Eurelectric vilja opnari markað fyrir „græn vottorð“ innan ESB – íslensk raforkufyrirtæki gætu hagnast á slíkri breytingu

Framkvæmdastjórn ESB kynnti á dögunum tillögur að tilskipunum á sviðum orku- og loftslagsmála, þar sem stefnan er m.a. sett á 20% hlut endurnýjanlegrar orku árið 2020, og á 20% minnkun í losun gróðurhúsalofttegunda innan sama tíma. Hlutur endurnýjanlegrar orku er í dag um 8,5% innan ESB og markmið þessi því metnaðarfull, en þess má geta að þetta hlutfall mun nú vera um 75% á Íslandi og fer vaxandi. Ljóst er að miklar kröfur verða gerðar til raforkuframleiðenda í aðildarríkjum ESB á næstu árum en Eurelectric, Evrópusamtök raforkuiðnaðarins, hafa sent frá sér mat á helstu markmiðum þessara tillagna.

Ríkjunum sett mishá markmið
Tillögur framkvæmdastjórnar ESB gera ráð fyrir að þessari 11,5% hækkun á hlut endurnýjanlegrar orku verði náð með ákveðinni verkaskiptingu milli aðildarríkjanna. Öllum ríkjum er gert að auka sinn hlut um 5,75%, en þar til viðbótar eru ríkjunum sett mishá markmið þar sem tekið er mið að þjóðarframleiðslu á íbúa. Þá fá sum ríki að njóta að einhverju leyti þess árangurs sem náðst hefur á undanförnum árum og þannig eru t.d. Finnlandi og Svíþjóð sett markmið undir 11,5% meðalatalinu þótt þjóðarframleiðsla þar sé há.

Auka þurfi áherslu á viðskipti með græn vottorð
Að mati Eurelectric gætu þessar tillögur talist sanngjarnar ef þeim fylgdu ákvæði um öflugt kerfi viðskipta með svokölluð græn vottorð, þ.e. vottorð um þátttöku í framleiðslu á raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þannig gætu ríki með mjög lágt hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa en háa þjóðarframleiðslu á íbúa aukið sinn hlut með þátttöku í slíkum verkefnum í öðrum ríkjum. Sem dæmi má nefna Holland og Belgíu sem nú eru með 2,2% og 2,4% hlut endurnýjanlegra orkugjafa, en eiga að ná 13 og 14% aukningu fyrir árið 2020 sem telst gríðarleg áskorun eigi ríkin að uppfylla hana algerlega innan eigin landamæra.

Tillögur framkvæmdastjórnar ESB gera ráð fyrir kerfi viðskipta með græn vottorð, en aðildarríkjum er í sjálfsvald sett hvort þau taka þátt í slíku kerfi og heimildirnar einskorðast við raunverulegan innflutning á raforku. Til hliðar við þetta kerfi er svo annað kerfi þar sem t.d. íslensk raforkufyrirtæki hafa verið að selja græn vottorð, þar sem einstök fyrirtæki eða stofnanir taka þátt í fjármögnun á framleiðslu raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum í öðrum ríkjum. Þetta kerfi hefur hins vegar ekki áhrif á landsútreikinga heldur virkar eingöngu umræddum fyrirtækjum eða stofnunum til tekna, vilji þau sýna í verki mikla áherslu á notkun endurnýjanlegra orkugjafa.

Myndi þýða greiðari aðgang íslenskra raforkufyrirtækja
Nýju tillögur framkvæmdastjórnar ESB gera ekki ráð fyrir efnislegum breytingum á þessu kerfi, en Eurelectric hafa lagt áherslu á mikilvægi þess að slík græn vottorð frá ríkjum innan sem utan ESB yrðu hluti af kerfinu öllu. Með öðrum orðum, að raforkuframleiðendur frá ríkjum eins og Íslandi gætu selt slík græn vottorð inn í það kerfi viðskipta með græn vottorð sem talist getur ríkjum til tekna í landsútreikningum um hlut endurnýjanlegra orkugjafa. Samorka hlýtur að óska tillögum Eurelectric velgengni við úrvinnslu þessara tillagna á vettvangi ESB, enda myndi þessi stefnumótun samtakanna veita íslenskum raforkuframleiðendum og seljendum mun greiðari aðgang að þessum markaði. Án þessarar opnunar á viðskipti með græn vottorð telja Eurelectric að þessari tillögur ESB muni draga úr samkeppnishæfni atvinnulífs í ríkjum ESB.

Nánar má lesa um tillögur Eurelecric á vef samtakanna.