31. mars 2009 Samorka leggst gegn tillögum um breytingar á stjórnarskrá Fyrir Alþingi liggur frumvarp til stjórnskipunarlaga, þar sem m.a. eru lagðar til breytingar er varða ákvæði um auðlindir og umhverfismál. Í umsögn sinni um frumvarpið leggst Samorka gegn því að ákvæðið verði samþykkt nú, og leggur til að umfjöllun um þau atriði verði frestað. Í niðurlagi umsagnar Samorku segir: „Hér að framan hafa verið rakin dæmi um ófullnægjandi skilgreiningar hugtaka sem valdið geta réttaróvissu, um skörun við vinnu sem nú á sér stað á vegum stjórnvalda við útfærslu nýlegra lagasetninga, um óljós atriði er varða spurninguna um nýnæmi og fordæmi frá nágrannalöndum, um að efnisatriði frumvarpsins hafi ekki fengið þá almennu umfjöllun í samfélaginu sem æskileg hlýtur að teljast við breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins og um skort á upplýsingum um þær lagabreytingar sem samþykkt frumvarpsins kann að hafa í för með sér. Hæst ber þó sá afar skammi tími sem umsagnaraðilum um frumvarpið er ætlaður, til þess að móta afstöðu til tillagna um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Af þessum ástæðum leggur Samorka til að frestað verði að taka inn í stjórnarskrána efnisatriði 1. gr. frumvarpsins.“ Sjá umsögn Samorku hér.