Umtalsverð fasteignagjöld sveitarfélaga af vindorkuverum 

Núverandi skattframkvæmd vegna fasteignagjalda gæti árlega skilað sveitarfélögum milljörðum í fasteignagjöld á líftíma vindorkuverkefna samkvæmt greiningu sem Deloitte hefur unnið fyrir Samorku, samtök orku- og veitufyrirtækja.  

Deloitte áætlar að fasteignagjöld til sveitarfélags vegna 100 MW vindorkuvers yfir 25 ára tímabil gætu numið 1,6 – 3,5 milljörðum króna. Áætluð fasteignagjöld til sveitarfélags vegna 100 MW vindorkuverks gætu numið 65-139 milljónir króna á ári. Fjárhæðarbilið helgast af því að reglur um fasteignaskatta leiða til mismunandi álagningar gagnvart ólíkum tegundum vindmylla.   

Í skýrslu Deloitte er í fjórum mismunandi dæmum áætluð árleg fasteignagjöld á hvert MW og eru þau á bilinu 700 þúsund – 1,4 milljónir króna, eftir mismundi stærð og umfangi vindmyllu 

„Greining Deloitte dregur fram að núverandi kerfi fasteignagjalda virkar, skilar fasteignagjöldum til sveitarfélaga og mun skila umtalsverðum fjárhæðum. Það er enda eðlilegt að sveitarfélag hafi efnahagslegan ávinning af framkvæmdum og grænni orkuvinnslu innan marka þeirra,“ segir Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku.  

„Niðurstaða Deloitte undirstrikar enn fremur að ekki er ástæða til að láta vinnu stjórnvalda varðandi  fasteignagjöld eða jöfnunarsjóð sveitarfélaga tefja fyrir grænum orkuverkefnum þar sem fyrirtæki telja grundvöll fyrir byggingu þeirra og sveitarfélag hafa hug á uppbyggingu.“ 

„Umræða um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga á ekki að standa í vegi fyrir stjórnsýslumeðferð og leyfisveitingum vegna vindorkuverkefna. Það er hins vegar eðlilegt að ríki og sveitarfélög, lýðræðislega kjörnir fulltrúar, eigi og leiði samtalið um fjármögnun sveitarfélaga til lykta án þess að það hafi neikvæð áhrif á uppbyggingu grænnar orkuvinnslu.“ 

Samantekt Deloitte má nálgast hér fyrir neðan.