12 milljarða framkvæmdir og afslættir til stórnotenda

Landsvirkjun hyggst leggja um 12 milljarða króna til ýmissa nýframkvæmda, endurbóta og viðhalds á orkuvinnslusvæðum á næstu þremur árum, veita tímabundna afslætti af raforkuverði til viðskiptavina meðal stórnotenda sem nema um 1,5 milljörðum króna, undirbúa rannsóknar- og þróunarverkefni á Suðurlandi og Norðurlandi í samstarfi við hagaðila í nærsamfélaginu og flýta verkefnum á sviði stafrænnar þróunar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun.

Nýlega var tilkynnt að Landsvirkjun myndi greiða 10 milljarða króna í arð til ríkissjóðs í ár, eða meira en tvöfalt hærri upphæð en á síðasta ári. Vonir standa til að Landsvirkjun muni áfram skila eigendum sínum arði á komandi árum.

Með þessum hætti ætlar eitt stærsta fyrirtæki þjóðarinnar að taka þátt í öflugri viðspyrnu atvinnulífsins í því átaki sem er fram undan í atvinnu- og efnahagsmálum eftir kórónuveirufaraldurinn. Á sama tíma verður áfram lögð áhersla á ráðstafanir til að tryggja örugga orkuvinnslu í aflstöðvum, en orkuvinnslan hefur gengið áfallalaust.

Landsvirkjun hefur þegar hafið eða undirbýr ýmsar aðgerðir í samstarfi við fjölmarga hagaðila. Þær snúa að því að flýta atvinnuskapandi og arðbærum viðhaldsframkvæmdum og fjárfestingum og stuðla að orkutengdri nýsköpun og aukinni sjálfbærri verðmætasköpun tengdri orkuvinnslu víða um land. Í aðgerðum Landsvirkjunar felst meðal annars:

• Ráðstafanir til að tryggja örugga vinnslu rafmagns á tímum COVID-19.
• Unnið verður náið með viðskiptavinum á stórnotendamarkaði og tímabundnir afslættir veittir af raforkuverði Landsvirkjunar, hvort heldur er í langtíma- eða skammtímasamningum.
• Framkvæmdum verður flýtt og ráðist í atvinnuskapandi endurbóta- og viðhaldsverkefni á næstu þremur árum fyrir samtals um 12 milljarða króna.
• Efnt verður til samstarfsverkefna um orkutengda nýsköpun og orkuskipti. Unnið verður með nærsamfélögum að því að undirbúa orkutengd tækifæri framtíðar til dæmis við matvælaframleiðslu, sjálfbæra nýtingu auðlinda, sprota og að undirbúa svæði til að taka á móti nýjum orkutengdum fjárfestingum. Einnig er verið að skoða verkefni á sviði orkuskipta með sveitarfélögum.
• Áhersla verður lögð á að flýta ýmsum verkefnum í stafrænni þróun sem styðja við orkuvinnsluna, stafræn kerfi og þjónustu Landsvirkjunar.
• Um 220 nemar og ungmenni fá störf við fjölbreytt verkefni hjá Landsvirkjun í sumar.

Örugg raforkuvinnsla og afhending

Mikilvægasta verkefni Landsvirkjunar á tímum COVID-19 hefur verið að tryggja örugga orkuvinnsla í aflstöðvum og afhendingu rafmagns til viðskiptavina, samhliða því að tryggja heilsu og öryggi starfsfólks.

Landsvirkjun vinnur yfir 70% af raforku landsmanna og rekur fimmtán vatnsaflsstöðvar, þrjár jarðvarmastöðvar og tvær vindmyllur á fimm starfssvæðum fyrirtækisins víðs vegar um landið. Öll raforkuvinnsla Landsvirkjunar hefur gengið eftir áætlun.

Landsvirkjun hefur fylgst náið með öllum tilmælum Almannavarna frá upphafi faraldurs og tekið þann kostinn að ganga fremur lengra en skemur í aðgerðum sínum. Þar hefur öll áhersla verið á að verja grunnstarfsemi fyrirtækisins. Strangar öryggisreglur hafa verið á starfsstöðvum, fjarvinna aukin og vaktaskipulagi breytt á stöðum sem krefjast viðveru starfsmanna. Vandaður undirbúningur og skýrt verklag hafa reynst vel. Endurbætur og viðhaldsvinna fóru í tímabundna bið þar til núverandi ástand er um garð gengið. Starfsemi aflstöðvanna hefur þannig verið varin eftir megni og hefur engin röskun orðið á raforkuvinnslu og afhendingu.

Unnið með viðskiptavinum á krefjandi tímum

Eftirspurn eftir raforku hefur dregist saman um heim allan, sem bein afleiðing af kórónuveirufaraldrinum. Margir viðskiptavina Landsvirkjunar finna nú fyrir þrengingum á mörkuðum fyrir þeirra afurðir, verulega hefur dregið úr eftirspurn eftir framleiðsluvörum og dæmi um að markaðir hafi alveg lokast. Af þeim ástæðum hafa sumir viðskiptavinir þurft að draga tímabundið úr starfsemi sinni. Gagnaversviðskiptavinir eru bjartsýnir á framtíðina þrátt fyrir tímabundnar áskoranir og mögulegan samdrátt í eftirspurn til skamms tíma.

Landsvirkjun mun eftir fremsta megni vinna með hverjum og einum viðskiptavina sinna og veita tímabundin úrræði til að koma til móts við hugsanlega rekstrarerfiðleika vegna ástands á mörkuðum í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Til þess að styðja við samkeppnishæfni viðskiptavina Landsvirkjunar og markaðsstarf þeirra við krefjandi ytri aðstæður verður boðið upp á almenn úrræði þeim til handa:

• Tímabundin 6 mánaða lækkun að kostnaðarverði Landsvirkjunar til stórnotenda. Átta af tíu stórnotendum fá lækkun samkvæmt þessu sem getur þýtt allt að 25% lækkun raforkuverðs. Kostnaður Landsvirkjunar vegna afslátta er áætlaður um 1,5 milljarðar króna.
• Viðskiptavinum verður einnig boðið upp á sveigjanlega skammtímasamninga á kostnaðarverði.

Flýting nýframkvæmda, fjárfestinga og viðhalds

Framkvæmdum verður flýtt og ráðist í ýmis atvinnuskapandi endurbóta- og viðhaldsverkefni á næstu þremur árum fyrir samtals um 12 milljarða króna.

Á hverju ári stendur Landsvirkjun fyrir umfangsmiklum viðhalds- og endurbótaverkefnum í rekstri og við 18 aflstöðvar sínar um allt land. Á þessu ári er áætlað að ráðast í um 90 verkefni fyrir um 2,4 milljarða króna og koma þau að mestu til framkvæmda í sumar og haust eða um leið og hægt verður að byrja á þeim. Meðal þeirra verkefna sem stefnt er að byrja á í ár eru:

• Endurbætur á vél- og rafbúnaði í fjórum aflstöðvum; Búrfellsstöð, Sultartangastöð, Sigöldustöð og Kröflustöð.
• Viðgerðir og lagfæringar á flóðfarvegum á Þjórsársvæði.
• Bygging göngu- og reiðbrúar yfir Þjórsá ofan Þjófafoss.
• Viðgerðir og endurbætur á stöðvarhúsi, inntakshúsi og inntaksþró Steingrímsstöðvar við Sogið.

Auk þessara verkefna er nú til skoðunar að flýta ýmsum framkvæmdum á næstu þremur árum. Meðal nýrra verkefna eru mögulegar undirbúningsframkvæmdir vegna Hvammsvirkjunar í neðanverðri Þjórsá, s.s. við vegagerð, brúarsmíði og aðstöðusköpun. Þær framkvæmdir myndu þó ekki hefjast fyrr en á árinu 2021.

Samstarfsverkefni um orkutengda nýsköpun

Landsvirkjun leggur áherslu á að stuðla að aukinni sjálfbærri verðmætasköpun tengdri orkuvinnslu sinni víða um land. Í ljósi þess er meðal annars verið að undirbúa eftirfarandi verkefni:

Á Norðausturlandi
Ákveðið hefur verið að halda áfram og efla samstarfsverkefnið EIMUR, sem er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Norðurorku, Orkuveitu Húsavíkur og Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra. Fjölbreytt starfsemi hefur verið hjá EIM undanfarin ár þar sem meðal annars verið unnið að kortlagningu auðlinda svæðisins, rannsóknum á tækifærum í nýsköpun tengdri bættri orkunýtingu, stuðningur við sprotafyrirtæki og ýmis verkefni háskólanema ásamt þátttöku í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum.

Á Suðurlandi
Unnið er að því að setja á stofn nýtt samstarfsverkefni með Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Landbúnaðarháskóla Íslands. Markmið verkefnisins verða að styðja við þróun og nýsköpun tengdri orkuháðri matvælaframleiðslu og líftækni á landsvísu. Í tengslum við verkefnið mun á næstu vikum vera auglýst eftir verkefnum í viðskiptahraðal á Suðurlandi.

Verkefni um orkuskipti
Verið er að leggja drög að nýju rannsóknar- og þróunarverkefni með sérstakri áherslu á orkuskipti í samgöngum, vinnslu á innlendu eldsneyti og nýtingu á hliðarafurðum.

Sumarstörf fyrir ungt fólk víðsvegar um allt land

Áfram verður lögð áhersla á ráðningu háskóla-, iðn- og tækninema og ungmenna (16 til 20 ára) í sumarstörf hjá Landsvirkjun í fjölbreytt verkefni víðsvegar um landið. Um 60 háskóla-, iðn og tækninemar hafa verið ráðnir til starfa í sumar og sóttu 530 um þau störf. Um 160 ungmenni á aldrinum 16-20 ára taka til starfa í byrjun júní á starfssvæðum Landsvirkjunar um allt land og bárust 280 umsóknir um þau störf.