Skuldir lækkað um 37% frá 2009

Skuldir hjá átta stærstu orku- og veitufyrirtækjum landsins hafa lækkað um 338 milljarða, eða tæp 37%, milli 2009 og 2015 á föstu verðlagi.

Á sama tíma hefur eigið fé vaxið um 32,6% og er nú samtals um 493 milljarðar. Þessi árangur á sex árum sýnir öflugt tekjustreymi, aðhald í rekstri og sterkara gengi krónunnar.

Orkufyrirtæki landsins eru langflest í opinberri eigu og endurspegla tölurnar því einnig lægri skuldir þjóðarbúsins.

Á sama tíma greiða Íslendingar mjög samkeppnishæft verð fyrir raforku, fráveitu, vatns– og hitaveituþjónustu miðað við okkar helstu samanburðarlönd.

OR dregur enn úr losun við orkuvinnslu

Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélög ætla draga úr útblæstri jarðhitalofts við orkuvinnslu ON á háhitasvæðum, styðja við vistvæna samgöngumáta starfsmanna og endurheimta votlendi með því að grafa ofan í skurði á landareignum OR.

Þetta kemur fram í loftlagsmarkmiðum OR samstæðunnar þar sem fyrirtækið skuldbindur sig til að minnka kolefnisspor samstæðunnar um helming til ársins 2030.

Einnig á að auka endurvinnsluhlutfall útgangs og draga úr matarsóun.

Nánar er fjallað um markmiðin á heimasíðu OR.

 

OR Logo 502x170

 

 

 

Húshitunarkostnaður langlægstur í Reykjavík

Það kostar fimmfalt meira á ári að hita húsið sitt í Helsinki en í Reykjavík. Húshitunarkostnaður er langlægstur á Íslandi og er þrefalt minni en þar sem næstódýrast er að hita.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt Samorku um húshitunarkostnað á Norðurlöndum. Stuðst er við tölur frá stærstu veitufyrirtækjum í hverri höfuðborg.

Árlegur kostnaður við að hita heimili á Íslandi er rúmar 85 þús krónur á ári fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu . Íbúi í Helsinki þarf að borga hátt í hálfa milljón árlega, eða um 428 þús krónur. Í Stokkhólmi er næstdýrast að hita húsið sitt eða rúmlega 300 þús krónur á ári. Íbúar í Kaupmannahöfn og Osló borga svipað á ári, eða tæplega 300 þús krónur.

Skattar vega nokkuð þungt á húshitunarreikningi Norðurlandabúa, en auk virðisaukaskatts er innheimtur sérstakur orkuskattur. Á Íslandi er hann 2% á heitt vatn.

 

Langflest heimili landsins eru hituð upp með heitu vatni (jarðhita), eða 90%. Í Reykjavík er þetta hlutfall 100%. Auk þess að vera ódýr kostur, er jarðhiti endurnýjanlegur og umhverfisvænn orkugjafi. Á hinum Norðurlöndum er að mestu notast við raforku eða jarðefnaeldsneyti við upphitun húsa.

Styrkir til að sækja alþjóðlegar jarðhitaráðstefnur

Jarðhitafélag Íslands veitir í ár háskólanemum, í fögum tengdum jarðhita, styrk til að sækja alþjóðlegar jarðhitaráðstefnur. Styrknum er ætlað að nýtast til að greiða ferða- og uppihaldskostnað og/eða ráðstefnugjöld.

Um er að ræða 2 styrki til framhaldsnema í háskólanámi (MS/Ph.D) að upphæð allt að kr. 300.000 fyrir hvern styrk. Stjórn félagsins mun velja styrkþega úr hópi umsækjenda.

Eftirtalin atriði geta orðið til að styrkja einstakar umsóknir:
– Umsækjandi verði með erindi eða annað slíkt hlutverk á viðkomandi ráðstefnu.
– Nám umsækjanda sé komið vel á veg.
– Umsækjandi sé í fullu námi.
– Lokaverkefni umsækjanda eða efni erindis geti haft hagnýtt gildi hérlendis.
– Umsækjandi búi að starfsreynslu tengdri jarðhitanýtingu.
– Umsækjandi sé félagsmaður í Jarðhitafélagi Íslands.

Umsóknum um styrki fyrir árið 2016 ber að skila til Sigurjóns Norberg Kjærnested, ritara stjórnar Jarðhitafélagsins, í netfangið sigurjon@samorka.is (eða með pósti til Sigurjóns á skrifstofu Samorku, merkt v. Jarðhitafélags Íslands, Borgartúni 35, 105 Reykjavík), eigi síðar en mánudaginn 12. september 2016. Umsóknum fylgi upplýsingar um námsferil, efni og stöðu lokaverkefnis eða ráðgerðs erindis á ráðstefnu, hagnýtt gildi verkefnis hérlendis, starfsreynslu tengda jarðhitarannsóknum eða -nýtingu ef við á, ásamt upplýsingum um þá ráðstefnu sem viðkomandi hyggst sækja.