15. september 2025 Orka og innviðir í nýrri skýrslu um varnir og öryggi Vernd innviða, áfallaþol og tryggur aðgangur að orku er meðal áhersluatriða í skýrslu samráðshóps þingmanna um inntak og áherslur stefnu Íslands í varnar- og öryggismálum sem kynnt var 12. september. Skýrsluhöfundar benda m.a. á mikilvægi grunnviðmiða Atlantshafsbandalagsins um áfallaþol og borgaralegan viðbúnað. Þingmennirnir fjalla um ástand heimsmála, m.a. stríð Rússlands á hendur Úkraínu og komast að þeirri niðurstöðu að „öryggisógnin sé raunveruleg og aðkallandi.“ Í skýrslunni eru skilgreindar helstu öryggisáskoranir Íslands til lengri tíma með áherslu á ytri ógnir af manna völdum. Stefna í varnar- og öryggismálum skal byggjast á stefnu um þjóðaröryggi, sem m.a. á að tryggja vernd mikilvægra innviða samfélagsins. Skýrsluhöfundar leggja fram 14 lykiláherslur, þar á meðal að auka fjárfestingar í innviðum sem nýst geta bæði í varnartengdum og borgaralegum verkefnum og styðja við varnir Íslands, eftirlit og aðgerðir. Þá þurfi að efla áfallaþol íslensks samfélags, almannavarnir og vernd borgara gagnvart hernaðarógnum. Bent er á að nýjar varnaráætlanir Atlantshafsbandalagsins feli í sér auknar kröfur á hendur bandalagsríkjum um bætt áfallaþol, trausta innviði og eigin áætlanir sem styðji áætlanir bandalagsins. Áfallaþol orkuaðgengis er t.d. meðal fyrrnefndra sjö grunnviðmiða Atlantshafsbandalagins um áfallaþol aðildarríkjanna, þ.á.m. Íslands. Vinna og áætlanagerð um aukið áfallaþol á grundvelli þessa grunnviðmiða þarf m.a. að ná til orkuinnviða að mati þingmannanna. Borgaralegt áfallaþol sé í raun fyrsta varnarlína samfélagsins og tryggja þurfi aðgang að orku, fjarskiptum og samgöngum á tímum spennuástands eða átaka eins komist er að orði í skýrslunni. Þingmennirnir benda líka á að varnarmannvirki eins og ratsjár, innviðir á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, hafnir og flugvellir séu hernaðarlega mikilvæg á spennutímum og í aðdraganda átaka eða eftir að þau hefjast. Það eigi þó einnig við um aðra mikilvæga innviði s.s. á sviði orkumála og fjarskipta. Geta til að verjast árásum á þessi varnarmannvirki og innviði kunni að hafa úrslitaáhrif á hvort slíkar árásir verði yfirleitt gerðar. Skýrsluhöfundar segja hins vegar að beinar varnir Íslands á þessu sviði séu mjög takmarkaðar. Þá þurfi m.a. að styrkja og samþætta fjar- og rauneftirlit með mikilvægum innviðum. Þingmennirnir í samráðshópnum velta því líka upp hvort ástæða sé til að setja sérstaka öryggislöggjöf sem alla jafna tekur m.a. til verndar mikilvægra innviða. Í framhaldi af skýrslunni leggur samráðshópurinn til að utanríkisráðherra leggi fram stefnu í varnar- og öryggismálum á Alþingi og upplýsi þingið reglulega um framkvæmd hennar. Skýrsluna í heild sinni er hægt að nálgast hér: https://www.stjornarradid.is/gogn/rit-og-skyrslur/stakt-rit/2025/09/12/Inntak-og-aherslur-stefnu-i-varnar-og-oryggismalum