11. júlí 2025 Hæstiréttur staðfestir ógildingu á virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar Hæstiréttur hefur staðfest héraðsdóm um ógildingu virkjunarleyfis fyrir Hvammsvirkjun. Rétturinn dæmdi að samkvæmt þágildandi lögum um stjórn vatnamála hafi Umhverfisstofnun hafi verið óheimilt að leyfa breytingu á vatnshlotinu Þjórsá 1 vegna virkjunarinnar. Landsvirkjun hyggst nú sækja um bráðabirgðaleyfi fyrir Hvammsvirkjun samkvæmt lögum sem Alþingi samþykkti í júní en segir þó ljóst að framkvæmdum seinki og kostnaður aukist. Landeigendur við Þjórsá höfðu málið á hendur Landsvirkjun og íslenska ríkinu og kröfðust þess að heimildir og leyfi fyrir virkjuninni yrðu felld úr gildi. Mynd: Landsvirkjun Í dómi Hæstaréttar kemur fram að breytingar sem Alþingi gerði á frumvarpi til laga um stjórn vatnamála frá árinu 2011 hafi verið afdrifaríkar. Lögin voru sett til að innleiða vatnatilskipun Evrópusambandsins. Niðurstaða réttarins er að lokaútgáfa 18. greinar laganna útiloki í raun veitingu leyfa til að breyta vatnshlotum vegna nýrra framkvæmda eins og vatnsaflsvirkjana. Upphaflega heimilaði frumvarpið slíkar “nýjar breytingar” með undanþágu Umhverfisstofnunar ef önnur skilyrði laganna væru uppfyllt. Í skýringum með lagagreininni voru vatnsaflsvirkjanir tilteknar sem dæmi um breytingar af þessu tagi. Við þinglega meðferð var greininni hinsvegar breytt þannig að undanþágur væru einungis mögulegar vegna t.d. mengunar eða loftslagsbreytinga, en ekki vegna nýrra framkvæmda. Hæstiréttur telur því að Umhverfisstofnun hafi skort lagastoð til að leyfa breytingu á vatnshloti vegna Hvammsvirkjunar og þá væri um leið brostinn grundvöllur fyrir virkjanaleyfi Orkustofnunar Landsvirkjun og ríkið héldu því fram niðurstaða héraðsdóms fengi með engu móti staðist enda væri stjórnvöldum þá óheimilt að veita ný leyfi til nýtingar á vatnsaflsauðlindum til raforkuframleiðslu hér á landi eins og gert hafi verið á liðnum áratugum. Jafnframt færi það þvert gegn þeirri stefnu sem Alþingi hefur markað í orkumálum, m.a. með því að færa Hvammsvirkjun úr biðflokki rammaáætlunar í nýtingarflokk. Hæstiréttur segir hinsvegar ljóst að umhverfisnefnd Alþingis “lagði til þá efnisbreytingu á lögunum að vatnshloti yrði ekki breytt vegna áhrifa af nýjum framkvæmdum. Gat þá ekki leikið vafi á að þar með var girt fyrir breytingar á vatnshloti vegna byggingar nýrra vatnsaflsvirkjana,” eins og segir í dómnum. Hæstiréttur bendir líka á að lög verði að vera skiljanleg og borgarar verði að geta treyst því að vilji löggjafans birtist í skýru orðalagi lagatexta. Það stoði því ekki fyrir Landsvirkjun og ríkið að halda því fram Alþingi hafi í raun ætlað að komast að allt annarri niðurstöðu með lagasetningunni. Skipti þá engu máli þó sannfærandi rök hafi verið færð fyrir því. Þá sé það ekki hlutverk dómstóla að leiðrétta slík mistök heldur löggjafans. “Löggjöf verður hverju sinni að endurspegla áherslur og markmið stjórnvalda í orkuskiptum, rafvæðingu og loftslagsmálum.” segir Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku. “Önnur Evrópuríki í þessu skyni endurbætt löggjöf sína, einfaldað og eflt stjórnsýsluferla til að þjóna betur markmiðum sínum.” Finnur segir svo virðast sem Alþingi hafi árið 2011 gert alvarleg mistök sem nú hafi alvarlegar afleiðingar fyrir stöðu orkumála í landinu. Þetta undirstriki skýrt það sem Samorka hafi lagt áherslu á: “Alla löggjöf þarf að vanda vel svo hún vinni með en ekki gegn markmiðum um orkuöryggi og orkuskipti.” Í kjölfar þess að héraðsdómur felldi virkjanaleyfi Hvammsvirkjunar úr gildi í janúar á þessu ári lagði Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, fram frumvarp um breytingu á raforkulögum og um stjórn vatnamála til að eyða lagaóvissu. Þannig yrði hafið yfir allan vafa að fyrrnefnd 18. grein laga um stjórn vatnamála taki til breytinga á vatnshloti, vegna framkvæmda á borð við vatnsaflsvirkjanir. Frumvarpið varð að lögum í júní og á grundvelli þeirrar lagasetningar hyggst Landsvirkjun hyggst nú sækja um bráðabirgðaleyfi fyrir Hvammsvirkjun. Landsvirkjun segir í fréttatilkynningu að síðustu áætlanir hafi gert ráð fyrir gangsetningu virkjunarinnar árið 2030 en töfin sem dómur Hæstaréttar hafi í för með sér gæti þýtt umtalsverða seinkun til viðbótar. Viðbótarkostnaður vegna þessa og vegna tafa á undanförnum árum hlaupi á milljörðum. Mest sé þó tapið fyrir íslenskt samfélag sem verði af þeim verðmætum sem orkan frá Hvammsvirkjun hefði skapað.