Meiri endurnýjanleg orka til hitunar og kælingar er lykill að orkuskiptum innan ESB 

Evrópskur samstarfsvettvangur um tækni og nýsköpun vegna sjálfbærrar hitunar og kælingar1 stóð fyrir ráðstefnu í Brussel þann 7. maí sem bar yfirskriftina „Collaborative Pathways to Sustainable Heating and Cooling“ eða „Samstarfsleiðir að sjálfbærri hitun og kælingu.“ 

Þeir sem sátu ráðstefnuna komu úr ýmsum áttum, s.s. sérfræðingar úr vísindasamfélaginu, fulltrúar fyrirtækja, hagsmunasamtaka og sérfræðingar frá Evrópusambandinu.  Árið 2023 stóðu endurnýjanlegir orkugjafar undir 26.2% af heildarorkunotkun vegna hitunar og kælingar innan Evrópusambandsins. Vera má að sú tala hafi hækkað eitthvað síðan en það er greinilega verk að vinna að auka hlut grænna orkugjafa og minnka þá um leið notkun jarðefnaeldsneytis. Ekki síst þegar Evrópusambandið ætlar í áföngum að hætta alfarið innflutningi á rússnesku gasi fyrir árslok 2027. Orka sem notuð er til hitunar og kælingar er um helmingur af heildarorkunotkun í aðildarríkjum Evrópusambandsins. ESB hefur því lagt ríka áherslu á að minnka kolefnislosun í þessum geira með því að hraða orkuskiptum enda sé það forsenda fyrir því að ná markmiðum ESB í orku- og loftslagsmálum.  

Beatrice Coda frá rannsókna- og nýsköpunarsviði Evrópusambandsins. 

Fyrirlesarar á ráðstefnunni litu margir til framtíðar, kynntu nýjungar á þessu sviði og ræddu einnig helstu áskoranir og tækifæri í pallborðsumræðum.  Athyglisvert er að sjá hvernig ólíkir orkugjafar eru notaðir til hitunar og kælingar i Evrópu Þar má helst nefna sólarorku, lífefnaeldsneyti og varmadælur og svo auðvitað jarðhita.  Nýsköpun á þessu sviði veltur m.a. á framlögum frá Evrópusambandinu og fulltrúi ESB á ráðstefnunni var einmitt  frá rannsókna- og nýsköpunarsviði Framkvæmdastjórnar ESB, Beatrice Coda. Hún benti m.a. á að Horizon Europe, Rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB, hefði veitt verulegu fé til fjölmargra verkefna til að styðja við þróun endurnýjanlegra orkulausna  fyrir hitun og kælingu. Íslensk fyrirtæki, stofnanir og háskólar geta sótt um styrki úr Horizon og hefur orðið vel ágengt, m.a. í að fá styrki til nýtingar jarðhita. 

Fulltrúar víða að sóttu ráðstefnuna og pallborðsumræður voru líflegar. 

Þá hyggst Evrópusambandið efla hlut jarðvarma með sérstakri aðgerðaáætlun sem nú er í undirbúningi og á að líta dagsins ljós snemma á næsta ári. Samorka mun fylgjast grannt með því ferli enda er Ísland í fremstu röð á heimsvísu í nýtingu jarðvarma og hefur því margt fram að færa. 

Meira um ráðstefnuna: 100% RHC Event 2025 – RHC 

Stefnumótun ESB um hitun og kælingu: Heating and cooling