Tillaga um formlegt samstarf stjórnvalda og einkaaðila um áfallaþol í nýrri skýrslu

Formfastur samstarfsvettangur stjórnvalda og einkaaðila hér á landi um að efla áfallaþol samfélagsins er meðal tillagna í nýrri skýrslu „Áfallaþol á grundvelli viðmiða Atlantshafsbandalagsins,“ sem utanríkisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið hafa gefið út. Skýrsluhöfundar benda á að með breyttu öryggisumhverfi og nýjum ógnum auk áhrifa náttúruhamfara sé brýnt að byggja upp vettvang af þessu tagi. Skýrslan er athyglisvert innlegg í stefnumótun og umræðu um ómissandi innviði þar sem Samorka og aðildarfyrirtæki samtakanna hafa látið til sín taka.

Samstarfsvettvangurinn á m.a. að hafa það hlutverk að tryggja sameiginlega stöðuvitund og upplýsingamiðlun. Einnig að samræma forvarnir og viðbúnað, svo sem vegna neyðarbirgða, birgðakeðja og annarrar samfélagslega mikilvægrar þjónustu og starfsemi. Samstarfið verði byggt á heildrænni nálgun þar sem hlutverk hvers og eins er skýrt og miði að undirbúningi á bæði friðar- og hættutímum. Áhersla verði lögð á að móta sameiginleg viðmið og æfa samvirkni, sérstaklega á sviðum sem varða raforku, fjarskipti, samgöngur, heilbrigði og netöryggi. Horft verði til fyrirmynda Norðmanna og Finna þar sem samstarf hins opinbera og einkageirans hefur skilað árangri í að efla áfallaþol samfélaga í báðum löndum. Gert er ráð fyrir að undirbúningur að samstarfsvettvangi stjórnvalda og einkaaðila hefjist sem fyrst í samstarfi ráðuneytanna og ríkislögreglustjóra.

Ísland er meðal aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og fyrrnefnd sjö grunnviðmið eru meginundirstaða þeirrar vinnu sem NATO hefur lagt til að hvert bandalagsríki ráðist í til að efla áfallaþol. Annað grunnviðmiðið fjallar þannig um getu ríkja til að vernda orkuinnviði sína og nauðsyn þess að tryggja aðgengi að þeim en á sama tíma er einn viðkvæmasti hluti mikilvægra innviða aðgangur að stöðugum orkugjöfum, eins og komist er að orði í skýrslunni. Efnahagur nútímans byggi á stöðugu framboði á orku þar sem hvers kyns röskun getur haft skaðlegar afleiðingar fyrir samfélagið, efnahag og þjóðaröryggi hvers ríkis.

Skýrsluhöfundar benda á að varðandi mikilvæga innviði sé „ákveðið lagalegt tómarúm til staðar.“ Á þetta hafi raunar verið bent á síðustu árum, t.d. í stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum frá árinu 2021 þar sem  lagt var til að heildstæð lagaumgjörð yrði sett um rekstur og vernd mikilvægra innviða. Í skýrslu þjóðaröryggisráðs sem kom út árið 2022, sagði m.a.: „Treysta þarf lagaumgjörð um rekstur mikilvægra innviða samfélagsins, þ.m.t. að skilgreina hvaða innviðir samfélagsins eða hlutar þeirra teljist mikilvægir með tilliti til þjóðaröryggishagsmuna. Annars vegar þarf að mæla skýrar fyrir um skyldur þeirra sem sjá um rekstur slíkra innviða og öryggiskröfur sem gera verður til þeirra. Hins vegar þarf að útfæra og skilgreina betur valdheimildir stjórnvalda gagnvart þessum aðilum við sérstakar neyðaraðstæður, þar sem virkni mikilvægra innviða er stefnt í hættu.“ Í þessu sambandi benda á að fyrir Alþingi liggur nú fyrir frumvarp dómsmálaráðherra til nýrra laga um almannvarnir þar sem t.d. er fjallað um skilgreiningu ómissandi innviða.

Evrópusambandið hefur einnig unnið að eflingu áfallaþols, m.a.  með svokallaðri CER-tilskipun (e. Critical Entities Resilience Directive) sem samþykkt var í desember 2022.  Fram kemur í þessari nýju skýrslu að til skoðunar hafi verið hjá EFTA-ríkjunum að taka gerðina upp í samninginn um evrópska efnahagssvæðið (EES) og hafi hún verið rýnd í dómsmálaráðuneytinu. Höfundar skýrslunnar segja mikilvægt að huga að því hvernig ákjósanlegast sé að innleiða CER-gerðina í íslenskan rétt og benda á að meginmarkmið hennar sé að efla áfallaþol mikilvægra rekstrareininga til að tryggja nauðsynlega þjónustu á innri markaði EES.

Skýrsluhöfundar telja að  ýmsum lagalegu álitaefnum á þessu sviði verði best fyrir komið í löggjöf um grunnöryggi ríkisins, þar sem fjallað yrði um öryggi æðstu stjórnar, samfélagslega mikilvæga starfsemi sem og skilgreiningu á mikilvægum innviðum og þá þeim kröfum sem gera megi til slíkrar starfsemi með vísan til tilskipana ESB um ómissandi innviði  og tengd viðfangsefni. Mikilvægt sé að sú löggjöf taki mið af og sé í samhengi við aðra öryggistengda löggjöf hér á landi, líkt og lög um almannavarnir, varnarmálalög, lögreglulög, fyrirhugað frumvarp til laga um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu og aðra tengda löggjöf. Þá mætti taka til skoðunar hvort önnur tengd atriði ættu jafnframt heima í slíkri löggjöf, s.s. meðferð trúnaðarupplýsinga ríkisins, eins og fjallað er um í norskri og sænskri öryggislöggjöf.

Skýrslan var unnin af stýrihópi sem var falið að kanna áfallaþol í íslensku samfélagi með hliðsjón af grunnviðmiðum Atlantshafsbandalagsins.  Stjórnvöld segja að hún marki einn áfanga í heildstæðri kortlagningu, stefnumótun og tillögum að aðgerðum til að efla áfallaþol samfélagsins. Í stýrihópnum áttu sæti fulltrúar dómsmálaráðuneytisins, utanríkisráðuneytisins, forsætisráðuneytisins og embættis ríkislögreglustjóra.

Skýrsluna í heild sinni er hægt að nálgast hér: https://www.stjornarradid.is/gogn/rit-og-skyrslur/stakt-rit/2025/12/12/Afallathol-a-grundvelli-vidmida-Atlantshafsbandalagsins-Afangaskyrsla/: Tillaga um formlegt samstarf stjórnvalda og einkaaðila um áfallaþol í nýrri skýrslu