28. júní 2018 Vetnisbíll á vatnsverndarsvæði Veitna Veitur hafa tekið í notkun nýjan vetnisbíl sem ætlaður er til notkunar á vatnsverndarsvæðinu í Heiðmörk. Bíllinn, sem er af gerðinni Hyundai ix35, mun auka öryggið í kringum vatnsból Veitna umtalsvert en hingað til hefur umsjónarmaður vatnsverndarsvæðisins ekið um á lekavottuðum díselbíl. Vetni er frumefni og þegar það binst súrefni myndar það vatn. Útblástur bílsins er því hreint vatn og kolefnisspor eldsneytisins ekkert. Helsta hættan sem að vatnsbólunum stafar er mengun, t.d. af rusli, olíu, skólpi eða öðrum efnum. Þau geta komist í gegnum jarðlögin og í vatnið með miklum grunnvatnsstraumum sem renna neðanjarðar inn í vatnsbólin í Heiðmörk. Mengunarvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir eru nauðsynlegar til að tryggja neytendum á veitusvæði okkar hreint og tært vatn um alla framtíð. Kaupin á vetnisbílnum eru liður í því. Þrátt fyrir að ganga fyrir vetni er bíllinn sem Veitur taka nú í notkun lekavottaður því í honum eru aðrir vökvar sem ekki mega fara í jörð á vatnsverndarsvæði, eins og frostlögur, rúðupiss og smurolía. En hættan á að frá honum leki jarðefnaeldsneyti i jörð er ekki fyrir hendi.