstarfi við hitaveitur í landinu upp á 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi á þessu ári. Er þar miðað við frumkvöðulsstarf Stefáns B. Jónssonar, sem virkjaði hver til húshitunar á Suður-Reykjum í Mosfellssveit árið 1908.

Samorka vill á þessum tímamótum einkum beina sjónum fólks að því mikilvæga hlutverki sem heita vatnið hefur gegnt í því skyni að bæta heilsufar og almenn lífsgæði Íslendinga. Er þar meðal annars horft til betri hitunar hýbýla, heilnæmara andrúmslofts og aukinna tækifæra til útivistar og hreyfingar tengdum sundlaugamenningu. Samorka mun minnast 100 ára afmælisins með ýmsu móti á þessu ári. Má þar nefna:

  • Gerð heimildamyndar fyrir sjónvarp. Lífsmynd – Valdimar Leifsson kvikmyndagerð ehf. vinnur að gerð heimildamyndar fyrir sjónvarp um hitaveitur á Íslandi. Handritshöfundur og þulur er Ari Trausti Guðmundsson.
  • Útilistaverk í Mosfellsbæ. Samorka og Mosfellsbær hafa í sameiningu valið úr tillögum í samkeppni um útilistaverk sem reist verður við Þverholt í hjarta Mosfellsbæjar. Auk 100 ára afmælis hitaveitu er verkið unnið í tilefni af 20 ára afmæli Mosfellsbæjar. Niðurstaða samkeppninnar verður kynnt innan tíðar, samhliða sýningu á verkum þeirra þriggja listamanna sem valdir voru úr opnu forvali til þátttöku í lokaðri samkeppni um verkið.
  • Samantekt um heilsufarsáhrif heitavatnsnotkunar á Íslandi, unnin af Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri.
  • Fjölþjóðleg ráðstefna um hitaveitur, sem Háskóli Íslands skipuleggur í samstarfi við Nordic Energy Research og Samorku.

Loks mun Samorka standa fyrir prentútgáfu í tilefni af afmælinu og þá ber þess að geta að Íslandspóstur mun gefa út frímerki af þessu tilefni.

Eurelectric vilja opnari markað fyrir „græn vottorð“ innan ESB – íslensk raforkufyrirtæki gætu hagnast á slíkri breytingu

Framkvæmdastjórn ESB kynnti á dögunum tillögur að tilskipunum á sviðum orku- og loftslagsmála, þar sem stefnan er m.a. sett á 20% hlut endurnýjanlegrar orku árið 2020, og á 20% minnkun í losun gróðurhúsalofttegunda innan sama tíma. Hlutur endurnýjanlegrar orku er í dag um 8,5% innan ESB og markmið þessi því metnaðarfull, en þess má geta að þetta hlutfall mun nú vera um 75% á Íslandi og fer vaxandi. Ljóst er að miklar kröfur verða gerðar til raforkuframleiðenda í aðildarríkjum ESB á næstu árum en Eurelectric, Evrópusamtök raforkuiðnaðarins, hafa sent frá sér mat á helstu markmiðum þessara tillagna.

Ríkjunum sett mishá markmið
Tillögur framkvæmdastjórnar ESB gera ráð fyrir að þessari 11,5% hækkun á hlut endurnýjanlegrar orku verði náð með ákveðinni verkaskiptingu milli aðildarríkjanna. Öllum ríkjum er gert að auka sinn hlut um 5,75%, en þar til viðbótar eru ríkjunum sett mishá markmið þar sem tekið er mið að þjóðarframleiðslu á íbúa. Þá fá sum ríki að njóta að einhverju leyti þess árangurs sem náðst hefur á undanförnum árum og þannig eru t.d. Finnlandi og Svíþjóð sett markmið undir 11,5% meðalatalinu þótt þjóðarframleiðsla þar sé há.

Auka þurfi áherslu á viðskipti með græn vottorð
Að mati Eurelectric gætu þessar tillögur talist sanngjarnar ef þeim fylgdu ákvæði um öflugt kerfi viðskipta með svokölluð græn vottorð, þ.e. vottorð um þátttöku í framleiðslu á raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þannig gætu ríki með mjög lágt hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa en háa þjóðarframleiðslu á íbúa aukið sinn hlut með þátttöku í slíkum verkefnum í öðrum ríkjum. Sem dæmi má nefna Holland og Belgíu sem nú eru með 2,2% og 2,4% hlut endurnýjanlegra orkugjafa, en eiga að ná 13 og 14% aukningu fyrir árið 2020 sem telst gríðarleg áskorun eigi ríkin að uppfylla hana algerlega innan eigin landamæra.

Tillögur framkvæmdastjórnar ESB gera ráð fyrir kerfi viðskipta með græn vottorð, en aðildarríkjum er í sjálfsvald sett hvort þau taka þátt í slíku kerfi og heimildirnar einskorðast við raunverulegan innflutning á raforku. Til hliðar við þetta kerfi er svo annað kerfi þar sem t.d. íslensk raforkufyrirtæki hafa verið að selja græn vottorð, þar sem einstök fyrirtæki eða stofnanir taka þátt í fjármögnun á framleiðslu raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum í öðrum ríkjum. Þetta kerfi hefur hins vegar ekki áhrif á landsútreikinga heldur virkar eingöngu umræddum fyrirtækjum eða stofnunum til tekna, vilji þau sýna í verki mikla áherslu á notkun endurnýjanlegra orkugjafa.

Myndi þýða greiðari aðgang íslenskra raforkufyrirtækja
Nýju tillögur framkvæmdastjórnar ESB gera ekki ráð fyrir efnislegum breytingum á þessu kerfi, en Eurelectric hafa lagt áherslu á mikilvægi þess að slík græn vottorð frá ríkjum innan sem utan ESB yrðu hluti af kerfinu öllu. Með öðrum orðum, að raforkuframleiðendur frá ríkjum eins og Íslandi gætu selt slík græn vottorð inn í það kerfi viðskipta með græn vottorð sem talist getur ríkjum til tekna í landsútreikningum um hlut endurnýjanlegra orkugjafa. Samorka hlýtur að óska tillögum Eurelectric velgengni við úrvinnslu þessara tillagna á vettvangi ESB, enda myndi þessi stefnumótun samtakanna veita íslenskum raforkuframleiðendum og seljendum mun greiðari aðgang að þessum markaði. Án þessarar opnunar á viðskipti með græn vottorð telja Eurelectric að þessari tillögur ESB muni draga úr samkeppnishæfni atvinnulífs í ríkjum ESB.

Nánar má lesa um tillögur Eurelecric á vef samtakanna.

Hátíð í Hafnarfirði

Það er ekki á hverjum degi sem ný vatnsaflsvirkjun er tekin í notkun.
Föstudaginn 17. janúar s.l. var Reykdalsvirkjun, hin nýja, formlega gangsett.
Það er forsaga þessa atburðar að þegar Samorka minntist 100 ára rafvæðingar á Íslandi, þá var ákveðið að færa Hafnfirðingum að gjöf túrbínu og rafala af sömu stærð og vélar Jóhannesar Reykdals voru í upphafi.

Gjöfin var afhent á hátíðarsamkomu í Hafnarborg 12. desember 2004. Það er Reykdalsfélagið sem síðan borið hefur hita og þunga af verkinu.

Á myndinni sem hér fylgir sést þegar Jóhannes Einarsson skólastjóri Iðnskólans í Hafnarfirði ræsir virkjunina, að viðstöddu fjölmenni. Jóhannes er barnabarn frumkvöðulsins Jóhannesar Reykdals. Iðnskólinn í Hafnarfirði mun nýta virkjunina sem kennslutæki í rafiðnfræðum og við fræðslu um endurnýtanlega orku. Þess er að vænta að útilýsingin á svæðinu meðfram Hamrakotslæknum verði með rafmagni frá virkjuninni og síðan stendur til að á lóninu verði bátar sem knúnir verði með reykdalsrafmagni, eða með vetni sem framleitt verði með því rafmagni.

Samorka óskar Hafnfirðingum til hamingju með þetta framtak og hvetur alla sem áhuga hafa á raforkumálum að ganga við og skoða virkjunina, en hún er til húsa í undirgöngunum undir Lækjargötuna og stöðvarhúsið er með glerveggjum þannig að tæki og búnaður blasa við vegfarendum.

Samorka óskar Hafnfirðingum einnig til hamingju með 100 ára kaupstaðarafmælið, sem haldið er upp á árinu öllu, en gangsetning virkjunarinnar var einn liður í þeim hátíðarhöldum.

Nánari fróðleikur um 100 ára afmæli rafvæðingar

Heimasíða Hafnarfjarðarbæjar

SA: Hagsmunir Íslands í loftslagsmálum verði tryggðir

„Við gerð nýs alþjóðlegs samkomulags um loftslagsmál hljóta íslensk stjórnvöld að leggja áherslu á sérstöðu Íslands og þann árangur sem náðst hefur í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa,“ segir í fréttabréfi Samtaka atvinnulífsins. „Endurnýjað íslenskt ákvæði verður að tryggja að hægt verði að ráðast í þau verkefni sem þegar eru áætlanir um og að hægt verði að halda áfram uppbyggingu hér á landi á þeim tíma sem nýju samkomulagi er ætlað að vara. Þannig tryggja stjórnvöld hagsmuni íslensks atvinnulífs og um leið þjóðarinnar í bráð og lengd.“

Sjá nánar á vef SA.

John Snow Senat stofnað

Vatnsveita Hafnarfjarðar bauð til John Snow fundar og hádegisverðar á Fjörukránni í Hafnarfirði.  Á fundinn mættu átta félagar í John Snow og ræddu um markmið og leiðir til að vekja athygli á mikilvægi vatnsmála. John Snow Sociaty er alþjóðlegur félagsskapur sem er nefndur eftir þeim mikla lækni John Snow sem rakti útbreiðslu kóleru í London til mengaðs vatns  www. johnsnowsociety.org . Þetta var árið 1852 þegar kólera geisaði í Soho í London.  Þá var talið að veikin bærist með andadrætti á milli fólks en hann sannaði með faraldsfræðilegum rannsóknum að hún barst með menguðu vatni frá ákveðnum brunni.

Á fundinum var ályktað um mikilvægi þess að efla samvinnu á milli vatnsveitna, heilbrigðisyfirvalda, neytenda og annarra sem málið varða. Ákveðið að bjóða fleirum þátttöku í senatinu, þeim sem gegna lykilhlutverki og þeim sem hafa áhuga og eldimóð til að vinna að því að efla vatnsvernd og virðingu fyrir gæðum neysluvatns.

Hitaveita í 100 ár: Fjöldi tillagna að útilistaverki Samorku og Mosfellsbæjar

Sextán tillögur bárust að útilistaverki sem Samorka og Mosfellsbær hyggjast láta reisa á nýju torgi við Þverholt í Mosfellsbæ. Tilefni samkeppninnar eru 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi, sem miðast við frumkvöðulsstarf Stefáns B. Jónssonar á Suður-Reykjum í Mosfellssveit árið 1908, og 20 ára afmæli Mosfellsbæjar árið 2007.

Samkeppnin er tvískipt. Forvalsdómnefnd hefur nú valið þrjár tillögur og hefur höfundum þeirra verið boðið að þróa þær áfram gegn þóknun. Skiladagur er 21. desember og verða úrslit kynnt eigi síðar en 9. janúar 2008. Í samkeppnisreglum keppninnar segir meðal annars að Samorka vilji á þessum tímamótum einkum beina sjónum fólks að því mikilvæga hlutverki sem heita vatnið hefur gegnt í því skyni að bæta heilsufar og almenn lífsgæði Íslendinga. Er þá horft til þátta á borð við betur kynt hýbýli og því bætt heilsufar, hreinna andrúmsloft (í stað kola- og/eða olíureyks), sundlaugamenningu og þar með aukin tækifæri til útivistar, hreyfingar og félagslífs. Fram kemur að sameiginlega leiti Samorka og Mosfellsbær eftir gerð listaverks sem vísa myndi í þessa sögu, þetta hlutverk heita vatnsins, og að tenging við sögu Mosfellssveitar væri ákaflega vel við hæfi.

Niðurstöðu forvalsdómnefndar Mosfellsbæjar og Samorku má lesa hér.

Samkeppnisreglur keppninnar má lesa hér.

Ásgeir Sæmundsson stöðvarstjóri

Ásgeir Sæmundsson fyrverandi stöðvarstjóri í Andakílsárvirkjun er látinn.
Hann var fæddur 1923 og lést á Landsspítala Íslands mánudaginn 26. nóvember.
Ásgeir var rafvélavirkji og rafmagnstæknifræðingur. Hann lærði iðn sína hjá Bræðrunum Ormsson og tæknifræði í Tekniske Institute í Stokkhólmi.
Hann vann að rafveitumálum og rafvæðingu landsins um langt skeið og var m.a. stöðvarstjóri Andakílsárvirkjunar. Samorka minnist áhugasams og tillögugóðs félaga um leið og hún vottar aðstendendum fyllstu samúðar.

Ný tegund gagnrýni: farið að lögum

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Morgunblaðinu:

Umhverfis- og loftslagsmál eru ofarlega á baugi um heim allan. Ísland er þar engin undantekning. Hérlendis er þessi umræða þó með allt öðrum og jafnvel öfugum formerkjum við það sem víða gerist annars staðar. Í nágrannalöndunum snýst umræðan öðru fremur um leiðir til að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa, enda talið að hlýnun jarðar stafi að stærstum hluta af brennslu jarðefnaeldsneytis. Hlutur endurnýjanlegra orkugjafa er þannig um 7% innan Evrópusambandsins, en hér á landi er hann 72% og Ísland í einstakri stöðu á þessu sviði. Hér á landi eru það þó óvart framleiðendur og flutningsaðilar endurnýjanlegu orkunnar sem öðrum fremur sitja undir gagnrýni þeirra sem tala í nafni umhverfisverndar.

Nú er það auðvitað svo að málefnalegt aðhald er orku- og veitufyrirtækjum hollt, líkt og öllum öðrum. Þá verða einstakar virkjunarframkvæmdir ávallt og réttilega tilefni til skoðanaskipta, meðal annars frá sjónarhorni náttúruverndar. En því miður er gagnrýni á störf þessara fyrirtækja oft fjarri því að vera málefnaleg. Engu að síður virðist hún oft eiga afar greiða leið inn í fjölmiðla.

Klifað gegn betri vitund um raforkuverð
Sumir sem tala í nafni umhverfisverndar klifa til dæmis sífellt á því í fjölmiðlum að hér sé raforka seld stóriðju á einhvers konar undirverði. Engu er skeytt um svör er lúta að samanburði við meðaltalsverð til stóriðju í heiminum, eða að augljósum atriðum er varða stöðugleika í viðskiptum og magninnkaup, eða um að salan til stóriðju sé óvart uppspretta nær alls hagnaðar umræddra fyrirtækja og mikilvæg forsenda uppbyggingar sem öðrum nýtist. Gegn betri vitund er fremur klifað áfram um það sem af vandlætingu er kallað niðurgreitt verð, en um leið er gjarnan krafist sama raforkuverðs til annarra valinna atvinnugreina, sem ekki væri hægt að verða við nema óvart með stórfelldum niðurgreiðslum enda um að ræða margfalt minni og óstöðugri viðskipti. Þá hafa þessi fyrirtæki og starfsfólk þeirra undanfarin misseri mátt sitja undir skrautlegum viðtölum og fréttaflutningi um burðarþol stíflumannvirkja, um meinta vá sökum brennisteinsvetnis í andrúmslofti (maður þorði varla í sturtu og alls ekki að heimsækja Hveragerði) og þannig mætti lengi telja.

Gagnrýni fyrir að fara að lögum
Nú er komin fram ný tegund af gagnrýni á hendur einu fyrirtæki vegna virkjanaframkæmda. Í fjölmiðlum, meðal annars á forsíðu Morgunblaðsins, var það gert tortryggilegt að umrætt fyrirtæki skyldi sjálft hafa látið vinna umhverfismat vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Þetta er afar athyglisverð gagnrýni, því óvart er mælt fyrir um það í lögum um mat á umhverfisáhrifum að framkvæmdaraðili láti vinna slíkt mat. Matsferlið er hins vegar langt og að því koma ýmsir umsagnaraðilar auk að sjálfsögðu skipulagsyfirvalda, og ekki skal farið nánar út í það hér. En varla getur það talist eðlilegt að fyrirtækið sé gert tortryggilegt fyrir að fara eftir þeim lagabókstaf sem við á. Það eru takmörk.