27. mars 2018 Rafbílaeigendur komast hringinn Hópur við opnun hlöðunnar. Starfsfólk ON, Fosshótels, Skútustaðahrepps og Friðrik rafbíleigandi. Hraðhleðslustöð fyrir rafbíla hefur verið tekin í notkun við Mývatn. Þessi nýja viðbót ON í hraðhleðslustöðvum markar tímamót, því nú geta rafbílaeigendur ekið allan hringveginn og treyst því að hvergi séu meira en 100 kílómetrar á milli hleðslustöðva. Hlaðan stendur við Fosshótel í Reykjahlíð og auk hraðhleðslunnar er þar líka hefðbundin hleðsla (AC). Á milli Mývatns og Egilsstaða eru 165 kílómetrar og þar á milli er hlaða ON á Skjöldólfsstöðum í Jökuldal. Hún er nú búin AC hleðslu sem verður uppfærð fyrir sumarið. Friðrik Jakobsson sem starfar við ferðaþjónustu í Mývatnssveit fékk sér fyrstu hleðsluna að viðstöddum Þorsteini Gunnarssyni sveitarstjóra og Bjarna Má Júlíussyni, framkvæmdastjóra ON. Vorið 2017 – fyrir innan við ári – opnaði ON leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur og hefur ekki látið deigan síga síðan. Hlöður ON eru nú 31 talsins og á næstu vikum og mánuðum bætast um 20 við, á höfuðborgarsvæðinu og í öllum öðrum landshlutum. „Við hjá ON erum hvergi nærri hætt okkar uppbyggingu á innviðum fyrir orkuskipti í samgöngum. Nú fögnum við mikilvægum áfanga.“ sagði Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON við þetta tilefni. „Nýlegar kannanir sýna að Íslendingar eru tilbúnari en flestar aðrar þjóðir til að skipta yfir í rafbíl og til í að gera það fyrr. Við munum halda áfram að gera okkar besta til að auðvelda þeim slíka ákvörðun.“