9. febrúar 2018 Nýr raforkusamningur Landsvirkjunar og Advania Data Centers Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri Advania Data Centers, og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, skrifuðu undir. Landsvirkjun og hátæknifyrirtækið Advania Data Centers hafa undirritað rafmagnssamning um afhendingu á 30 MW til gagnaversins á Fitjum í Reykjanesbæ. Unnið er að mikilli stækkun gagnaversins og er ráðgert að umsvif Advania Data Centers þrefaldist. Starfsmenn gagnaveranna verða um 50 talsins og áætluð velta á árinu er um sex milljarðar króna. Samningurinn gerir Advania Data Centers kleift að mæta sívaxandi eftirspurn eftir ofurtölvuafli og sérfræðiþjónustu í blockchain-tækni. Endurnýjanleg orka og íslenskt veðurfar eiga þátt í að skapa hagstæðar aðstæður í gagnaverinu á Fitjum. Meðal þess sem laðar erlenda viðskiptavini til Advania Data Centers er að gagnaverið nýtir kalda loftið til að kæla tækjabúnað sem hitnar gríðarlega við notkun. Loftkælingin kemur í veg fyrir að eyða þurfi mikilli orku í að kæla búnaðinn og því er hagkvæmara að knýja hann á Íslandi en víða annars staðar í heiminum. Orkan sem samningurinn nær til verður afhent úr núverandi aflstöðvakerfi Landsvirkjunar, sem rekur 14 vatnsaflsstöðvar, þrjár jarðvarmastöðvar og tvær vindmyllur. Þá stendur yfir stækkun Búrfellsvirkjunar sem áætlað er að gangsetja í sumar.