Stuðningur á Evrópuþinginu við aukna nýtingu jarðhita

Þingmenn á Evrópuþinginu lýstu eindregnum stuðningi við stóraukna nýtingu jarðhita í umræðum í dag 16. október. Þeir sögðu að þessi endurnýjanlega orkulind væri mjög vannýtt í álfunni en ryðja þyrfti hindrunum úr vegi til að efla vinnslu á jarðhita til húshitunar og fleiri nota. Einn þingmaður benti á Ísland sem dæmi um land þar sem hægt væri að hafa fjárhagslegan hagnað af jarðhitanýtingu. Umræðan var á vegum orkunefndar Evrópuþingsins.

Þingmenn sem tóku til máls sögðu að hægt væri að finna jarðhita og nýta hann víða í Evrópu ekki síst þegar borað er dýpra þar sem hitinn er meiri. Lághitinn væri auðvitað nýtanlegur og varmadælur bar einnig á góma. Mikilvægt væri að efla rannsóknir og kortlagningu jarðhita, skýra og bæta ferli leyfisveitinga og tryggja að nærsamfélagið væri með í ráðum þegar ráðist væri í boranir og vinnslu.

Í umræðunni kom líka fram að hægt væri að auka orkuöryggi og stórminnka notkun á gasi til hitunar og kælingar innan Evrópusambandsins. ESB hefur einmitt sett sér það markmið að hætta alfarið að kaupa gas af Rússlandi fyrir lok ársins 2027. Margir þingmanna bentu á mikilvægi þess að tryggja fjármögnun til jarðhitaverkefna þar sem upphafskostnaður væri gjarnan töluverður, áhætta fyrir hendi og ákveðin óvissa um árangur. Uppskeran gæti þó að sama skapi verið mikil.

Ísland hefur áratugum saman verið í fremstu röð á heimsvísu í nýtingu jarðhita til húshitunar og raforkuframleiðslu. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er einnig að undirbúa aðgerðaáætlun um eflingu jarðvarma sem birt verður snemma á næsta ári.  Hún er hluti af víðtækari stefnu um hitun og kælingu. Samorka senti inn umsögn í samráðsgátt ESB vegna þeirra stefnumótunar og benti þar m.a. á forystuhlutverk Íslands í jarðhitanýtingu.

Evrópuþingmenn binda greinilega vonir við aðgerðaáætlunina og spurðu fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar á nefndarfundinum um helstu áherslur í henni. Þau svör fengust að samráð vegna vinnslu áætlunarinnar væri í fullum gangi og athyglin beindist einmitt að leyfisveitingum og fjármögnun auk þess sem tekið yrði mið af jarðhitaverkefnum í Evrópu sem gengið hafa vel.

Landsvirkjun og Orka náttúrunnar sendu einnig inn umsagnir í samráðsgáttina ásamt íslenskum stjórnvöldum. Vonir eru bundnar við að þær upplýsingar, dæmi um verkefni og almenn sjónarmið gagnist sérfræðingum framkvæmdastjórnarinnar sem voru líka þátttakendur í pallborðsumræðum á Our Climate Future-ráðstefnunni í Brussel um nýtingu jarðhita, þriðjudaginn 14. október s.l.

Með fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar í pallborði voru stjórnendur íslenskra orkufyrirtækja sem eru í forystu í nýtingu jarðhita – Landsvirkjunar, Orku náttúrunnar og HS Orku auk stjórnarformanns Samorku, Sólrúnar Kristjánsdóttur.

Orkumálastjóri ESB, Dan Jörgensen sagði í opnunarræðu ráðstefnunnar að Ísland vísaði veginn í nýtingu jarðhita og möguleikarnir væru miklir á þessu sviði. Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis- orku og loftslagsráðherra, sagði að Ísland væri tilbúið til samstarfs með því að deila reynslu og þekkingu á nýtingu  jarðhita. Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra bauð gesti velkomna og deildi m.a. með fundargestum frásögn af hraunhitaveitunni í heimabæ sínum Vestmannaeyjum.

Sjá hér að neðan upptöku af umræðum Evrópuþingmanna um jarðhita, 16. október. Umræðan stendur í um 50 mínútur og byrjar ca. 35 mínútur inn í upptökuna:

Committee on Industry, Research and Energy Ordinary meeting – Multimedia Centre: Stuðningur á Evrópuþinginu við aukna nýtingu jarðhita

Hér er einnig hægt að skoða umsagnir sem Samorka, Landsvirkjun, Orka náttúrunnar og íslensk stjórnvöld sendu inn í samráðsgátt ESB vegna stefnu um hitun og kælingu – þ.á.m. jarðhita:

https://ec.europa.eu/info/law/better-regulation/have-your-say/initiatives/14818-Energy-Heating-and-Cooling-Strategy/feedback_en?p_id=20290: Stuðningur á Evrópuþinginu við aukna nýtingu jarðhita