Orkunýting og hagsmunir almennings

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Orkunýting og hagsmunir almennings

Umhverfisráðherra gagnrýndi á dögunum skrif undirritaðs um ýmis lagafrumvörp, í grein hér í Fréttablaðinu. Ekki er ætlunin að fjalla frekar um umrædd frumvörp hér. Hins vegar talar ráðherrann í nafni hagsmuna almennings og nefnir m.a.s. til sögunnar hugtakið sérhagsmuni, að því er virðist yfir málflutning Samorku fyrir hönd orkufyrirtækjanna. Vandséð er hvernig hagsmunir orkufyrirtækja landsmanna geta talist til sérhagsmuna, en það hugtak er jú gjarnan notað í samhengi þröngra hagsmuna afmarkaðs hóps og þá jafnvel á kostnað fjöldans eða til skerðingar á réttindum hans. En hugum aðeins að orkunýtingu og hagsmunum almennings, fer þetta ekki saman?

Leyfisveitingar stjórnvalda
Í fyrsta lagi má nálgast spurninguna út frá leyfisveitingaferlinu. Orkufyrirtæki virkja engar auðlindir án ýmissa leyfisveitinga frá hvoru tveggja ráðherra og viðkomandi sveitarstjórnum. Lýðræðislega kjörnir fulltrúar – fulltrúar almennings – veita þannig virkjunarleyfi, framkvæmdaleyfi, breyta skipulagi o.s.frv. Varla fara þeir gegn hagsmunum almennings.

Fyrirtæki í almannaeigu
Í öðru lagi eru orkufyrirtækin flest í eigu ríkis eða sveitarfélaga og stjórnir þeirra því skipaðar af lýðræðislega kjörnum fulltrúum almennings, í ríkisstjórn eða viðkomandi sveitarstjórnum. Varla fara þessar stjórnir gegn hagsmunum almennings.

Vilji heimamanna
Í þriðja lagi er iðulega mjög mikill stuðningur meðal almennings og sveitarstjórna á tilteknum svæðum við nýjar virkjanir, sem oft eru um leið forsenda mikillar atvinnuuppbyggingar á umræddum svæðum. Um þetta eru þekkt dæmi í dag á fleiri en einum stað á landinu. Andstaða við framkvæmdirnar á samt auðvitað fullan rétt á sér, en slík barátta verður ekki sjálfkrafa flokkuð sem hagsmunir almennings.

Efnahagsáhrifin
Loks eru það svo efnahagsáhrifin. Á dögunum talaði forsætisráðherra um sex til sjö þúsund ársverk á næstu árum við uppbyggingu virkjana og tengdra fjárfestinga í iðnaði. Landsvirkjun kynnti nýlega framtíðarsýn þar sem arð- og skattgreiðslur fyrirtækisins til ríkissjóðs munu innan fimmtán ára nema 4-8% af landsframleiðslu. Allar slíkar tölur eru auðvitað háðar tilteknum forsendum en engum dylst að frekari uppbygging virkjana og tengds iðnaðar getur skilað gríðarlegum efnahagsávinningi fyrir íslenskt samfélag. Einhverjir munu þó eflaust harma einhverjar umræddra framkvæmda út frá sjónarhorni náttúruverndar, þótt útfærsla virkjana taki ávalt mið af slíkum sjónarmiðum. En því verður varla haldið fram að slík uppbygging, að fengnum öllum nauðsynlegum leyfum frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum almennings, gangi gegn hagsmunum almennings.

Nýting orkuauðlindanna og hagsmunir almennings fara þannig afar vel saman.