26. mars 2007 Er Finnland fyrirmynd? Á blaðamannfundi Íslandshreyfingarinnar-lifandi lands var því haldið fram að Finnar væru fegnir því að hafa hætt við virkjanaframkvæmdir og þess í stað einblínt á hátækni- og þekkingariðnaðinn. En er þetta svo, eru Finnar hættir að virkja? Finnar stækka kjarnorkuverUm þessar mundir eru þeir að byggja 1.600 MW viðbót við kjarnorkuver sitt í Olkiluoto sem er 1.720 MW. Viðbótin verður tekin í notkun árið 2009 og verður þetta eina kjarnorkuver þá 3.320 MW. En Finnar eru einnig með annað kjarnorkuver sem er 976 MW og er samanlagt afl kjarnorkuvera þeirra 4.300 MW. Hlutur kjarnorkunnar í raforkubúskap þeirra er nú tæp 25%. Finnar eru ekki hættir að virkja, en eru eins og aðrar Evrópuþjóðir að komast í veruleg vandræði vegna afltoppavandamála og vaxandi orkuþarfar. Í stað endurnýjanlegra orkugjafa virkja Finnar nú kjarnorkuna, og orku frá brennslu kola, olíu og fleiri orkugjöfum. Tæplega fyrirmynd í orkumálumRaforkubúskapur Finna árið 2006 var þannig að brennsla eldsneytis (að meðtalinni innfluttri orku) var um 50%, kjarnorka 25% og vatnsorka 12,6% (sjá nánar hér). Innflutt orka nemur 12,7% og stærstur hluti hennar kemur frá Rússlandi, þar sem orkan er væntanlega framleidd með brennslu jarðefnaeldsneytis. Ólíklegt er að Íslendingar geti, né vilji, taka sér Finna til fyrirmyndar í orkuframleiðslu. Til fróðleiks má geta þess að öll raforkuframleiðsla Íslendinga er tæplega helmingur þess sem Finnar framleiða með kjarnorku og fjórðungur þess sem þeir framleiða með brennslu jarðefnaeldsneytis og flytja inn af slíkri orku. Orkuþörf Finna mun vaxa um 20 TWst. á næstu 20 árum og áætla þeir að mæta þessum vexti með frekari byggingu kjarnorkuvera og áætla að árið 2027 verð um helmingur orkunnar framleiddur með kjarnorku, sem er um tveir þriðju hlutar aukningarinnar. Enn meiri hagvöxtur á ÍslandiÁbendingin um fordæmið frá Finnlandi sneri fyrst og fremst að þeirri áherslu sem þar hefur verið lögð á menntun og rannsóknir. Allir geta verið sammála um mikilvægi öflugs menntakerfis og öflugs rannsókna- og nýsköpunarumhverfis. Líkt og Ísland hefur Finnland náð gríðarlega góðum árangri á sviði efnahagsmála undanfarin ár. Undanfarinn áratug hefur meðalhagvöxtur í Finnlandi verið 3,8% á ári, sem er ekki langt frá íslenska meðaltalinu sem er 4,4%. Finnar verja nú um 3,5% af sinni þjóðarframleiðslu til rannsókna og þróunar, en á Íslandi er þetta hlutfall tæp 3%. Þarna er Finnland í öðru sæti OECD-ríkja en Ísland í því fjórða. Íslendingar geta lært margt af Finnum og þeir sömuleiðis af okkur. Blessunarlega þurfum við hins vegar ekki að fara svipaðar leiðir og Finnar hafa farið á sviði orkumála, en þær eru reyndar vandfundnar þjóðirnar sem búa að endurnýjanlegum orkulindum á borð við þær sem við Íslendingar gerum. Að lokum. Nýting endurnýjanlegra orkulinda hefur einmitt verið kallaður fyrsti hátækniiðnaðurinn hér á landi, og sú þekking sem Íslendingar búa að á því sviði er nú virkjuð í verkefnum víða um heim.