10. desember 2009 Samorka mótmælir nýjum orkusköttum Stjórn Samorku mótmælir þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja nýja skatta á raforku og heitt vatn, skatta sem draga munu úr lífsgæðum landsmanna og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, auk þess að draga úr gegnsæi verðlagningar á raforku og heitu vatni. Lágt verð á raforku og á heitu vatni til kyndingar hefur lengi verið einn af helstu kostum búsetu og fyrirtækjareksturs á Íslandi, fyrir nú utan að hér er orkan grænni en víðast hvar ef ekki alls staðar annars staðar. Flest orku- og veitufyrirtæki hafa enda verið rekin með afar lága arðsemi af þeirri grunnþjónustu sem þau sjá landsmönnum fyrir (arðsemin hefur hins vegar almennt verið hærri af raforkusölu til stóriðju). Nú hyggst ríkisstjórnin raska þessari mynd með fyrstu beinu sköttunum hérlendis á raforku og heitt vatn, sem Samorka mótmælir sem fyrr segir. Heiti frumvarpsins vísar til „umhverfis- og auðlindaskatta“, en hér er hvorugt á ferðinni. Þetta er einfaldlega ný skattheimta af orkunotkun landsmanna, til að auka tekjur ríkissjóðs. Ennfremur lýsa samtökin áhyggjum af því að þessir nýju skattar verði enn hækkaðir þegar fram í sækir, stjórnvöld muni freistast til þess þegar einu sinni er búið að koma nýju sköttunum á. Skv 13. gr. frumvarpsins eru þessari nýju skattar á raforku og heitt vatn tímabundin ráðstöfun, sem falla á úr gildi í árslok 2012. Reynslan sýnir að óvarlegt er að treysta slíkum fyrirheitum. Sjá umsögn Samorku um orkuskattafrumvarp.