Innlend orka sem vörn gegn ytri ógnum

Í fjármálaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2026-2030 er gert ráð fyrir hækkun útgjaldaramma til almannaöryggis. Í ljósi þróunar í alþjóðamálum hafa ríki Evrópu jafnframt kynnt breyttar áherslur og aukningu í fjárveitingum til varnarmála, til uppbyggingar og öryggis mikilvægra innviða. Viðnámsþróttur gegn hvers konar vá eða raunum er sem rauður þráður í stefnumótun Evrópusambandsins og annarra Evrópuríkja. Íslensk stjórnvöld vinna nú að greiningu á viðnámsþoli íslensks samfélags og gert ráð fyrir að lagabreytinga verði þörf.

Varnaráhrif gegn ytri ógnum

Eitt meginmarkmið Evrópu er að gera álfuna sjálfstæða um orkuöflun. Innrás Rússlands í Úkraínu sýndi glöggt hversu útsett samfélög sem reiða sig á innflutta orku eru fyrir alvarlegum röskunum á orkuflutningi og verðhækkunum. Ísland er í dag að mestu knúið og kynt með orku sem aflað er innanlands. Alls er 85% allrar orkunotkunar fengin með þessum hætti. Aðeins um 15% orkunnar eru hins vegar fengin með innflutningi á jarðefnaeldsneyti. Íslenska hagkerfið er því ekki jafn viðkvæmt fyrir alþjóðlegri þróun á eldsneytismörkuðum og mörg önnur ríki.

Tækifærin í frekari rafvæðingu

Ljóst er að ákveðnir hlutar atvinnulífsins s.s. flug og stærri skip verða ekki knúnir með grænni orku á allra næstu árum. En þó eru fjölmörg tækifæri ónýtt eða skammt undan. Má þar nefna frekari rafvæðingu í samgöngum á landi og nýtingu grænnar orku fyrir þungflutninga, á vinnuvélar og minni báta. Með markvissum skrefum er því unnt að minnka enn frekar útsetningu íslensk hagkerfis gagnvart ytri ógnum og neikvæðri þróun í alþjóðakerfinu. Þá eru ótalin hin jákvæðu áhrif sem fást fram í formi minni losunar koltvísýrings og betri nýtingu orku en fengist getur með brennslu jarðefnaeldsneytis.

Mikilvæg uppbygging flutnings- og hleðsluinnviða

Björninn er ekki unninn með orkuöflun einvörðungu. Byggja þarf upp, endurnýja og nútímavæða flutnings- og dreifikerfi raforku svo þau geti borið meiri orkuflutning til mæta þörfum rafvædds samfélags. Nýta þarf nýjustu tækni til að dreifa áhættu og tryggja áfallaþol flutnings- og dreifikerfa og gera þeim kleift að ráðast í umfangsmiklar fjárfestingar. Til þess þarf t.a.m. skilvirka stjórnsýslu sem hamlar ekki uppbyggingu.

Ómissandi innviðir

Þegar horft er til viðnámsþróttar samfélagsins má ekki gleyma öðrum grundvallarinnviðum. Alla daga reiðir samfélagið sig á órofa þjónustu veitufyrirtækja sem reka hitaveitur, vatnsveitur og fráveitur. Þó mörg taki starfsemi þeirra sem gefnum hlut standa þau frammi fyrir stórum áskorunum. Breytingar á loftslagi, ásókn í byggingarland nærri innviðum og íþyngjandi skipulags- og leyfisveitingarferli eru einungis hluti af áskorunum sem veitufyrirtækin standa frammi fyrir. Standa þarf vörð um þessa mikilvægu innviði og tryggja öryggi þeirra til langs tíma.

Framtíðaröryggi orkukerfisins og innviða Íslands

Nú er tími til að nýta þau tækifæri sem eru til staðar og hugsa til framtíðar. Með skynsamlegum fjárfestingum og framsýnni stefnu í uppbyggingu innviða er hægt að skapa öruggara, sjálfstæðara og umhverfisvænna samfélag sem stendur traustum fótum, minna háð ytri þrýstingi og sveiflum í orkumálum heimsins. Að tryggja öryggi innviða er ekki aðeins praktískt skref – það er grundvallaratriði fyrir framtíð landsins og velsæld komandi kynslóða.

Grein eftir Finn Beck, framkvæmdastjóra Samorku. Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu miðvikudagur 9. apríl 2025.