1. mars 2007 Efasemdir um loftslagsmarkmið ESB Evrópusambandið hefur sett sér markmið um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 20% fyrir árið 2020. Jafnframt hefur ESB sett sér markmið um að fyrir árið 2020 verði hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkunotkun innan sambandsins orðið 20%, en þetta hlutfall er nú um 6-7%. Þess ber að geta að á Íslandi er þetta sama hlutfall 72%. Evrópusamtök atvinnulífsins (BUSINESSEUROPE) telja þessi markmið mjög metnaðarfull og lýsa skilningi á umhverfislegu og pólitísku mikilvægi þeirra. Hins vegar lýsa samtökin áhyggjum af einhliða eðli yfirlýsinganna og kvarta undan óvissu um hvernig ESB eigi að ná þessum markmiðum. Evrópusamtök atvinnulífsins leggja áherslu á að einhliða aðgerðir af hálfu ESB muni ekki leysa neinn loftslagsvanda, heldur verði slikar aðgerðir að vera á heimsvísu. Ennfremur lýsa samtökin yfir áhyggjum af því að ekkert liggi fyrir um hvernig eigi að ná þessum háleitu markmiðum á sviði orku- og loftslagsmála og leggja á það áherslu að einhliða aðgerðir af hálfu ESB geti einfaldlega haft þau áhrif að draga úr samkeppnishæfni evrópsks atvinnulífs. Sjá yfirlýsingu forseta Evrópusamtaka atvinnulífsins, Ernest-Antoine Seilliére, til COREPER, fastanefndar aðildarríkja ESB.