8. desember 2025 Ný handbók um öryggi og öryggismenningu Samorka, í samstarfi við Öryggisráð Samorku, hefur nú gefið út íslenska útgáfu af HOP-handbók (Human & Organizational Performance) fyrir aðildarfyrirtæki samtakanna og öll þau sem vinna með öryggi og rekstur innviða. Slys eiga sér sjaldnast eina orsök heldur eru samspil af mörgum ólíkum þáttum, þar á meðal hinum mannlega. HOP er ný nálgun á öryggi og öryggismenningu þar sem áhersla er lögð á að rýna aðstæður þar sem erfið vinna er unnin, að læra af því hvernig vinnan fer raunverulega fram og reyna þannig að fyrirbyggja alvarleg slys. Handbókin er öflugt verkfæri fyrir stjórnendur, millistjórnendur og þau sem vinna sjálf verkefnin á vinnustað. Það er von Samorku að bókin nýtist sem handbók bæði fyrir aðildarfyrirtæki Samorku en einnig í öðrum iðnaði og rekstri. Öryggi þeirra sem vinna fyrir og með orku- og veitufyrirtækjum skiptir okkur líka máli. Með þessari handbók leggjum við okkar af mörkum til að efla öryggismenningu á Íslandi. Sækja HOP handbókina