„Græna“ fólkið og skotmörkin

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Við sem störfum í íslenska orkugeiranum búum í tvískiptri veröld þegar kemur að umræðum um umhverfismál. Á erlendri grundu snýst umhverfisumræðan gjarnan um loftslagsmál jarðar og mikilvægi þess að draga – hnattrænt – úr notkun jarðefnaeldsneytis á borð við olíu og kol. Ræddar eru leiðir til að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa á borð við vatnsafl, vindorku og jarðvarma. Íslendingar eru venjulega í mjög sérstakri stöðu á slíkum fundum, okkar staða er algjörlega einstök, við erum „græna“ fólkið á svæðinu og rúmlega það. Hér er hlutur endurnýjanlegra orkugjafa um 80% á meðan t.d. Evrópusambandið hefur sett sér markmið um að ná 20% hlutfalli árið 2020. Hér eru rafmagn og hiti græn orka. Flest Evrópulönd hafa raunar þegar virkjað miklum mun hærra hlutfall af sínu vatnsafli en við höfum gert. Dæmi eru Noregur, Sviss og Austurríki, þar sem náttúrufegurð er mikil líkt og hérlendis. Færri ríki hafa hins vegar mikinn aðgang að jarðvarma líkt og við, en hann er þó mikið nýttur t.d. í Toscana héraði á Ítalíu.

Og umræðan skilar engu
Hér á Íslandi snýst umhverfisumræðan iðulega líka um nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, en á þveröfugum forsendum. Sum okkar sem starfa í orkugeiranum sóttu t.d. umhverfisþing á dögunum. Þar voru flutt ýmis fróðleg erindi, ráðuneytið kynnti vandaða skýrslu og margt jákvætt um þingið að segja. En á þinginu fundu margir hjá sér þörf fyrir að gera grín að íslenskum orkufyrirtækjum og jafnvel ausa yfir þau skömmum. Hópur fólks hló og klappaði þegar orkufyrirtækin fengu það óþvegið eða hótfyndni var beint í þeirra garð. Græna fólkið á erlendum umhverfisfundum er í hlutverki viðurkenndra skotmarka á umhverfisfundum hérlendis. Og umræðan skilar engu.

Formaður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna ávarpaði stóran fund hér á dögunum. Hann hrósaði Íslendingum fyrir forystu í baráttunni fyrir minni losun gróðurhúsalofttegunda. Þeir ættu miklar endurnýjanlegar orkuauðlindir og skildu mikilvægi þess að nota þær. Mörgum leið eins og þau væru á fundi erlendis.