Ómissandi innviðir eru hluti vígvallar Evrópu


„Áfallaþol Íslands í nýrri heimsmynd“ var yfirskrift opins fundar sem Varðberg, dómsmálaráðuneytið og utanríkisráðuneytið efndu til í dag, 29. janúar, í Norræna húsinu. Þar var sjónum m.a. beint að áfangaskýrslu stjórnvalda sem byggir á sjö grunnviðmiðum Atlantshafsbandalagsins um áfallaþol.


Orku- og veituinnviðir voru mjög í brennidepli á fundinum en meðal frummælenda var Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna og stjórnarformaður Samorku. „Ómissandi innviðir eru orðnir hluti af vígvellinum í Evrópu,“ sagði Sólrún og lýsti þeim fjölþáttaógnum sem steðja að innviðum og fyrirtækjum á þessu sviði.

„Viðnámsþol er ekki bara viðbragð því forvarnir eru líka mikilvægar,“ bætti Sólrún við. Hún lagði áherslu á að Samorka væri tilbúin til samstarfs enda áfallaþol ein af grunnforsendum þjóðaröryggis.

Hins vegar þyrftu fyrirtæki í þessum geira að hafa umboð og leyfi til byggja upp nauðsynlegar forvarnir því slys eða óhöpp gætu valdið miklum skaða ef ekkert væri að gert. „Við þurfum lagaumboð, fjármagn og samstarf við stjórnvöld,“ sagði stjórnarformaður Samorku að lokum í sínu ávarpi.