30. desember 2016 Góður árangur í fjármögnun hjá Landsneti Landsnet hefur gefið út óveðtryggð skuldabréf að fjárhæð 200 milljónir bandaríkjadollara (22,9 milljarðar króna). Fjármögnunin er liður í því að tryggja félaginu fjármagn á hagstæðum kjörum til lengri tíma, breyta samsetningu lána og draga úr gengisáhættu. Bréfin eru að stærstum hluta með gjalddaga eftir tíu til tólf ár og bera að meðaltali 4,56% fasta vexti. Þau voru seld til alþjóðlegra fagfjárfesta í lokuðu útboði og munu ekki verða skráð í Kauphöll. Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets segir þessa fyrstu erlendu skuldabréfaútgáfu Landsnets vera stórt skref og það sé ánægjulegt hvað fjárfestar sýndu félaginu mikið traust „Skuldabréfaútgáfan skilar okkur hagstæðari kjörum auk þess sem dregið er úr gengisáhættu en félagið tók upp dollar sem uppgjörsmynt í ársbyrjun. Þá er lánstíminn lengri en almennt hefur tíðkast í erlendum lántökum síðustu árin. Við erum fyrsta orkufyrirtækið á landinu til að fara þessa leið í fjármögnun og er ánægjulegt hvað kjörin sem okkur bjóðast eru hagstæð og móttökurnar góðar. Það er árangur mikillar og góðrar kynningar á bæði félaginu og Íslandi.“ Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Landsnets.