20. ágúst 2019 Veitur leiðrétta vatnsgjöld ársins 2016 Veitur hafa leiðrétt vatnsgjöld ársins 2016 í kjölfar úrskurðar í vor. Leiðréttingin nær til vatnsveitnanna í Reykjavík, á Akranesi, í Grundarfirði og Stykkishólmi. Í flestum tilvikum gengur leiðréttingin til lækkunar á vatnsgjöldum með gjalddaga nú í september. Samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga skal vatnsgjald hverrar vatnsveitu miðast við að það „…standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar.“ Í vor komst samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið að þeirri niðurstöðu að vatnsgjald á tiltekna íbúð í Reykjavík vegna ársins 2016, sem kært var til ráðuneytisins, hafi verið of hátt. Þótt Veitum þyki úrskurðurinn óljós um sumt var ákveðið að una niðurstöðunni og voru vatnsgjöldin því endurreiknuð með tilliti til hennar. Það leiddi til þess að gjaldið hefur verið leiðrétt hjá öllum viðskiptavinum áðurnefndra vatnsveitna. Nánari upplýsingar um tilhögun leiðréttingarinnar má finna á heimasíðu Veitna.