21. febrúar 2014 Sjávarþorp með frárennsliskröfur stórborga í miðri Evrópu Ísland er mjög dreifbýlt land og víðast hvar er viðtaki frárennslis mjög öflugur miðað við byggðina. Hlutfallslega er mikið vatn í frárennsli hérlendis, sem stafar af mikilli vatnsnotkun auk húshitunar með jarðhitavatni. Mikilvægt er að bæta mat á viðtökum og ákvæðum um þynningarsvæði. Ef viðtakinn (yfirleitt sjórinn) ræður við að taka við öllu lífræna efninu, til hvers þá að leggja í mikinn kostnað með tilheyrandi mengun til að fanga, flytja og urða hluta þess? Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Reynis Sævarssonar, fagstjóra vatns- og fráveitna hjá Eflu verkfræðistofu, á aðalfundi Samorku. Reynir segir jafnframt mikilvægt að tryggja að regluverkið loki ekki á grænar lausnir í skólphreinsun, sem mikið eru notaðar í nágrannalöndum okkar en nánast ekkert hérlendis. Þá sé óraunhæft að gera sömu kröfur til sjávarþorpa hérlendis og gerðar séu til borga í miðri Evrópu, t.d. hvað varðar gerla og lífræna mengun. Sjá erindi (glærur) Reynis.