750 stelpur kynntu sér tæknistörf og nám

750 stelpur tóku þátt í Stelpur og tækni í dag

Um 750 stelpur úr 9. bekk grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu heimsóttu Háskólann í Reykjavík og fjölmörg tæknifyrirtæki í dag þegar viðburðurinn Stelpur og tækni var haldinn í fimmta sinn og fjölmennari en nokkru sinni fyrr. Tilgangurinn með Stelpum og tækni er að kynna möguleika í tækninámi og tæknistörfum fyrir stelpum í 9. bekk grunnskóla, kynna þær fyrir fyrirmyndum í tækni og opna augu þeirra fyrir framtíðarmöguleikum sem tæknigreinar bjóða. Dagurinn er haldinn af Háskólanum í Reykjavík í samvinnu við Samtök iðnaðarins, SKÝ og LS Retail. Samorka var eitt af þeim fyrirtækjum sem tóku þátt í viðburðinum.

Stelpurnar tóku þátt í fjölbreyttum vinnusmiðjum í HR í umsjá /sys/tra, félags kvenna í tölvunarfræði við HR, tæknifyrirtækja og kennara tölvunarfræðideildar og tækni- og verkfræðideildar. Viðfangsefnin voru af ólíkum toga, til dæmis kynnast þær forritun og gerð vefsíðu, vefhönnun, tónlistarforritun, þrívíddarprentun líffæra og brotaþoli beina.

Eftir að vinnustofunum lauk heimsóttu stelpurnar fjölbreytt tæknifyrirtæki þar sem konur sem starfa hjá fyrirtækjunum gáfu stelpunum innsýn í starfsemina og þau tækifæri sem stelpum bjóðast á vinnumarkaði að loknu tækninámi. Þau fyrirtæki sem tóku þátt í ár, ásamt Samorku, voru: LS Retail, Marel, Eimskip, Landsnet, Landsvirkjun, Arion banki, Opin Kerfi, Meniga, Valitor, Orkuveita Reykjavíkur, Össur, Íslandsbanki, Landsbankinn, RB, Syndis, Tækniskólinn, Myrkur, Advania, Kolibri, Síminn, Wise, Sensa, Microsoft, Nova, Efla, Origo, Tempo, Vodafone.

15. maí verður viðburðurinn haldinn á Akureyri, fyrir stelpur í grunnskóla á Norðurlandi, í samstarfi við Háskólann á Akureyri og stefnt er að því að gefa stelpum annars staðar á landinu tækifæri til að taka þátt næsta haust.

Dagurinn er haldinn að fyrirmynd Girls in ICT Day sem haldinn er víða um heim af ITU (International Telecommunication Union), samtökum um upplýsinga- og samskiptatækni innan Sameinuðu þjóðanna.