Lærdómar ársins og leiðin fram á við í orkumálum

Nú þegar árið fer að líða að lokum er rétt að líta yfir farinn veg í orku- og veitugeiranum og draga lærdóm af áskorunum og árangri ársins. Það er óumdeilt að árið hefur verið krefjandi en um leið frjósamt þegar litið er til framfara og tækifæra. 

Tíð eldsumbrot á Reykjanesskaga héldu áfram að reyna á viðbragð, fagmennsku og útsjónarsemi allra aðila sem komu að orku- og veiturekstri þar á beinan og óbeinan hátt. Á svæðinu eru mikilvægir innviðir fyrir þjóðina alla sem nauðsynlegt er að starfi óraskað. Aðdáunarvert hefur verið að fylgjast með viðbrögðum allra sem að málinu koma og þó að gosin hafi á endanum orðið sjö og ferlar að miklu leyti orðnir þrautreyndir eru engin tvö gos eins og hverjum viðburði verður að taka alvarlega.   

Orka hreyfir við stjórnmálum 

Á síðari hluta ársins fóru augu samfélagsins að beinast í auknum mæli að orkumarkaðnum. Lengi hefur gengið illa að greiða fyrir frekari orkuframleiðslu á Alþingi og var það m.a. farið að valda streitu innan stjórnarsambandsins. Þegar Bjarni Benediktsson tilkynnti á endanum slit ríkisstjórnarinnar þann 13. október vísaði hann til þess að orkumál hefðu verið á meðal þeirra mála sem ekki hefði nást sátt um. Við var búist að í kosningabaráttunni myndi umræða um orkumál skapa stóran sess en raunin varð önnur. Ljóst varð að þjóðin er að mestu leyti sammála um stöðuna í orkumálum. Að auka þurfi orkuframleiðslu er ekki umdeilt á meðal almennings og engir stórir pólitískir sigrar voru þangað að sækja. Sást vilji þjóðarinnar skýrast í því að flokkar sem settu aukna orkuframleiðslu ofarlega á sínar stefnuskrár enduðu á þingi á meðan þau sem létu málefnið mæta afgangi gerðu það ekki. 

Greiða þarf fyrir nýrri orkuöflun 

Orkuframleiðsla hefur reyndar alls ekki fengið þann sess sem hún ætti að hafa innan Alþingis og hefur það orðið til þess að orkuframboð hefur ekki aukist í samræmi við vöxt hagkerfisins og fólksfjölgun. Ein afleiðing þess er sífellt meiri uggur á meðal almennings varðandi orkuöryggi sitt og orkuverð. Krafan um skammtímalausnir eins og markaðsinngrip eru farnar að heyrast en það þarf bara að líta til reynslu Evrópuríkjanna í orkukrísunni í fyrir nokkrum árum til að læra að þó þannig inngrip geti virst freistandi í dag þá fylgir þeim óhagræði sem getur dregið langan dilk á eftir sér. Aðgerðir í evrópsku orkukrísunni voru til skamms tíma og verð á evrópskum mörkuðum kost aftur í jafnvægi. 

Áhersla á orku hjá nýrri ríkisstjórn 

Ný ríkisstjórn hefur verið mynduð og í stefnuyfirlýsingu hennar birtist skilningur á mikilvægi nýrrar orkuöflunar. Mikil fjárfesting í orkuframleiðslu og flutnings og dreifikerfum er framundan og skýr sýn á verkefnið þarf að vera til staðar svo að þessi fjárfesting fari fram á sem hagkvæmastan hátt.  

Á síðustu vikum ársins kynnti starfshópur um breytingar á rammaáætlun niðurstöður vinnu sinnar. Eftir háleit markmið fráfarandi ríkisstjórnar um endurskoðun rammaáætlunar má segja að afraksturinn hafi ekki staðist væntingar. Framlagðar breytingatillögur ganga skammt.  

Í beinu framhaldi af þessari kynningu skilaði verkefnastjórn rammaáætlunar af sér mati á 10 vindorkukostum þar sem enginn þeirra fékk framgengi í virkjunarkost. Rökstuðningur fyrir niðurstöðunum var allskyns og innra samræmi í aðferðarfræði faghópa ekki alltaf. Af miklu er að taka í orkumálum á Íslandi og ef áðurnefnd markmið eiga að nást og þá duga þessi vinnubrögð skammt.  

Aukið gagnsæi á raforkumarkaði 

Mikilvægt er þó að draga einnig fram það jákvæða sem gerðist á árinu og má þar nefna tilkomu skipulegra viðskiptavettvanga. Með þeim varð engin eðlisbreyting, enda hafa viðskipti verið frjáls á milli aðila síðan í upphafi aldarinnar. Hins vegar urðu viðskipti með raforku tíðari og gagnsærri á slíkum vettvöngum. Fram komu mikilvægar upplýsingar um raforkumarkaðinn, svo sem framboð, eftirspurn og verð sem eru nú aðgengilegar öllum. Enda hefur umræða um orkumál sprungið út í samræmi við það. Frekari löggjöf um viðskipti á raforkumörkuðum mun stuðla að auknu traustu til þessara viðskipta og auka gagnsæi enn frekar.   

Bjartari framtíð 

Framtíðin er björt í orku- og veitugeiranum. Nýlegir fundir á heitu vatni, bæði á höfuðborgarsvæðinu og Ísafirði eru sérlega góðar fréttir fyrir bæjarfélögin þar og mun vera innspýting í vöxt viðskipta og lífsgæða. Einnig voru veitt virkjunarleyfi fyrir tvær tiltölulega stórar virkjanir á árinu, Hvammsvirkjun og Búrfellslund, samtals um 215MW. Búrfellslundur verður fyrsta stóra vindorkuvirkjunin sem mun rísa en vindorka mun vafalaust spila stórt hlutverk í íslensku orkuskiptunum.  

Árið í orkumálum hefur umfram allt verið lærdómsríkt. Á nýju ári tekur við ný ríkisstjórn og óska henni allir velfarnaðar. Vert er að minna nýja leiðtoga á að það þarf metnaðarfullar aðgerðir, bæði  í fjárfestingu og stefnumótun til að Ísland viðhaldi stöðu sinni sem leiðandi afl í grænni orku og nái að klára orkuskiptin á sem hagkvæmastan máta. Við þurfum öll að leggja okkar af mörkum til að tryggja að græn orka verði áfram burðarás lífsgæða og hagvaxtar í landinu. Án hennar verður verðmætasköpun á Íslandi ekki aukin. 

Samorka vill þakkar öllum fyrir árið sem er nú að líða og óskum ykkur velfarnaðar á því næsta. 

Grein eftir Finn Beck, framkvæmdastjóra Samoku. Greinin birtist fyrst á Innherja 27. desember 2024.