12. október 2017 Landsnet framtak ársins á Umhverfisdegi atvinnulífsins Sigrún Björk, stjórnarformaður Landsnets, tekur við verðlaununum frá Rögnu Söru Jónsdóttur formanni dómnefndar. Landsnet hreppti í dag verðlaun fyrir Framtak ársins á Umhverfisdegi atvinnulífsins, sem haldinn var hátíðlegur á Hilton Reykjavík Nordica. Fyrirtækið hlaut verðlaunin fyrir Snjallnet á Austurlandi og veitti Sigrún Björk Jakobsdóttir, stjórnarformaður fyrirtækisins verðlaunum móttöku. Verkefni Landsnets felur í sér þróun á sjálfvirkri stýringu á raforkuafhendingu fyrir sex fiskimjölsverksmiðjur á Austurlandi ásamt álagsstýringum í álverum, kallað Snjallnet. Þróuð var ný aðferðafræði sem hægt er að beita innan staðbundinna raforkukerfa sem glíma við flutningstakmarkanir. Markmiðið var að geta flutt meiri orku í gegnum flöskuhálsa án þess að minnka rekstaröryggi svæðanna. Með þessum hætti er hægt að nýta betur núverandi raforkukerfi og gefa verksmiðjum færi á að skipta hráolíu út fyrir rafmagn sem framleitt er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Með innleiðingu Snjallnetsins á Austurlandi náðist verulegur árangur. Þar má nefnda aukna flutningsgetu upp á 350 GWh á ári en það er á við árlega heimilisnotkun um 85 þúsund heimila eða 170 þúsund rafbíla. Einnig er sparnaður neikvæðra umhverfisáhrifa upp á 90.000 tonn af kolefnislosun árlega sem er ígildi losunar frá rúmlega 50.000 bifreiðum. Ragna Sara Jónsdóttir formaður dómnefndar afhendir Magneu Þóreyju Hjálmarsdóttur frkvstj. Icelandair hótela Umhverfisverðlaun atvinnulífsins Icelandair Hotels var valið Umhverfisfyrirtæki ársins. Í rökstuðningi dómnefndar kom fram að Icelandair Hotels hefur innleitt umhverfisstjórnkerfi, sett sér metnaðarfull markmið á sviði umhverfismála og gert sjálfbærni að markmiði í rekstrinum. Það hafi náð verulegum árangri í að auka nýtingu auðlinda og draga úr sóun. Ragna Sara Jónsdóttir, formaður dómnefndar verðlaunanna gerði grein fyrir valinu sem hún sagði hafa verið erfitt þar sem mörg frambærileg fyrirtæki komu til greina. Í dómnefnd auk hennar sátu Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík. Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.