18. febrúar 2021 Grænn hagvöxtur Vel heppnuð endurreisn íslensks efnahagslífs að heimsfaraldri COVID-19 afstöðnum er eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar. Störfum hefur fækkað verulega en skráð atvinnuleysi nam tæpum 11% í desember sl. Afkoma þjóðarinnar er verulega háð útflutningstekjum og því er fjölgun atvinnutækifæra óhjákvæmilega háð vexti og afkomu útflutningsfyrirtækja. Undir núverandi kringumstæðum er því nauðsynlegt að huga að umhverfi atvinnulífsins í því skyni að hlúa að útflutningsframleiðslu. Reynslan kennir okkur að með þeim hætti er unnt að skapa fyrirtækjum forsendur til skapa ný og fjölbreytt störf sem eru vel launuð. Það er m.ö.o. tímabært að stuðla að gjaldeyrissköpun og byggja upp samkeppnishæfni innlendra fyrirtækja. Að heimsfaraldrinum frátöldum blasa við fleiri áskoranir sem einnig geta talist til tækifæra. Það færist í aukana að mengun og losun koltvísýrings hafi kostnað í för með sér í rekstri fyrirtækja, t.d. vegna reglubyrði, skatta og annarrar verðlagningar. Stærsta sjáanlega tækifæri íslenskra fyrirtækja felst því óhjákvæmilega í uppbyggingu á grænum grunni þar sem áhersla er lögð á atvinnustarfsemi byggða á grænum fjárfestingum. Á það við um fjárfestingar einkaaðila, hins opinbera og fyrirtækja í þess eigu. Með því að leggja rækt við að draga úr mengun og losun batnar nýting orku og auðlinda. Slík viðleitni kallar á mannvit og skapar þannig atvinnutækifæri. Með reynslunni eykst hæfni manna og fyrirtækja sem aftur bætir samkeppnisstöðu þeirra. Í því ljósi verður að teljast hyggilegt að stefnumótun beinist að tækifærum til grænnar atvinnusköpunar í öllum atvinnugreinum. Nýsköpun og þróun tæknilausna draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og lágmarka kolefnisspor fyrirtækja. Hagur allra batnar. Með tímanum hefur orkuframleiðsla orðið æ mikilvægari þáttur. Orka leikur lykilhlutverk í samfélagi nútímans og hagvöxtur er samofinn beislun og nýtingu hennar. Í alþjóðlegum samanburði er sérstaða Íslands mikil þegar kemur að hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa í frumorkunotkun. Þökk sé því að hér á landi eru rafmagnið og heita vatnið af endurnýjanlegum uppruna. Þegar framangreint hlutfall árið 2019 er skoðað kemur í ljósi að á Íslandi nam það 85% en einvörðungu 19,7% í Evrópu og 26,6% í heiminum öllum. Íslendingar hafa náð eftirtektarverðum árangri við útskipti jarðefnaeldsneytis fyrir hreina orkugjafa. Við erum því í einstakri stöðu til að ganga lengra með því að auka nýtingu innlendra, hagkvæmra og hreinna orkugjafa í samgöngum. Ef við höldum rétt á spilunum getum við Íslendingar raunverulega orðið fyrirmynd annarra þjóða og slík ásýnd eykur ein og sér seljanleika innlendra vara og þjónustu. Stjórnvöld í gjörvöllum heiminum leggja áherslu á orkuskipti og gera ráð fyrir að orkuskipti muni fyrr en varir ná til allra samgangna, á landi, á sjó og í lofti. Á þessum tímapunkti virðist sýnt að framleiðsla á svonefndu rafeldsneyti, orkugjöfum eða orkuberum, muni gegna lykilhlutverki. Eru þá ótalin önnur tækifæri svo sem framleiðsla á orkugeymslum, grænmeti og öðrum matvælum, þörungum o.fl. sem mun kalla á framboð sjálfbærrar og grænnar orku. Við eygjum tækifæri til útflutnings á bæði orkuþekkingu og orku í formi rafeldsneytis. Fari svo sem horfir gæti hér sprottið upp nýr og spennandi iðnaður sem mundi grundvallast á öflugri atvinnusköpun, nýsköpun, gjaldeyrissparnaði og ávinningi í loftslagsmálum. Á Norðurlöndunum er gert ráð fyrir að grænn vöxtur muni auka eftirspurn eftir raforku. Í Danmörku er áætlað að eftirspurnin muni tvöfaldast til ársins 2030, aukast um 35% í Noregi til ársins 2050, um þriðjung til ársins 2045 í Svíþjóð og um tæp 60% í Finnlandi til 2050. Samkvæmt sviðsmyndum raforkuspár 2020–2060 þarf að auka orkuframleiðslu til að mæta þörfum samfélagsins hér á landi. Sviðsmyndin „græn framtíð“ gerir ráð fyrir að orkuþörfin aukist um 37% en allt að 69% samkvæmt sviðsmyndinni „aukin stórnotkun“ 2019–2060. Raforkukerfið er því forsenda efnahagslegra framfara. Ætla má að framtíðarnotendur verði virkir þátttakendur í orkuskiptum og þar með örlagavaldar þegar kemur að markmiðum í loftslagsmálum. Fjórða iðnbyltingin verður fyrst og fremst raforkudrifin, þar sem gagnaver, snjallvæðing og gervigreind munu leika lykilhlutverkin. Í þessu samhengi er því mikilvægt að horfa til framtíðar, leggja áherslu á orkuskipti og fullnýta þau tækifæri sem Íslandi standa til boða. Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur Samorku. Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 18. febrúar 2021 og hana má finna á vb.is.