17. júlí 2024 Þrír nýir hlaðvarpsþættir um jarðhræringarnar Í nýjustu þáttum af Lífæðum landsins er fjallað um undirbúning, viðbragð, lausnir og eftirmála jarðhræringa á Reykjanesi fyrir orku- og veitufyrirtækin og starfsfólk þeirra. Í fyrsta þættinum, Þegar verstu sviðsmyndir raungerast, ræða þeir Guðmundur Helgi Albertsson verkstjóri á rafmagnssviði á Suðurnesjum, Halldór Halldórsson öryggisstjóri Landsnets og Jóhannes Steinar Kristjánsson umsjónarmaður viðhalds hjá HS Orku um hvernig góður undirbúningur fyrir jarðhræringar skipti sköpum þegar eldgos á Reykjanesskaga hófust. Enginn hafi þó átt von á því að verstu sviðsmyndirnar myndu raungerast. Í öðrum þætti, Hamfarir fyrir fólk og fyrirtæki, ræðir Petra Lind Einarsdóttir mannauðsstjóri um mannlegu áhrif jarðhræringanna á starfsfólk HS Orku, sem þurfti að yfirgefa vinnustaðinn og mörg hver heimili sín líka, og einnig áhrifin á daglegan rekstur fyrirtækisins. Í þriðja þættinum, Upplýsingamiðlun þegar mikið liggur við, eru viðmælendurnir Birna Lárusdóttir hjá HS Orku, Sigrún Inga Ævarsdóttir hjá HS Veitum og Steinunn Þorsteinsdóttir hjá Landsneti, en þær eru allar upplýsingafulltrúar. Þær segja frá mikilvægi góðra og ábyrgra samskipta þegar fyrirtæki glíma við krísur eins og í tilfelli jarðhræringa þar sem mikið er undir. Hér eru allir þættir af Lífæðum landsins aðgengilegir.