Heimar og SnerpaPower hlutu Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2025

Fullt var út úr dyrum þegar Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2025 voru afhent á Umhverfisdegi atvinnulífsins, sem haldinn var í tíunda sinn 24. nóvember á Hilton Reykjavík Nordica. Verðlaunin eru veitt fyrirtækjum sem skara fram úr í umhverfis- og loftslagsmálum og sýna í verki hvernig árangur næst með markvissum aðgerðum, nýsköpun og ábyrgri stjórnun.

Umhverfisfyrirtæki ársins 2025 er Heimar.

Úr umsögn dómnefndar:

„Heimar er íslenskt fasteignafélag sem fjárfestir í, leigir út og annast rekstur á atvinnuhúsnæði. Félagið hefur tekið afgerandi skref í átt að umhverfislega ábyrgri starfsemi og hefur forgangsraðað í þágu árangurs í umhverfismálum og sjálfbærni, hvort sem heldur er horft til ákvarðana í rekstri, fjárfestingum eða fjárfestingarákvörðunum.

Heimar hafa innleitt umhverfisstjórnunarkerfi sem tryggir að umhverfissjónarmið séu samþætt allri starfsemi félagsins. Með skýrri sýn, mælanlegum markmiðum og stöðugum umbótum hafa Heimar náð eftirtektarverðum árangri sem sést í fjölgun umhverfisvottaðra eigna, grænni fjármögnun, stýringu og vöktun orkunotkunar og minnkandi kolefnisspori. Heimar eru þannig ekki aðeins að fylgja þróuninni heldur að stýra henni með gagnsæi, ábyrgð og metnaði til að ganga lengra en lög og reglur segja til um.“

Umhverfisframtak ársins 2025 hlýtur SnerpaPower

Úr umsögn dómnefndar:

”SnerpaPower ehf. er tæknifyrirtæki á sviði raforkumarkaðar sem hefur þróað frá grunni hugbúnaðarlausn sem gerir stórnotendum raforku, eins og til dæmis álverum og gagnaverum, kleift að nýta lifandi gagnastrauma til að besta og sjálfvirknivæða skammtíma ákvarðanatöku tengdri raforkunotkun og þátttöku á markaði auk þess að uppfylla skyldur um skil á áætlunum og pöntunum rafmagns.

SnerpaPower hefur á örfáum árum umbreytt því hvernig orkusækinn iðnaður nýtir raforku á Íslandi og er fyrirtækið nú að sækja á erlenda markaði. Hugbúnaður SnerpaPower byggir á nýjustu aðferðum í gagnavísindum, gervigreind og vélnámi og styður stórnotendur í að nýta endurnýjanlega orkugjafa á skilvirkari hátt, lækka raforkukostnað og bæta samkeppnishæfni sína á alþjóðamörkuðum. Lausnin eykur nýtni raforkukerfisins alls og skilar umframorku og –afli til samfélagsins sem nýtist beint í orkuskiptin.“

JÁVERK og Krónan fengu sérstakar viðurkenningar á deginum.