Hrein orka, þekkingariðnaður, sparnaður í olíuinnflutningi…

Orkumál færast nú óðum ofar á dagskrám ríkisstjórna og ríkjabandalaga um heim allan, ekki síst í samhengi við baráttuna gegn hlýnun lofthjúpsins. Vandinn sem þar er við að etja er fyrst og fremst til kominn vegna brennslu á jarðefnaeldsneyti – kolum, olíu og gasi – og þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem slíkri brennslu fylgir. Þá eru sums staðar uppi áhyggjur af ótryggu framboði á mikilvægum orkugjöfum, til dæmis gasi.

Hrein orka á Íslandi
Á Íslandi er hlutfall endurnýjanlegra innlendra orkugjafa í orkunotkun 72%, en um 6-7% innan Evrópusambandsins og um 13% á heimsvísu. Vegna losunar gróðurhúsalofttegunda við brennslu á jarðefnaeldsneyti er nú á alþjóðavettvangi lögð mikil áhersla á aukinn hlut endurnýjanlega orkugjafa, sem losa engar eða hverfandi litlar gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið. Þarna er Ísland í einstakri stöðu á heimsvísu.

Þekkingariðnaður – fyrsti hátækniiðnaðurinn – útrás
Fleiri hundruð háskóla- og tæknimenntaðra sérfræðinga starfa hjá íslenskum orkufyrirtækjum og annar eins fjöldi starfar fyrir þau að ýmsum verkefnum. Þekking Íslendinga á nýtingu endurnýjanlegra orkulinda er nú virkjuð í verkefnum um heim allan. Nýlega hafa meðal annars íslensk fjármálafyrirtæki blásið til útrásar í krafti þeirrar þekkingar sem hér er að finna á virkjun jarðvarma og vatnsafls, sem og á rekstri slíkra virkjana. Virkjun raforku og álframleiðslu hefur verið lýst sem fyrsta hátækniiðnaðinum á Íslandi, sem mótað hafi hér jarðveg fyrir aðrar hátækni- og þekkingargreinar (sjá erindi dr. Ágústs Valfells, lektors við Háskólann í Reykjavík).

Veitufyrirtæki greiða þriðju hæstu meðallaun á Íslandi
Ef horft er til átján atvinnugreinaflokka Hagstofunnar má sjá að í flokknum veitustarfsemi eru greidd þriðju hæstu meðallaunin á Íslandi (miðað við árið 2005, nýjustu tölur þegar þetta er ritað, sjá vef Hagstofunnar). Hæst trónir fjármálaþjónusta, en fiskveiðar og veitustarfsemi koma í næstu sætum þar á eftir, talsvert langt fyrir ofan næstu flokka.

Hitaveitur spara Íslendingum 10 til 20 milljarða á ári
Kynding með jarðhita hefur frá því um 1980 sparað Íslendingum 10 til 20 milljarða króna á ári sem ella færu í innflutning á olíu til brennslu – með tilheyrandi mengun (sjá erindi dr. Valgarðs Stefánssonar frá Orkustofnun). Í dag er mikið horft til kosta jarðhitans sem endurnýjanlegs orkugjafa sem gefur frá sér hverfandi lítið af gróðurhúsalofttegundum. Helsti hvatinn að virkjun jarðhitans hér á landi var hins vegar á sínum tíma fjárhagslegur og áratugum saman hefur nýting jarðhitans sparað þjóðarbúinu mikinn innflutning á olíu og þannig skapað hér mikil verðmæti, auk þess að stuðla að bættum lífsgæðum á marga vegu.