Afar flókið virkjanaferli – fróðleg erindi á vorþingi Jarðhitafélagsins

Jarðhitafélag Íslands fjallaði á vorþingi sínu um skilvirkni leyfisveitinga-, mats- og skipulagsferla í tengslum við jarðhitavirkjanir. Fram kom að um afar flókið ferli getur verið að ræða.

160 formleg erindi til stofnana vegna Hellisheiðarvirkjunar
Þannig greindi Auður Andrésdóttir, sviðsstjóri umhverfissviðs Mannvits, m.a. frá því að á þeim tíu árum sem hún hefði komið að ráðgjöf vegna byggingar og stækkana Hellisheiðarvirkjunar hefði hún alls komið að 160 formlegum erindum til hinna ýmsu opinberu leyfisveitinga- og eftirlitsaðila. Taldi hún einsýnt að hægt væri að einfalda þetta ferli, t.d. með því að afnema matsskyldu vegna einstakra rannsóknarborholna með auknu vægi rannsóknarleyfa og almennt auka sveigjanleika til framkvæmda þegar almennar leyfisveitingar liggja fyrir gagnvart umræddu svæði.

Breyting á aðalskipulagi v. rannsóknarborana: 4 ár
Ásbjörn Blöndal, forstöðumaður þróunarsviðs HS Orku, fjallaði einnig um langt, kostnaðarsamt og flókið ferli virkjanaframkvæmda og -undirbúnings. Ásbjörn nefndi sem dæmi hvernig ein breyting á aðalskipulagi vegna rannsóknarborana hefði tekið rúmlega fjögur ár. Lagði Ásbjörn m.a. til að öll rannsóknarsvæði yrðu skilgreind í aðalskipulagi sem á svipaðan hátt og gert er með vatnsverndarsvæði, en þá á forsendum rannsóknarhagsmuna (í stað forsendna um vernd gegn mengun í tilviki vatnsverndarsvæða).