Fulltrúar Landsnets heimsóttu skrifstofu Samorku í Brussel

Skrifstofa Samorku í Brussel fékk góða gesti frá Landsneti í heimsókn i dag, 2. september. Ragna Árnadóttir forstjóri, Einar Snorri Einarsson, forstöðumaður skrifstofu forstjóra og Guðmundur Ingi Ásmundsson, fyrrverandi forstjóri áttu þá fund með Sveini Helgasyni, verkefnastjóra erlends samstarfs, sem sagði gestunum frá starfi sínu sem fulltrúi Samorku í Brussel.  Mikilvægi flutningskerfis raforku í orkuskiptum Evrópu og stefna Evrópusambandsins á því sviði var líka til umræðu. 

„Það var ánægjulegt að fá þau Rögnu, Einar Snorra og Guðmund Inga í heimsókn hingað á Norrænu orkuskrifstofuna í Brussel þar sem Samorka er með aðstöðu. Mitt markmið er að leggja aðildarfyrirtækjum Samorku lið og liður í því er að taka á móti fulltrúum þeirra,“ sagði Sveinn um heimsóknina. „Fyrir mig er líka mikilvægt að heyra hvaða mál brenna á stjórnendum í íslenska orku- og veitugeiranum. Það nýtist mér m.a. í að fylgjast með þróun löggjafar og regluverks Evrópusambandsins sem er tekin upp í íslenska löggjöf og mótar þannig starfsumhverfi Landsnets og annarra fyrirtækja í þessum geira.“ 

F.v. Sveinn Helgason, verkefnastjóri erlends samstarfs hjá Samorku, Ragna Árnadóttir forstjóri Landsnets, Einar Snorri Einarsson, forstöðumaður skrifstofu forstjóra og Guðmundur Ingi Ásmundsson, fyrrverandi forstjóri.

Hraðari uppbygging flutningskerfis raforku í Evrópu er í raun hryggjarstykkið í orkuskiptum álfunnar og eitt af stærstu verkefnunum sem Evrópusambandið og aðildarríki þess standa frammi fyrir. Árangur á því sviði er svo ein meginforsendan fyrir því að ná markmiðum ESB í loftslagsmálum. Framkvæmdastjórn ESB hyggst í lok ársins senda frá sér margvíslegar tillögur til að efla og styrkja flutningskerfið og tengda innviði undir samheitinu „European Grids Package.“ 

Samorka er hluti af sterku neti evrópskra hagsmunasamtaka í orku- og veitugeiranum, m.a. í gegnum aðild að ENTSO-E,  sambandi flutningsfyrirtækja rafmagns í Evrópu sem eru með höfuðstöðvar í Brussel. Landsnet vinnur náið með ENTSO-E á ýmsum sviðum.