19. desember 2025 Samorka, HS Orka, Landsvirkjun og Veitur styðja ákall EGEC til ESB um öfluga jarðhitaáætlun Samorka, HS Orka, Landsvirkjun og Veitur eru meðal þeirra sem skrifa undir bréf EGEC , European Geothermal Energy Council, til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að stórefla nýtingu jarðhita í Evrópu með sérstakri aðgerðaáætlun sem framkvæmdastjórnin er nú með í smíðum. Bréfið var sent 11. desember s.l. og stílað á Dan Jørgensen orkumálastjóra ESB og fleiri háttsetta embættismenn í framkvæmdastjórninni. Undir það skrifar fjöldi fyrirtækja, stofnana og samtaka um alla Evrópu. EGEC minnir á að jarðhiti hafi mikla möguleika á að styrkja orkuöryggi Evrópu, auka samkeppnishæfni álfunnar og lækka orkuverð til almennings. Aðgerðaáætlunin um nýtingu jarðhita á að vera hluti af svokallaðri „Heating and Cooling Strategy“ sem Evrópusambandið hyggst birta á fyrsta ársfjórðungi 2026. Í bréfinu er lögð áhersla á að með skýrri stefnumótun og pólitískum skuldbindingum ráðamanna sé hægt að auka fjárfestingar, efla nýsköpun og einfalda ferli leyfisveitinga til að jarðhiti verði ein af forsendum fyrir orkuskiptum í Evrópu og orkusjálfstæði álfunnar. Samorka er aðili að EGEC og tekur virkan þátt í starfi samtakanna auk þess að miðla upplýsingum af þessum vettvangi til aðildarfyrirtækja sem nýta jarðhita til orkuöflunar og vinnslu. Ráðstefnan Our Climate Future í Brussel í haust beindi einnig sjónum að forystuhlutverki Íslands í jarðhitanýtingu með þátttöku fulltrúa íslenskra fyrirtækja, Jóhanns Páls Jóhannssonar umhverfis- orku- og loftslagsráðherra og Dan Jørgensen orkumálastjóra ESB, auk margra fleiri. Sjá einnig heimasíðu EGEC: https://www.egec.org/news/ : Samorka, HS Orka, Landsvirkjun og Veitur styðja ákall EGEC til ESB um öfluga jarðhitaáætlun