29. maí 2020 Landsvirkjun undirbýr vetnisframleiðslu Landsvirkjun undirbýr nú hugsanlega vetnisvinnslu og til að byrja með telur fyrirtækið hentugt að hefja slíka vinnslu við Ljósafossstöð. Landsvirkjun hefur kynnt þann möguleika fyrir sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps. Við Ljósafoss yrði framleitt svokallað grænt eða hreint vetni, sem fæst með rafgreiningu vatns með endurnýjanlegum orkugjöfum. Slík umhverfisvæn framleiðsla á vetni er enn fátíð í heiminum, en víða er vetni unnið úr jarðgasi og markar umtalsverð kolefnisspor. Starfsemin við Ljósafoss myndi rúmast í tæplega 700 fermetra byggingu, þar sem hægt væri að auka við framleiðslu eftir því sem eftirspurn yrði meiri, en sem dæmi gæti rafgreinir í fullri stærð notað allt að 10 MW af raforku til vetnisframleiðslu. Slík framleiðsla myndi nægja til að knýja bílaflota sem nemur a.m.k. öllum vögnum Strætó. Auður Nanna Baldvinsdóttir, viðskiptaþróunarstjóri hjá Landsvirkjun, segir að vetni, rafhlöður og metan hafi mismunandi eiginleika, en þarfir notenda skipti mestu máli í vali á orkugjafa. „Vetnið telst auðvelt í vinnslu miðað við margt annað eldsneyti og starfsfólk Landsvirkjunar hefur þegar þá grunnþekkingu sem þarf til framleiðslunnar, þótt frekari þjálfunar sé þörf,“ segir hún. Það sé mikill á vetnisvinnslu að auðvelt er að stýra framleiðslunni. „Rafgreinar þola vel að kveikt sé og slökkt á vinnslunni í samræmi við eftirspurn, svo framleiðandinn getur hagað henni eftir þörfum markaðarins hverju sinni.“ 4% bílaflotans ábyrg fyrir 15% útblásturs Þegar öflug vetnisvinnsla er komin í gang felst í henni hvati fyrir ýmsa anga atvinnulífsins að huga að vistvænni rekstri. Þannig má t.d. benda á, að vöruflutningabílar eru eingöngu um 4% íslenska bílaflotans, en þeir bera hins vegar ábyrgð á 15% alls útblásturs, sem frá bílum stafar. Fjölmargar þjóðir hafa nú sett sér vetnisstefnu. Evrópusambandið og Japan hafa gefið út vetnisvegvísi og áforma stórtæka notkun vetnis í sínum orkukerfum. Vetnið má nýta í rafmagnsframleiðslu, iðnaðarferla, hitaveitu og sem orkugjafa í samgöngum. Ef vetnið er framleitt með endurnýjanlegri orku er það nánast kolefnislaust. Nánari upplýsingar má finna á vef Landsvirkjunar.