26. mars 2025 Styrkir til nýtingar og leitar á jarðhita Loftslags- og orkusjóður auglýsir einn milljarð í styrki til nýtingar og leitar á jarðhita. Styrkir verða veittir til sveitarfélaga, orkufyrirtækja eða aðila sem vinna í umboði fyrrnefndra aðila. Styrkupphæð fyrir hvert verkefni getur numið allt að tveimur þriðju af heildarkostnaði, gegn mótframlagi umsækjanda. Áhersla skal fyrst og fremst lögð á að styrkja verkefni hafa það að markmiði að hefja nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar og fer styrkhæfi eftir reglugerð sjóðsins nr. 1566/2024 m. breytingum 20. mars 2025. Verkefnin skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði: Verkefni sem snúa að nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar. Verkefni sem styðjast við fyrri jarðhitarannsóknir Verkefni á svæðum þar sem þegar hefur fundist jarðhiti, en virkjun og lagning hitaveitukerfa hefur ekki raungerst og áhætta af jarðhitaþætti er þannig takmörkuð. Hér er vísað til beinnar nýtingar sem og nýtingar með varmadælum. Verkefni sem auka skilvirkni í rekstri fjarvarmaveitna og/eða tryggja áframhaldandi nýtingu á núverandi innviðum, eins og t.d. dreifikerfi fjarvarmaveitu. Styrkir eru hvorki veittir til borunar vinnsluhola, né virkjunar jarðhita, án undangenginna rannsókna. Við mat á umsóknum verður horft til mælikvarða þjóðhagslegrar hagkvæmni m.a. fjölda væntanlegra notenda og áhrifa á nærsvæði ásamt líklegs sparnaðar í niðurgreiðslum ríkissjóðs. Hér að neðan má lesa má nánar um styrkhæfi og gögn sem skulu fylgja umsókninni. Umsóknarfrestur er til 1. maí 2025. Umsóknir skulu sendar í gegnum þjónustugátt: gattin.os.is Allar nánari upplýsingar má finna á vef Umhverfis- og orkustofnunar.