3. desember 2008 Rafmagnið ódýrast á Íslandi Rafmagnsverð í höfuðborgum Norðurlanda Miðað við heimilisnot án húshitunar, 4000 kWh/ár Samorka hefur borið saman rafmagnskostnað heimila í höfuðborgum Norðurlandanna. Gerður er samanburður á kostnaði heimila sem nota 4000 kWh á ári (ekki upphitunarkostnaður). Notast er við opinberar reiknivélar í hverju landi vegna sölu á samkeppnismarkaði, en upplýsingar á heimasíðum dreififyrirtækjanna í borgunum varðandi flutnings-og dreifingarkostnað. Söluverð miðast við rafmagnsverð 14. nóvember 2008 og samning um eins árs viðskipti, gengi á ísl. krónu er einnig miðað við þann dag, en vegna bankakreppunnar og gengisbreytinga er gengi 1. júlí einnig haft til samanburðar. Niðurstöður sýna að fyrir kreppu var heimilisrafmagnið ódýrast í Helsinki og Reykjavík fylgdi fast á eftir, síðan Ósló og Stokkhólmur og dýrast var það í Kaupmannahöfn. En eftir gengisfallið á íslensku krónunni er staðan sú að Reykjavík er með ódýrasta heimilisrafmagnið, svo Helsinki, síðan Ósló, þá Stokkhólmur og dýrust er Kaupmannahöfn. Athygli vekur hve verðið í Kaupmannahöfn er mikið hærra en í hinum borgunum. Einnig er það sérstakt í Helsinki, að þar fer verðið eftir „hreinleika“ rafmagnsins, þetta lága rafmagnsverð er í framleiðslu 3,6% frá endurnýtanlegum orkugjafa, 75% frá kolaorkuveri og 21,4% frá kjarnorkuframleiðslu. Síðan hækkar verðið eftir hreinleika orkunnar og er um 15% dýrara fyrir það sem kallað er 100 % endurnýtanleg orkuframleiðsla. Það þarf ekki að taka fram að á Íslandi er raforkan unnin 100% með umhverfisvænni vatns- og jarðhitaorku. Í Noregi er rafmagnið einnig framleitt með vatnsaflsvirkjunum, en nokkuð er þó flutt inn frá öðrum löndum og getur því verið framleidd á ýmsan hátt. Í Svíþjóð er mikil kjarnorkuframleiðsla, ásamt vatnsafli og í Danmörku eru kolaorkuver, vindorkuver og ýmsar aðra framleiðsluaðferðir, ásamt innflutningi á rafmagni frá nágrannalöndunum. Reiknitafla: Smella hér Línurit: Smella hér