6. september 2011 Umsögn Samorku um tillögu til þingsályktunar um rammaáætlun Í umsögn sinni um tillögu til þingsályktunar um rammaáætlun ítrekar Samorka ánægju með að þetta ferli sé að þokast og senn dragi því úr óvissu í rekstrarumhverfi orkufyrirtækja. Samtökin benda á að mikil og um margt góð vinna hefur verið unnin í verkefnisstjórn um rammaáætlun, þótt samtökin hafi vissulega bent á ýmislegt sem þar hefði betur mátt fara. Því kemur það óvart að í tillögunni er í all nokkrum tilvikum vikið verulega frá röðun verkefnisstjórnar. Sátt um vinnu verkefnisstjórnar Stærð einstakra flokka og röðun í þá er að sjálfsögðu ákvörðun Alþingis. Að mati Samorku væri hins vegar vænlegast að styðjast við röðun verkefnisstjórnar, sú leið ætti að mati samtakanna að geta stuðlað að nokkuð víðtækri sátt um rammaáætlun, þótt sú mikla og ágæta vinna sem unnin var af verkefnisstjórn undanfarin ár sé auðvitað ekki hafin yfir gagnrýni fremur en önnur mannanna verk. Að hámarki um 700 MW sem mögulegt er að ráðstafa á næstu tveimur árum Skv. tillögunni fara 25,6% áætlaðrar orkuvinnslugetu í nýtingarflokk, eða 11.900 GWh, sem samsvarar tæpum 1.500 MW í áætluðu uppsettu afli. Virkjanakostirnir í nýtingarflokki eru mjög mislangt komnir í undirbúningi og mati á umhverfisáhrifum og því breytilegt hvenær þeir geta komið til framkvæmda. Einnig er yfirleitt nauðsynlegt að nýta jarðhitasvæði í áföngum og óvissan um orkugetu þeirra ávallt mikil þar til búið er að rannsaka svæðin með borunum. Víða í samfélaginu er rætt um mikil áform um uppbyggingu iðnaðaðar í náinni framtíð, verkefni sem samtals gætu þurft á allri þeirri orku að halda sem skv. tillögunum er ætluð í nýtingarflokk (að því gefnu auðvitað að samkomulag náist um orkuverð og fleira). Samorka vekur athygli á því að af þeim orkukostum sem standa að baki þessum tæplega 1.500 MW í nýtingarflokki, skv. tillögunni, eru nú að hámarki um 700 MW á því stigi að hægt væri að gera samninga um sölu á orkunni innan 2 ára (án mjög mikilla fyrirvara um orkugetu jarðhitasvæða), miðað við hugsanlega afhendingu innan 4-6 ára. Er þá horft til virkjana við neðri hluta Þjórsár, í Hverahlíð, til stækkaðrar Reykjanesvirkjunar, Þeistareykja (m.v. 90 MW að sinni a.m.k.) og Bjarnarflags, auk e.t.v. Eldvarpa og Sveifluháls, sem þó eru mun styttra komnar á undirbúningsstigi en hinar framantöldu hér. Nokkrir stórir og hagkvæmir virkjanakostir eru þarna settir í verndarflokk, m.a. kostir sem hafa þegar verið rannsakaðir nokkuð ítarlega, svo sem Bitra og Norðlingaölduveita. Einhverjir slíkir eru jafnframt settir þarna í biðflokk, svo sem Trölladyngja, Hólmsárvirkjun og Búlandsvirkjun. Sjá nánar í umsögn Samorku.