Öflugt jarðhitaþing í Zürich

Fulltrúi Samorku tók þátt í Evrópska Jarðhitaþinginu, European Geothermal Congress, sem haldið var Zürich í Sviss frá 6.- 10. október. Þátttakendur voru hátt í 1200 talsins frá yfir 40 löndum. Á þingið mætti öflugur hópur frá Íslandi, yfir 20 fulltrúar orku-, tækni- og ráðgjafarfyrirtækja, háskóla og fleiri til að segja frá því sem við höfum fram að færa og til að læra af öðrum þátttakendum.

Þrír af fjölmörgum fulltrúum frá Íslandi á ráðstefnunni.

„Ísland hefur áratugum saman verið í fremstu röð á heimsvísu í nýtingu jarðhita til húshitunar og raforkuframleiðslu og lét svo sannarlega til sín taka hér,“ sagði Sveinn Helgason, verkefnastjóri erlends samstarfs hjá Samorku, sem sat ráðstefnuna. „Það er mikilvægt til að efla enn frekar nýtingu þessarar endurnýjanlegu orkulindar á alþjóðavísu og metnaðurinn er fyrir hendi víða um heim. Þannig er Evrópusambandið t.d. að undirbúa sérstaka aðgerðaáætlun um eflingu jarðvarma sem birt verður snemma á næsta ári. Samorka senti inn umsögn í samráðsgátt ESB vegna þeirra stefnumótunar og benti þar m.a. á forystuhlutverk Íslands á þessu sviði.“

European Geothermal Energy Council – Evrópsku jarðhitasamtökin – héldu ráðstefnuna og á  aðalfundi samtakanna var tilkynnt um nýja stjórn þar sem Miklos Antics er forseti.  Það var athyglisvert að svissnesku gestgjafarnir ætla sér stóra hluti í jarðhita og í vettvangsferð síðasta dag þingsins kom glögglega í ljós hversu rannsóknir og vísindi gegna þar mikilvægu hlutverki. Næsta Evrópska jarðhitaþingið verður haldið í Búdapest í Ungverjalandi árið 2028.

Ný stjórn EGEC – Evrópsku jarðhitasamtakanna.

Sveinn tók nokkra íslenska þátttakendur tali á ráðstefnunni og má hlusta á það í spilaranum hér fyrir neðan.