Iðnaðarráðherra: Græna orkan verði „aðaltrompið í ferðamannaiðnaðinum“

Í ræðu sinni á aðalfundi Samorku þakkaði Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra Samorku fyrir gott samstarf frá því hann tók við starfi iðnaðar- og orkuráðherra. Össur viðhafði stór orð um mikilvægi orku- og veitufyrirtækja í íslenskri velferð:  „Orkugeirinn á miklu meiri þátt í velferð og hagsæld íslensks samfélags, heldur en fólk gerir sér almennt grein fyrir, og stundum finnst mér jafnvel að þið sjálf skynjið ekki til fulls, hversu gríðarlega mikilvægt framlag ykkar, og ykkar fyrirtækja, hefur verið til okkar samfélags. Staðreyndin er hins vegar sú, að það er vegna þeirra, og vegna ykkar, að íslenskt samfélag er einstakt – og auðugt. Það er fyrst og fremst tvennt sem hefur á síðustu hundrað árum brotið okkur leiðina frá fátækt til bjargálna: nýting auðlinda í hafinu og nýting auðlinda í fallvötnum og jörðu.“

Þá fjallaði Össur um 100 ára afmæli hitaveitu sem fagnað er á þessu ári. Hann sagði Íslendinga svo vana þessum einstöku gæðum að við skynjuðum ekki hversu einstakt og merkilegt fyrirbæri hin íslenska hitaveita væri – á heimsvísu. Óskaði hann fundinum innilega til hamingju og færði árnaðaróskir frá ríkisstjórn Íslands.

Umhverfi orkumála
Össur fjallaði um eftirspurn eftir skýrari mörkum samkeppnis- og sérleyfisþátta á sviði orkumála, og um nauðsyn á forgangi borgaranna að nauðþurftum eins og vatni og orku. Nefndi hann þrjú meginatriði sem hann hefði satt fram í þessum efnum:

– Í fyrsta lagi, að opinberum aðilum, ríki og sveitarfélögum, verði ekki heimilt að framselja með varanlegum hætti orkuauðlindir sínar.
Þau geta hins vegar leigt þau fyrirtækjum sem framleiða og selja orku til langs tíma.
– Í öðru lagi að greina að samkeppnis- og sérleyfisþættina í rekstri orkufyrirtækja.
– Í þriðja lagi að tryggja að fyrirtæki sem stunda sérleyfisstarfsemi verði að meirihluta í opinberri eigu.

Össur sagðist ekki hafa orðið var við beina andstöðu við þessi sjónarmið hvað eignarhaldið varðaði.

Útrásin, vatnsaflið, „græn orka sem aðaltrompið í ferðamannaiðnaðinum“…
Þá fjallaði hann um útrás íslenskrar orkuþekkingar, eðlileg veltumörk varðandi fjárhagslegan aðskilnað milli samkeppnis- og sérleyfisþátta, þörf á auknum hvötum til hagræðingar í raforkulögum, mikilvægi aukinna fjárveitinga í styrki til nýrra hitaveitna, einföldun regluumhverfis, drög að frumvarpi um hitaveitur, breytt viðhorf til vatnsaflsvirkjana á alþjóðavettvangi, útbreiðslu „fagnaðarerindisins um jarðhitann“ og margt fleira. Þá spáði Össur því að græna orkan ætti eftir að reynast „okkar aðaltromp í ferðamannaiðnaðinum“ og sagði Bláa lónið þar aðeins forsmekkinn.

Sjá ræðu Össurar á vef iðnaðarráðuneytisins.