30. desember 2023 Ár umbrota og orkuskorts Árið 2023 var óvenjulegt þegar litið er til orku- og veitustarfsemi. Í fyrsta lagi stefndu náttúruhamfarir grundvallarinnviðum í hættu á Reykjanesskaga og þar með íbúabyggð fyrir nálægt 30.000 manns. Þetta kallaði á útsjónarsemi og óvenjulegar ráðstafanir orku- og veitufyrirtækja á svæðinu, sveitarfélaga og einstakar aðgerðir af hálfu stjórnvalda. Allt gert til að freista þess að tryggja órofna starfsemi í þágu fólks og fyrirtækja á svæðinu. Raunir Grindvíkinga en líka æðruleysi þeirra hljóta að vera öllum ofarlega í huga um þessi áramót. Í öðru lagi raungerðist undir lok árs alvarleg staða og raforkuskortur sem í mörg ár hefur verið varað við. Raforkuþörf eykst með vexti hagkerfisins, í takt við umbreytingu orkuskipta og staða vatnslóna vatnsaflsvirkjana getur haft mikil áhrif. Þessi staða var fyrirséð. Raunar hafði Samorka auk fyrirtækja í orku- og veitustarfsemi og stjórnvöld um árabil sett fram greiningar sem drógu fram þessa áhættu. Staðan nú endurspeglar mikilvægi þess að umgjörð orkugeirans verði endurskoðuð í heild og honum m.a. mörkuð mun skilvirkari og fyrirsjáanlegri stjórnsýsla án þess að dregið verði úr kröfum til umhverfismats og -verndar. Að sama skapi þarf að huga að raforkuöryggi heimila og smærri fyrirtækja, hafa jákvæð áhrif gagnvart neytendum, styðja við orkunýtni og orkuskipti og tryggja gagnsæjan og öflugan viðskiptavettvang með raforku sem sendir rétt fjárfestingamerki til markaðarins og notenda. Þetta hafa nágrannaþjóðir okkar gert, meðvituð um mikilvægi grænnar orku og knýjandi þarfar til að skipta út jarðefnaeldsneyti. Skilvirk og vönduð stjórnsýsla og skilvirkur og öflugur markaður með raforku mun skila okkur hagkvæmri og skynsamlegri nýtingu auðlinda. Þessu til viðbótar er mikilvægt að stjórnvöld ráði til lykta skattaumgjörð orkuvinnslu og komi á fót einfaldari umgjörð um vindorku, hvort tveggja verkefni sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur sett í forgang. Á árinu unnu aðildarfyrirtæki Samorku að margvíslegum framförum. Á sviði flutnings og dreifingu raforku er unnið að orkuskiptum, bæði verkefnum sem hafa raungerst en einnig mikilvægum áætlunum til að mæta loftslags- og orkuskiptamarkmiðum stjórnvalda. Óvenjulega mikil kuldatíð var sumum hitaveitum áskorun á meðan leit að heitu vatni var viðfangsefnið hjá öðrum. Að tryggja fólki og fyrirtækjum örugga, hagkvæma og sjálfbæra orku- og veituinnviði er stöðugt verkefni sem mörg taka sem gefnum hlut. Orku- og veitufyrirtækin í landinu munu halda ótrauð áfram því verkefni á árinu 2024. Samorka þakkar samstarfið á árinu og óskar landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og framfara á sviði orku- og veitumála. Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaði Morgunblaðsins miðvikudaginn 27. desember.