1. október 2008 Af þekkingargreinum í atvinnulífi Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Viðskiptablaðinu: Því er iðulega fleygt í opinberri umræðu um atvinnumál að leggja beri áherslu á „þekkingargreinar“. Einhverra hluta vegna eru alltaf sömu fyrirtækin nefnd til sögunnar hér á landi sem þekkingarfyrirtæki, glæsileg iðnfyrirtæki með öflugt rannsóknar- og þróunarstarf. Þó sér hver maður að margs konar rekstur krefst mikillar þekkingar. Til dæmis ef sjá á erlendum viðskiptavinum fyrir ákveðnu magni af tiltekinni fisktegund af tilteknum gæðum í hverri viku árið um kring. Sama gildir um þróun og framleiðslu á nýrri sælgætistegund sem síðan rokselst, rekstur á flugfélagi, banka o.s.frv. Allar greinar eru „þekkingargreinar“Allar atvinnugreinar eru þekkingargreinar í einhverjum skilningi. Vissulega er meiri fjármunum varið í rannsóknir og þróun í sumum greinum eða að minnsta kosti í sumum fyrirtækjum en í öðrum. Og vissulega er menntunarstig hærra í sumum fyrirtækjum en víða annar staðar, þegar horft er til formlegrar menntunar. En alls staðar er samt byggt á uppsafnaðri þekkingu og ástæðulaust að nota þetta hugtak yfir fáar útvaldar greinar í almennri umræðu um atvinnumál. Hver greinin öðrum háðAnnað vandamál við að draga fyrirtæki og jafnvel atvinnugreinar í dilka er að þær eru hver annarri háðar. Þannig þarf togaraútgerð t.d. væntanlega að eiga viðskipti við matvöruverslun, rafverktaka, viðskiptabanka, kerfisstjóra, veitingaþjónustu, símafyrirtæki, bifreiðarstjóra, flugfélög, ritfangaverslun o.s.frv. Vandséð er að velja megi eina grein úr þessari mynd og úrskurða að hún sé öðrum greinum mikilvægari. Innan orkugeirans var um tíma mikil þreyta með umfjöllun sem gerði lítið úr þeirri þekkingu sem þar er að finna, þar sem orkufyrirtækjum var iðulega stillt upp andspænis svonefndum þekkingarfyrirtækjum. Þessi umræða hefur breyst nokkuð eftir að betur kom fram hvernig íslensk orkufyrirtæki hafa upp á að bjóða þekkingu á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa sem eftirspurn er eftir um víða veröld. Til að bregðast við þessari umræðu tók Samorka þó saman að árið 2006 voru til dæmis fimm hundruð ársverk verk- og tæknifræðinga innt af hendi innan greinarinnar hér á landi, hátt á þriðja hundrað af fólki með aðra háskólamenntun og tæp fimm hundruð ársverk fólks með iðnmenntun. Jafnframt var hins vegar athygli vakin á því að svonefndir „ófaglærðir“ innan greinarinnar eru iðulega með mikla þjálfun að baki og óvenju háan starfsaldur. Þar er að sjálfsögðu til staðar verðmæt þekking og reynsla. Og auðvitað eru öll önnur fyrirtæki háð þjónustu orkufyrirtækja, eins og þau eru sjálf háð þjónustu svo margra annarra fyrirtækja úr öðrum greinum. Ekkert fyrirtæki getur sem sagt þrifist án annarra fyrirtækja úr öðrum atvinnugreinum. En má ekki samt velja einhverjar greinar og setja markið á að efla þær? Maður hittir varla svo nýútskrifaða viðskiptafræðinga úr tilteknum háskóla hér á landi að þeir haldi ekki yfir manni ræðu um að Íslendingar verði að feta í fótspor Finna og Íra, veðja á nýsköpun, menntun og „þekkingargreinar“. Nú er kannski skiljanlegt að háskólaprófessorar vilji draga fram mikilvægi formlegrar menntunar og ekki skal hér lítið gert úr því. Eigum „við“ að velja greinar?En er það hlutverk stjórnvalda að velja og hafna við hvaða löglegu iðju fólk starfar? Í hverju fyrirtækin fjárfesta? Ef viðurkennt erlent fyrirtæki bankar hér upp á með marga tugi milljarða króna sem það vill fjárfesta fyrir í íslensku atvinnulífi, er einhver sérstök ástæða til annars en að taka vel á móti þessu fyrirtæki, kynna því okkar lög og reglur (til dæmis um umhverfismál) og óska því velgengni í að fóta sig hér? Iðulega heyrist sagt að „við“ eigum að setja áhersluna á annars konar störf, aðrar greinar. En mega þau fyrirtæki ekki bara koma líka? Hver erum þessi „við“ sem oft er rætt um í slíku samhengi? Auðvitað á að halda hér úti öflugu menntakerfi og auðvitað á að skapa fyrirtækjum samkeppnishæft rekstar- og nýsköpunarumhverfi. En til lengri tíma getur enginn opinber aðili spáð fyrir um hvar tækifærin verði helst í framtíðinni. Það eina sem við vitum er að öll munu fyrirtækin þurfa á viðskiptum við önnur fyrirtæki úr ólíkum greinum að halda, vegna þeirrar þjónustu sem þau hafa þekkingu til að veita.