28. janúar 2010 Hreint vatn og hrein orka: Ísland stendur sig best í umhverfismálum Ísland er í fyrsta sæti 163 ríkja á lista þar sem löndum er raðað eftir frammistöðu í umhverfismálum, en listinn er unninn af sérfræðingum við Columbia- og Yale- háskólana í Bandaríkjunum. Alls er byggt á upplýsingum um 25 viðmið og er Ísland með hæstu mögulegu einkunn í ellefu tilvikum, sem snúa einkum að miklum gæðum og framboði neysluvatns, lítilli losun gróðurhúsalofttegunda, lítilli loftmengun og lítilli (nánast engri) losun kolefnis vegna raforkuframleiðslu. Þá þykja Íslendingar standa sig vel á sviði skógræktar. Með öðrum orðum, þá eru það einkum hreina vatnið og hreina orkan sem eru lykillinn að þessari sterku stöðu Íslands. Skýrsluna má skoða hér á vefsíðu Yale-háskóla.