16. janúar 2026 ESB-styrkir til að efla áfallaþol í boði fyrir íslensk orku- og veitufyrirtæki Evrópusambandið hefur opnað fyrir umsóknir um styrki upp á samtals 15 milljónir evra, jafnvirði um 2.2 milljarða króna, úr Internal Security Fund (ISF) til að styðja við innleiðingu CER-tilskipunarinnar um áfallaþol ómissandi innviða. (Critical Entities Resilience). Markmiðið er að styrkja þetta áfallaþol gagnvart ýmiskonar fjölþáttaógnum og kerfislægum truflunum. Ísland er fullgilt þátttökuland í þessu ferli og því geta íslenskir aðilar, þ.á.m. orku- og veitufyrirtæki sótt um þessa styrki og tekið þátt í verkefnum sem þeim tengjast. Evrópusambandið segir það forgangsmál að styrkja áfallaþol ómissandi innviða í samræmi við á stefnumótun sem það hefur sett fram. Árangur á þessu sviði skipti höfuðmáli fyrir efnahag og samfélög í aðildarríkjunum. Daglegt líf byggist m.a. á öruggu framboði orku og drykkjarvatns, auk heilbrigðis- og fjármálaþjónustu, samgangna og fleiri þátta. Samorka og aðildarfyrirtæki samtakanna hafa lagt mikla áherslu á umræðu og stefnumótun um aukið áfallaþol og íslenskt stjórnvöld hafa einnig stigið skref í þessa átt, m.a. með útgáfu á áfangaskýrslu um samfélagslegt áfallaþol á grundvelli sjö viðmiða Atlantshafsbandalagsins. Frestur til að skila inn umsóknum í Internal Security Fund Evrópusambandsins rennur út 31. mars n.k.. Mat umsókna fer fram í apríl og maí og tilkynnt verður um niðurstöður í júní. Hér að neðan er hægt að lesa fréttatilkynningu Evrópusambandsins þar sem finna má hlekki á frekari upplýsingar, þar á meðal umsóknargátt og hægt er að nálgast skýrsluna í heild sinni á netinu. https://home-affairs.ec.europa.eu/news/commission-provide-eur-15-million-support-critical-entities-resilience-2025-12-10_en: ESB-styrkir til að efla áfallaþol í boði fyrir íslensk orku- og veitufyrirtæki